Hvað vilt þú upp á dekk?

Þegar ég ákvað að bjóða mig fram til þings fyrir Viðreisn var ég líklega í þeirri einstæðu stöðu að geta sem formaður flokksins nánast valið hvar ég vildi bjóða mig fram. Fyrst þurfti ég samt auðvitað að svara því hvers vegna ég vildi fara á þing. Eru nokkrar líkur á því að það muni breyta nokkru hvort ég sit á Alþingi frekar en einhver annar?

Svar mitt var , vegna þess að félagar mínir í Viðreisn og ég viljum gera grundvallarbreytingar á samfélaginu ber okkur skylda til þess að gefa kost á okkur á Alþingi. Við teljum að reynsla okkar og þekking komi þar að góðum notum, þegar hrinda á í framkvæmd víðtækum kerfisbreytingum á íslensku samfélagi.

Rétt er að taka fram að mér hefur verið afar vel tekið og enginn hefur álasað mér fyrir að vera ekki heimamaður, en það er auðvitað eðlilegt að spurt sér: Hvers vegna vilt þú gefa kost á þér í Norðausturkjördæmi?

Svar mitt er fremur einfalt: Mig langaði til þess að vinna þessu kjördæmi gagn. Ég var í sveit á Kílakoti í Kelduhverfi og þegar ég fór þangað í heimsókn um daginn eftir áratuga fjarveru hugsaði ég með mér: Þessi stund ein er þess virði að hafa gefið kost á sér.

Pabbi fæddist á Norðfirði og þar bjuggu afi og amma. Þau eru ekki mörg árin sem ég hef ekki komið þangað, stundum oft. Mamma átti svo rætur í Þingeyjarsýslu. Benedikt, afi minn í móðurætt, fæddist á Húsavík og þar var pabbi hans veitingamaður eða vert eins og kallað var. Benedikt er nokkuð algengt nafn á Þingeyingum og þeir eru flestir frændur mínir sem bera það nafn.

Þyngst vó þó að ég tel að frjálslynd stefna Viðreisnar eigi góðan hljómgrunn og brýnt erindi við þá sem byggja norðausturhluta landsins. Hér hefur jafnan verið góður jarðvegur fyrir breytingar, nýjungar og farsælar lausnir. Ég er svo heppinn að fá tækifæri til þess að leiða lista af dugmiklu og hugmyndaríku fólki. Sérstaklega nefni ég Betty, Hildi Betty Kristjánsdóttur, sem skipar annað sætið. Að henni yrði mikill styrkur fyrir kjördæmið á Alþingi.

Tvær róttækar hugmyndir Viðreisnar að kerfisbreytingum sem myndu bæta hag almennings og fyrirtækja á þessu svæði vil ég nefna:

Í fyrra lagi fastgengisstefnu með myntráði þar sem gengi krónunnar er fest við erlendan gjaldmiðil og má aðeins hreyfast innan þröngra marka. Þetta er geysilega mikilvægt fyrir landfjórðung þar sem útflutningur skiptir jafnmiklu máli og raun ber vitni. Sjómenn sjá laun sín lækka í krónum talið, nánast dag frá degi. Ferðaþjónustan, útgerðin og aðrar útflutningsgreinar nú miklu minni tekjur í íslenskum krónum en í upphafi árs. Gengissveiflur grafa undan efnahagsstöðugleika, rekstrarhæfi fyrirtækja og ógna lífskjörum almennings.

Reynsla annarra þjóða sem hafa bundið gengi síns gjaldmiðils með þessum hætti er sú að vextir lagi sig að þeim vöxtum sem gilda um myntina sem fylgt er. Í nágrannalöndum eru vextir á óverðtryggðum lánum 1,0 til 4,5 prósent meðan þeir eru 7,0 til 11,0% hér á landi. Vaxtalækkun sem næmi aðeins helmingi af þessum mun myndi færa heimilum þeirra sem standa í íbúðakaupum sem svarar 50 til 100 þúsund króna króna kauphækkun. Fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið borga þá líka lægri vexti, samkeppnishæfni landsins batnar og ríkið hefur meiri fjármuni lausa til góðra verkefna.

Hitt málið sem ég vil nefna er sátt um markaðsleið í sjávarútvegi. Engum dylst að óviðunandi er að stöðugar deilur séu um afgjald fyrir aðgang útgerðanna að sameiginlegri auðlind landsmanna. Vinstri stjórnin sem ríkti á síðasta kjörtímabili vildi hækka auðlindagjaldið þannig að það næmi nú tæplega 40 milljörðum króna. Hægri stjórnin sem nú situr í stjórnarráðinu hefur lækkað gjaldið niður í 4 milljarða úr tæplega 13 milljörðum króna. Það er óviðunandi að það fari eftir duttlungum stjórnvalda hvert afgjaldið er.

Því leggur Viðreisn til markaðstengt gjald þar sem ákveðinn hluti veiðiheimildanna er settur á markað á hverju ári. Við höfum nefnt 3-8 prósent, en ég hef hneigst að lægri tölunni. Þá ræðst afgjaldið af getu fyrirtækjanna en ekki duttlungum stjórnvalda eða embættismanna hverju sinni. Afgjaldið fyrir söluna fari í innviðasjóð í hverju kjördæmi um sig. Það væri hægt að hraða uppbyggingu fjarskiptakerfis, samgangna og heilbrigðisþjónustu ef fimm til sex milljarðar viðbótarkróna kæmu inn í þau verkefni á hverju ári og horfi ég þá eingöngu til þessa kjördæmis.

Hér hef ég nefnt tvö mál sem myndu hafa bein og skjót áhrif í kjördæminu. Það er bæði íbúum og fyrirtækjum mikilvægt að stöðugleiki og sátt ríki um mikilvægustu atvinnugreinarnar. Uppbygging innviða er líka grunnurinn að því að bæta lífskjörin og á sama tíma styrkir það ferðaþjónustu á svæðinu, sem skýtur sterkari stoðum undir byggðina.

Þess vegna vil ég upp á dekk og vona að stefna Viðreisnar fái gott brautargengi.