Ræða Benedikts Jóhannessonar á stofnfundi Viðreisnar

Baráttan fyrir nýju Íslandi verður snörp. Við erum flokkur nýrra vona, en vonirnar verða ekki uppfylltar nema við náum góðum árangri á kjördag. Viðreisn er flokkur sem vill skapa Ísland þar sem ungt og hæfileikaríkt fólk vill búa.

Góðir félagar, það er vor í lofti. Eftir langan og harðan vetur rís sólin hærra og við vöknum við fuglasöng. Við fyllumst bjartsýni og tilhlökkun og það er margt sem gleður hugann.

Það er gleðiefni að sjá hve margir eru mættir og ég þakka traustið fyrir hönd okkar sem valin vorum í stjórn. Jafnframt vil ég vil þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóginn við undirbúningsstarfið og bið fundarmenn að taka undir þakkir mínar með lófataki.

Íslendingar eru víða í fremstu röð, í íþróttum, listum og vísindum. Við horfum með aðdáun á þetta afreksfólk sem vinnur ótrúleg þrekvirki og okkur finnst, að við eigum öll svolítið í þeim. Og við eigum svolítið í þeim. Á Íslandi voru aðstæður sem sköpuðu grunninn að afrekunum.

Þannig samfélag viljum við. Samfélag þar sem hver og einn getur þroskað hæfileika sína og náð á toppinn. Þá fyllist þjóðin sameiginlegu stolti. Þegar þau eru fremst erum við fremst.

Og jafnvel í stjórnmálum komast íslenskir ráðamenn á forsíður heimsblaðanna og eru stjörnur í vinsælum sjónvarpsþáttum víða um heim. Leigubílstjórar allt frá San Fransisco til Nýju Delí kinka kolli þegar Íslending ber að garði og segja: Aha! Panama, Panama.

En þá bregður svo við að þjóðin er ekkert stolt. Við hlæjum vandræðalega.

Ísland var á sínum tíma táknmynd fjármálakreppunnar. Nú þegar betur horfir í fjármálum verður landið holdgervingur siðferðiskreppunnar.

Samt kemur þetta ekki á óvart. Aðeins einn af hverjum fimm treystir ríkisstjórninni.

Aðeins einn af hverjum sjö treystir Alþingi, stofnun sem einn af hornsteinum lýðræðisins. Hvernig getur staðið á þessu? Traustið vantar á stjórnkerfi Íslands.

En er þetta skrítið? Hvernig hugsa stjórnmálamenn um almenning?

Sagan segir er að stjórnmálamaður nokkur hafi sagt í þröngan hóp: „Kjósendur eru ekki eins vitlausir og þið haldið. — Þeir eru miklu vitlausari“

Eflaust var þetta sagt í hálfkæringi, en því miður virðast fjölmargir ráðamenn hugsa svona. Þeir treysta því að hægt sé að  lofa því fyrir kosningar að þjóðin sjálf fái að ráða því hvert verði framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Taka það meira að segja fram að við það loforð verði staðið til þess eins að svíkja það og send bréf og segja að viðræðunum yrði hætt.

Þetta er eins og foreldri sem lofar barni sínu á það fái að leika sér í spjaldtölvunni í fyrramálið, ef það er stillt og fer snemma að sofa. Þegar barnið vaknar hlær pabbinn hins vegar, þverneitar að standa við loforðið og hendir I-padinum í ruslið.

Hvernig verður nokkurn tíma hægt að treysta loforði frá þessum flokkum?

Ráðamenn segja þjóðinni að enginn gjaldmiðill í heiminum sé jafngóður og íslenska krónan á sama tíma og þeir geyma sjálfir feita gjaldeyrissjóði í fjarlægum löndum. Þeir mega þó eiga það, að þeir eru ekki svo vitlausir að trúa sér sjálfir.

Máltækið segir að guð hjálpi þeim sem hjálpa sér sjálfir. Það sama verður ekki sagt um íslenska ríkið. Ríkið refsar þeim sem hjálpa sér sjálfir.

Ríkið ýtir öldruðum af vinnumarkaði á ákveðnum aldri, óháð því hver starfsorkan er. Hvers konar samfélag hefur efni á því að afþakka framlag fólks með mikla reynslu, færni og þekkingu sem vill vinna?

Ungt fólk byrjar lífsbaráttuna með þung námslán og mætir sífellt hærri þröskuldum í íþyngjandi vöxtum og ómarkvissum aðgerðum stjórnvalda.

