Innflutningskvótar

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram vilji til þess að endurskoða aðferðir við ráðstöfun innflutningskvóta á landbúnaðarafurðum sem hafa verið boðnir upp fram að þessu við litlar vinsældir. Hér verður fjallað stuttlega um þessa kvóta og tilurð þeirra.
Í svo nefndri Uruguay lotu hjá GATT/WTO sem stóð frá 1986-1994 var reynt að fella landbúnaðarafurðir undir regluverk alþjóðlegra viðskipta. Fyrsta skrefið í þá átt var að umbreyta fjölbreyttri flóru tolla, innflutningskvóta og allskonar tæknilegra viðskiptahindrana í tollígildi sem mynduðu þak á tollbindingu. Þetta var gert til að auðvelda samningaviðræður yfir 120 ríkja um tollalækkanir. Hvert land setur fram hámarkstilboð og síðan er samið um almennar hlutfallslækkanir í samræmi við regluna um bestukjaraviðskipti (e. Most Favored Nation Clause). Útreiknuð tollígildi fyrir íslenskan landbúnað gátu farið í mörg hundruð prósent í einstökum tilfellum. Þótt tollígildin væru fyrst og fremst hugsuð sem samningatæknileg viðmið þóknaðist stjórnvöldum hér að beita slíkum „GATT ofurtollum“ til að gera innflutt matvæli óheyrilega dýr og skerða þar með hag neytenda.
Í Uruguay lotunni var samkomulag um að ríkin skyldu leyfa innflutning landbúnaðarvara á lágum eða engum tollum þar sem aðgengi (e. current access) er undir 3%-5% af innanlandsneyslu. Með þessu átti að þroska viðskipti og gefa neytendum hugmynd um verð og valkosti í innflutningi. Hér á landi hugkvæmdist stjórnvöldum að bjóða kvótann upp og koma þannig í veg fyrir að lækkun tolla skilaði sér til neytenda.
Þessi svikamilla stjórnvalda gekk gegn Uruguay samkomulaginu en því miður varð enginn til að kæra athæfið til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Að vísu er útfærslan á því hvernig skila á vöru með lágum tolli til neytenda þegar verðmunur er mikill og eftirspurn þung ekki auðveld. Hlutkesti eða önnur úthlutun sem gæti virst sanngjörn leið til að gera upp á milli innflytjenda þarf ekki skila sér til neytenda eins og reynsla af tollalækkunum sýnir við skilyrði fákeppni. Ein leið væri einskonar verðlagseftirlit þar sem vörur undir þessum formerkjum væru sérmerktar með upplýsingum sem tryggðu að neytendur sæju hvort álagning væri hófleg.
Innflutningur landbúnaðarvara er ekki ógn við hagsæld landsmanna. Skilyrði til landbúnaðarframleiðslu eru að vísu almennt lakari hér á landi en víða erlendis. Það þýðir ekki að bestu jarðir hér séu lakari en verstu jarðir í samkeppnislöndum. Málið snýst um að nýta landkosti til framleiðslu innanlands á umtalsverðu hlutfalli af neyslunni með hagkvæmum hætti fremur en að rembast við að framleiða langt umfram eftirspurn með stórtapi fyrir land og lýð.