Við viljum heiðarleg stjórnmál – Ávarp Bjarna Halldórs Janussonar á stofnfundi

Glaður í hjarta geng ég til kosningabaráttu undir merkjum Viðreisnar. Flokks sem tekur fagmennsku, frjálslyndi og ferskleika fram yfir flokkapólitík, afturhaldsemi og hentistefnu stjórnmálamanna.

Þegar við öðlumst afl til að tileinka okkar nýja stjórnarhætti, sjáum við fram á viðreisn samfélagsins.

Sæl öll!

Nú þegar verið er að stofna Viðreisn taka málin að skýrast. Eitt virðist koma fólki sérstaklega á óvart. Það er hve við, ungliðarnir, tökum virkan þátt í mótun og stofnun Viðreisnar.

Þessi öfluga aðkoma okkar ungliðanna virðist afsanna þá kenningu að ungt fólk hafi yfir höfuð ekki áhuga á stjórnmálum. Stjórnmálin sjálf eru nefnilega ekki sökudólgurinn. Stjórnmál snúast einfaldlega um að skipuleggja samfélag og móta umgjörð um líf okkar og framtíð. Augljóslega vill ungt fólk hafa eitthvað um það að segja, eins og allir aðrir.

Hins vegar hefur ungt fólk ekki áhuga á þeirri gerð stjórnmála sem hafa ráðið för á Íslandi. Þar er sérhagsmuna-gæsla flokka tekin fram yfir almannahagsmuni. Þar einkennist stefnumótun stjórnmálaflokka af því hvað hentar hverjum flokki best til atkvæðakaupa hverju sinni.

Þess vegna var Viðreisn einmitt stofnuð. Því við viljum heiðarleg stjórnmál sem einkennast af almannahag og umbótahugsjónum. Þetta hljómar kannski of gott til að vera satt. Þannig hugsaði ég einmitt þegar ég tók fyrst þátt í þessu ferli.

Á þeim tíma steig ég mín fyrstu skref á leigumarkaði og fékk að kynnast af eigin raun hve slæmt ástandið er þar. Ég, ungur námsmaður spenntur fyrir komandi tækifærum, áttaði mig þá enn betur á því hversu nauðsynlegt afl eins og Viðreisn er. Tækifærin eru nefnilega engin fyrir mína kynslóð, nema við höfum kjark og getu til að breyta íslensku samfélagi. Til þess þarf nýtt stjórnmálaafl.

Þegar ég sá svo að ungt fólk fékk að sitja til jafns við eldri kynslóðir í þessum flokki, þá var ég endanlega sannfærður. Sjálfur hef ég beðið lengi eftir slíku stjórnmálaafli.

Því staðan er því miður þannig að þúsundir ungmenna mæta hreinlega ekki á kjörstað – og það er vegna þess að það hefur ekki verið neitt almennilegt í boði fyrir þennan hóp.

Þessi hópur tilheyrir nýrri tíð, nýrri kynslóð sem vill raunverulegar breytingar og sættir sig ekki við hvað sem er. Þessi hópur veit að samfélagið er ekki einungis fyrir einstaka hópa, heldur fyrir okkur öll. Þessi hópur áttar sig á því að stefnumótun í málum unga fólksins hefur einkennst af algjöru ráðaleysi og áhugaleysi stjórnmálamanna.

Besta alþingið tel ég vera það þing, þar sem allir hópar hafa fulltrúa við borðið. Þess vegna er auðvitað mikilvægt að ungt fólk fái að taka virkan þátt í mótun samfélagsins, ekki síst hvað varðar menntamál, velferðarmál og húsnæðismál.

Þessi mál eru okkur í Viðreisn einmitt mjög ofarlega í huga. Það hefur nefnilega ekki bara verið skortur á ferskleika, heldur líka fagmennsku í íslenskum stjórnmálum. Þetta tvennt vinnur vel saman.

Ferskleiki er mjög nauðsynlegur samfélaginu, þar sem það þarf að vera opið fyrir breytingum, nýjum tíðaranda og nýjum tækifærum.

Fagmennska er nauðsynleg til að ná í gegn breytingum sem eru öllu samfélaginu til hagsbóta, því umbætur falla ekki af himnum ofan – það þarf að vinna fyrir þeim.

Á opnum málfundi, sem við unga fólkið héldum, kom skýrt fram þessi augljósi skortur á fagmennsku í stjórnmálum á Íslandi.

Við búum við gríðarlega dýrt lánakerfi, þar sem allt of miklir fjármunir fara í vaxtagreiðslur. Undanfarin ár hefur leiguverð svo hækkað tilfinnanlega ár frá ári, en tekjur ungs fólks ekki hækkað í samræmi við það.  

Lítið sem ekkert hefur verið gert fyrir þennan hóp í þessum vanda. Þess vegna þarf afl eins og Viðreisn til að taka málin föstum tökum, eins og má sjá í stefnuskrá okkar.

Það sama á við um menntamálin. Þar þurfa að vera sambærileg tækifæri fyrir íslenska nemendur og nemendur í nágrannaríkjum okkar. Stefna þar sem allir nemendur eru steyptir í sama móti gengur ekki lengur. Þess vegna er mikilvægt að hafa fjölbreytni í fyrirrúmi.

Styðja þarf ungt fólk til að velja sér nám, sem hentar hæfileikum þess og áhugasviði, einmitt svo að kraftar þess nýtist því og samfélaginu sem best. Sjálfstæði og sveigjanleiki eru mikilvæg í menntamálum. Stefna Viðreisnar í menntamálum einkennist af þessu tvennu.

Það er líka mikilvægt að hlúa að heilsu ungs fólks í framhaldsskólum, en þeir nemendur sem hætta í námi glíma gjarnan við vanlíðan eða námsörðugleika. Viðreisn telur að þessir nemendur eigi fá þann skilning og þá aðstoð sem þeir þurfa.

Glaður í hjarta geng ég til kosningabaráttu undir merkjum Viðreisnar. Flokks sem tekur fagmennsku, frjálslyndi og ferskleika fram yfir flokkapólitík, afturhaldsemi og hentistefnu stjórnmálamanna.

Þegar við öðlumst afl til að tileinka okkar nýja stjórnarhætti, sjáum við fram á viðreisn samfélagsins.