Nei, það er ekki margt líkt með ríkisstjórninni og guði. Og þó. Sagt er að vegir guðs séu órannsakanlegir og það eru vegir ríkisstjórnarinnar sannarlega líka.

„Ég hef talið mig fulltrúa útgerðarinnar“ sagði stoltur þingmaður. Heilir flokkar telja sig þurfa að verja réttindi landbúnaðarkerfisins, ekki  bændur eða sveitirnar heldur kerfið og einokunarfyrirtækin. Verja sérhagsmunina.

Enginn flokkur á Alþingi setur neytendur, venjulegt fólk, í forgang.

Almenningi er ofboðið og margir gefast upp. Áhugi á stjórnmálum minnkar og sumir virðast halda að vandinn hverfi ef við hættum að hugsa um hann. Kannski vöknum við einn morguninn og komumst að því að þetta var allt slæmur draumur.

En það gerist auðvitað ekki.

Nei, við getum ekki beðið og vonað. Við verðum að safna liði og búa til nýtt Ísland. Ísland þar sem hæfileikar fólks fá að nýtast til fulls.

Ísland með vandaða stjórnsýslu þar sem allir hafa jöfn tækifæri. Ísland þar sem farið er vel með peninga og styrkjum ríkisins ekki úthlutað til vildarvina með sms-um.

Hve oft höfum við heyrt stjórnmálamenn segja að ekki sé hægt að byrja á einhverju vegna þess að það tekur svo langan tíma? Hve oft heyrum við að við getum ekki byrjað á verkefni fyrr en einhverju öðru er lokið? Á morgun segir sá lati. Seinna segir sá sem meinar aldrei.

Sumir vara okkur við og segja: Ekki reyna að breyta þessu og ekki breyta hinu því að þá eignist þið valdamikla óvini sem munu láta einskis ófreistað að að verja kerfið.

Þannig megum við aldrei hugsa. Við eigum óhikað að leggja í breytingar og byrja að vinna á fyrsta degi nýrrar stjórnar. Hálfnað er verk þá hafið er.

Annar stjórnarflokkurinn segir það vera höfuðmál sitt í komandi kosningum að koma í veg fyrir kerfisbreytingar. Hinn hefur verið þekktur fyrir það að færa landið til fortíðar og hefur meðal annars boðið upp á einstakt tækifæri til þess að vinna með framliðnum arkitektum.

Við ætlum að læra af sögunni en ekki vera föst í hlekkjum hennar. Við ætlum að búa til betri framtíð og eftirlátum öðrum að breyta fortíðinni.

Við þurfum að byrja upp á nýtt. Kveðjum klækina og heilsum heiðarleikanum.

Við erum liðsmenn almennings en ekki óvinir neinna.

Við ætlum ekki að gefa eigur almennings eða selja þær undir markaðsverði. Í því felst réttlæti en engin óvild.

Við viljum leyfa fólki sjálfu að kaupa þær landbúnaðarvörur sem það vill á sama verði og í nágrannalöndum. Í því felst réttlæti en engin óvild.

Við viljum að allir hafi jafnan kosningarétt til Alþingis. Í því felst réttlæti en engin óvild.

Maður sem er vanur íslenskri pólitík spurði mig um daginn: Hvað getið þið boðið mér sem aðrir geta ekki boðið mér? Svar mitt var einfalt: Viðreisn er ekki flokkur sem snýst um að bjóða einhverjum einum eitthvað heldur ætlar Viðreisn að bæta hag allra.

Margir spyrja hverjir verði í framboði. Því er til að svara að skipað verður á lista um það bil tveimur mánuðum fyrir kosningar. Ég get fullyrt að þar verður einvalalið. En Viðreisn er óvenjulegur nýr flokkur. Viðreisn er stofnuð kringum málefni, ekki menn.

Markmiðið er ekki bara að skipta um fólk heldur um forrit!

Baráttan fyrir nýju Íslandi verður snörp. Við erum flokkur nýrra vona, en vonirnar verða ekki uppfylltar nema við náum góðum árangri á kjördag. Viðreisn er flokkur sem vill skapa Ísland þar sem ungt og hæfileikaríkt fólk vill búa.

Í dag sameinum við krafta þessa hóps, krafta fólks sem hefur ástríðu fyrir Íslandi þar sem allir fara að sömu reglum, allir leggja sitt af mörkum og allir uppskera. Þegar Viðreisn vinnur kosningarnar vinnum við öll!