Auðlindaákvæði stjórnarskrár og ESB viðræður

Samþykkt var af Alþingi árið 2009 að hefja viðræður við ESB um fulla aðild. Þessum viðræðum var síðan slitið án þess að niðurstaða lægi fyrir. Spurningin er hvers vegna ekki mátti fá fram niðurstöðu   í viðræðurnar. Lýðræðisleg leið var að andstæðingar aðildar legðust gegn samningi þegar hann lægi fyrir til samþykktar eða höfnunar í þjóðaratkvæðisgreiðslu.

Svarið við þessari spurningu fæst ef litið er til þess að sömu öfl virðast hafa barist gegn endurskoðun á stjórnarskránni og hindruðu framgang ESB viðræðna. Hnífurinn stendur í kúnni vegna tillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskránni, en slíkt ákvæði myndi verulega auðvelda mótun samningsafstöðu gangvart ESB í fiskveiðimálum.

Auðlindaákvæðið tryggir eign þjóðarinnar á fiskveiðiréttindum á Íslandsmiðum.  Ákvæðið er ekki þjóðnýting á eignum útgerðamanna heldur trygging fyrir því að fiskimiðin verði ávallt undir stjórn Íslendinga og fullt gjald fyrir sérréttindi til nýtingar skuli renna til almennings. Auðlindaákvæðið er nauðsynleg vörn gegn ásælni innlendra og erlendra aðila. Með auðlindaákvæði í stjórnarskrá eru almannahagsmunir tryggðir þegar kemur að mótun samningsafstöðu Íslands í viðræðum við ESB.

Stórútgerðin er alfarið á móti auðlindaákvæðinu og mun halda áfram að berjast gegn slíkum breytingum á stjórnarskránni með kjafti og klóm. Von kvótagreifanna er að ákvæði um þjóðareign í lögum um fiskveiðar verði fellt niður er fram líða stundir og kvótinn teljist skýlaus eign þeirra innan fárra ára.

Í stefnuyfirlýsinu ríkisstjórnarinnar er ritað að Alþingi ákveði hvort fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið ef þingmál þar að lútandi komi fram fyrir lok kjörtímabilsins. Í stefnuyfirlýsingunni er einnig gefið fyrirheit um að unnið verði að endurbótum á stjórnarskránni á grundvelli þess starfs sem þegar hefur verið lagt í það mál og liggi tillögur fyrir árið 2019. 

Mikilvægt er að nýta tímann vel til undirbúnings viðræðna við ESB og styrkingar lagagrundvallar fyrir skýlausa eign þjóðarinnar á fiskiauðlindinni. Meirihluti utanríkismálanefndar nefndi þann möguleika í aðdraganda samningaviðræðna við ESB að Ísland verði sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði innan ESB. Með vel undirbúna samningsafstöðu og auðlindaákvæði í farteskinu ætti að vera auðvelt að ljúka hagfelldum samningaviðræðum um fiskveiðimál við Evrópusambandið.