Ísland skal leggja sitt af mörkum

Mannréttindi eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Ísland skal leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks. Ísland ætti að setja fordæmi, með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi, í málefnum flóttamanna- og farandfólks sem er í leit að betra lífi. Viðreisn vill auðvelda fólki utan EES að fá atvinnuleyfi og leita tækifæra á Íslandi.

 

Áhersla á valdeflingu stúlkna og kvenna í þróunarsamvinnu

Viðreisn vill að Ísland innleiði formlega feminíska utanríkisstefnu að fordæmi Svíþjóðar, Kanada og annarra ríkja og jafnrétti sé haft að leiðarljósi í öllum störfum utanríkisþjónustunnar. Þar sem alþjóðlegt bakslag hefur orðið í jafnréttismálum á síðustu árum er mikil þörf á að þeim sé haldið vel á lofti í alþjóðlegu samhengi. Ísland hefur hingað til verið öflugur málsvari jafnréttis kynja á alþjóðavettvangi og horft er til Íslands í jafnréttismálum. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi og sé ávallt á varðbergi fyrir þeim nýju áskorunum sem upp koma.  Innleiðing femínískrar utanríkisstefnu myndi styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi sem leiðandi afl í alþjóðlegri jafnréttisbaráttu og hafa góð áhrif á störf utanríkisþjónustunnar á þann hátt að jafnrétti yrði haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum, stórum og smáum. Einnig verði áfram lögð sérstök áhersla á valdeflingu stúlkna og kvenna í þróunarsamstarfi, en það hefur sýnt sig að valdefling kvenna er ein árangursríkasta aðferð þróunarsamvinnu.

Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Ísland á að sýna metnað í alþjóðlegu hjálparstarfi, þróunarhjálp og móttöku flóttamanna.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér