Dagur hataranna

Harmleikurinn í Orlando var ekki byrjun á góðum degi. Fréttir bárust af því að fjölmargir hefðu farist í árás á klúbb fyrir hinsegin fólk. Allt að tuttugu manns lægju í valnum.

Núorðið eru fáir hommahatarar opinberlega á Íslandi. En það hefur örugglega truflað suma lítið að tuttugu „kynvillingar“ hefðu tapað lífi. Á sínum tíma töluðu sumir um að eyðni væri „hefnd guðs“ gegn þessum „fyrirbærum“. Einhverjir hafa kannski fundið gamla neistann vakna, en höfðu vit á því að þegja.

Svo fréttist að fórnarlömbin hefðu ekki verið tuttugu heldur fimmtíu látnir og jafnmargir særðir. Mér varð flökurt þegar ég heyrði fréttirnar sífellt versna. Hvers konar afstyrmi getur fengið af sér að drepa tugi manns sem hann þekkir ekki neitt, fólk sem hefur það eitt til saka unnið að hafa aðra kynhneigð en morðinginn?

Í hugann kom annað fjöldamorð fyrir fáeinum árum. Frá Ósló bárust fregnir um að fjöldi manns hefði orðið fyrir barðinu á skelfilegri árás. Áður en vitað var hverjir ógæfumennirnir gætu verið komu upp sögur um að líklega væru íslamskir hópar að verki. Þegar upp var staðið kom í ljós að tugir ungmenna voru látnir, fólk sem hafði það eitt til saka unnið að vera sósíaldemókratar.

Svo var upplýst að morðinginn var alls ekki „múslimisti“ heldur Norðmaður, kristinn kynþáttahatari. Einn af okkur. Hafði meira að segja gengið í frímúrarahreyfinguna.

Engum datt í hug að banna innflutning kristinna Norðmanna til Bandaríkjanna eða Íslands í kjölfar voðaverkanna í Útey. Enginn krafðist þess að frímúrarahreyfingin yrði leyst upp. Allt gott fólk áttaði sig á því að Breivik var sjúkur maður, gagntekinn af hatri, en ekki einu sinni hatararnir studdu hann.

Omar Mateen var ekki kristinn Norðmaður eða frímúrari. Hann var sonur innflytjenda frá Afganistan. Hann hafði verið giftur fyrir sjö árum og konan hans fyrrverandi lýsti honum sem „tilfinningalega óstöðugum, veikum andlega, greinilega mikið trufluðum.“ Omar beitti konu sína ofbeldi þangað til fjölskylda hennar „bjargaði henni“ úr skammlífu hjónabandinu.

En Omar Mateen var einn af þeim. Þess vegna finnst höturunum gott að nota voðaverkin í Pulse-klúbbnum til þess að magna andúð á múslimum á Íslandi. Trump var fljótur að nýta sér þau í þágu síns málstaðar.

Annað hvort ertu með Trump eða ISIS. Annað hvort styður þú Bush eða Saddam Hussein. Svona einföld er veröld sumra. Nú er „góða fólkið“ samheiti um þá sem í besta falli eru kjánar, í versta falli bandamenn hryðjuverkamanna.

Góða fólkið verður samt að vinna. Hatrið má aldrei verða ofan á. Hvort sem það er hatur á fólki sem kýs annan lífstíl eða aðra trú en „við“. Tómas Guðmundsson orti um „hve hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu“. Hatrið er líka það sama í Damaskus og döprum hjörtum Íslendinga sem láta heiftina bera sanngirnina ofurliði.

Við fordæmum glæpamenn hvar sem er í heiminum, en við stimplum ekki alla glæpamenn sem eiga eitthvað sameiginlegt með ódæðismönnunum.

Indíánahöfðinginn sneri aftur að kvöldi. Hans dauðadægur kom ekki þennan dag. Fórnarlömb hatursins í Pulse-klúbbnum og Útey koma aldrei aftur. En ef samfélagið leyfir hatrinu að ná yfirhöndinni hafa glæpamennirnir unnið og við höfum öll tapað.

Benedikt Jóhannesson