Fyrstu vikurnar í fjármálaráðuneytinu

Hér á eftir eru kaflar sem ég hef skrifað eftir hverja viku í fjármálaráðuneytinu. Í þeim ræði ég stuttlega starfið, einstök verkefni og ýmsar vangaveltur sem því tengjast. Með þessum skrifum og birtingu hyggst ég gefa almenningi betri innsýn í störf mín í ráðuneytinu. Reynsla mín fyrstu vikurnar gefur til kynna að þar sé margt mjög fært fólk að störfum og það hefur hjálpað mér mikið, því vissulega stekkur maður út í djúpu laugina.

Þriðja vika – skrifað 2. febrúar

Nú líður að lokum vikunnar. Þessi vika var tileinkuð tvennu: Baráttu við skattsvik og svarta hagkerfið og undirbúningi að afléttingu hafta. Ég kom fram í fjölmiðlum og lýsti þeirri skoðun minni að við yrðum að taka baráttuna við skattaundanskot alvarlega. Þess vegna hef ég ákveðið að láta halda áfram athugun á aflandssvikum og hyggst láta rannsaka frekar svonefnda faktúrufölsun, þ.e. þegar reikningurinn sem gefinn er út erlendis stemmir ekki við vöruverðið. Með því móti geta innflytjendur sent háa greiðslu til útlanda, talið hana til kostnaðar og látið erlendan söluaðila leggja hluta greiðslunnar inn á reikning erlendis. Þannig hafa menn fengið skattfrjálsar tekjur og í sumum tilvikum fært þær til aflandssvæða. Þetta vil ég láta skoða betur og finna leiðir til úrbóta.

Jafnframt hef ég ákveðið að skipa hóp til þess að leggja til atlögu við svarta hagkerfið. Þar hef ég nefnt möguleika á því að laun skuli ávallt greidd inn á bankareikning en ekki í reiðufé. Greiðsla í reiðufé getur falið skattaundanskot og misnotkun á vinnuafli með því að borga lægri laun en gera á og jafnframt að launatengdum gjöldum sé ekki skilað. Ég hef líka talað fyrir því að skorður séu settar við því að hægt sé að greiða mjög dýra vöru með reiðufé. Það er þekkt leið til peningaþvættis. Allir þekkja svo nótulaus viðskipti sem skjóta undan virðisaukaskatti og minnka framtaldar tekjur. Flest Evrópuríki hafa reglur af þessu tagi.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að minni viðskipti með reiðufé séu öruggari fyrir bæði kaupendur og seljendur, auk þess sem mikið af seðlum í umferð dregur úr vaxtatekjum. Ég veit vel að flestir þeir sem greiða með seðlum eru stálheiðarlegt fólk og það geta verið góðar ástæður fyrir því að menn vilji ekki nota banka eða kreditkort. Auðvitað stendur ekki til að njósna um viðskipti hvers og eins fremur en gert er nú hjá þeim 90% (eða hvað það er) sem nota kort og bankaviðskipti. Við þurfum einfaldlega að finna réttu leiðirnar þannig að heiðarleg sjónarmið séu virt.

Ég mun skipa hópa til þess að vinna að þessum verkefnum á morgun eða mánudag og vænti niðurstöðu í maí. Þá er hægt að undirbúa löggjöf í sumar.

Stýrinefnd um afnám hafta kom saman í vikunni og fljótlega verður ákveðið hvernig taka eigi lokaskrefið í því ferli.

Í ráðuneytinu stendur yfir vinna við eigendastefnu ríkisins í sínum fyrirtækjum og jafnframt undirbúningur að reglum um mat á hæfi stjórnarmanna í fyrirtækjum ríkisins. Hvort tveggja er mjög mikilvægt.

Ég hef hitt fulltrúa tveggja launþegasamtaka opinberra starfsmanna og hef lýst því yfir að ráðuneytið vilji þegar í stað hefja vinnu við samanburðarathugun á kjörum á opinberum og almennum vinnumarkaði. Þessi úttekt er mjög mikilvægur áfangi á leiðinni að stöðugleikasamkomulagi á vinnumarkaði. Það er ófært að ekki skuli ríkja gott traust milli samningsaðila og ég ætla að leggja mitt af mörkum til þess að bæta það.

Við Gylfi Ólafsson, aðstoðarmaður minn, erum búnir að fara í heimsóknir í margar af stofnunum ráðuneytisins. Þær eru tólf talsins og við erum búnir að heimsækja meirihlutann. Það er mjög gagnlegt fyrir nýjan ráðherra að kynnast betur starfsemi þessara undirstofnana og eykur skilning minn á því hvert hlutverk hverrar um sig er, auk þess að fram hafa komið margar gagnlegar hugmyndir. Í vikunni eru það Yfirskattanefnd, Hagstofan og Fjársýsla ríkisins auk heimsókna í ráðuneytið frá Bankasýslunni og Landsvirkjun (sem er auðvitað ekki stofnun, en þangað fer ég síðar í heimsókn).

Loks er þess að geta að ég hef tekið á móti mörgum fulltrúum erlendra ríkja og það er skemmtilegt. Ég legg alltaf áherslu á það að við styðjum frjáls viðskipti og frelsi til fólksflutninga, sem og góð samskipti við þessi lönd. Líka þegar ég hitti Bandaríkjamenn og Breta. Atburðir í heimsmálum leiða til þess að við verðum að færa okkur nær Evrópu, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Önnur vika – skrifað 28. janúar

Þá er að ljúka annarri heilu vikunni í fjármálaráðuneytinu. Megináherslan hefur verið á að koma fjármálastefnu til þingsins. Fjármálastefna er rammi utan um fjárlög næstu fimm árin og því afar mikilvægt plagg.

Í stefnunni sem ég lagði fram á þriðjudag og talaði fyrir í þinginu á fimmtudag er sagt að afgangur af ríkisfjármálum eigi að vera 1,5% næsta ár í stað 1,0% eins og gildir fyrir yfirstandandi ár. Þetta þýðir að ríkið leggur sitt af mörkum tþa draga úr spennu í samfélaginu, en fyrri fjármálastefna var gagnrýnd af Seðlabankanum fyrir of lítið aðhald. Meira aðhald af hálfu ríkisins þýðir að Seðlabankinn á auðveldara með að lækka stýrivexti, en vaxtalækkun er mjög til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki og skilar sér sem kjarabót. Þetta er eitt af aðalstefnumálum Viðreisnar í kosningabaráttunni.

Auk fjármálastefnunnar hefur afnám hafta mikil áhrif og vinna við það heldur áfram. Þar á eftir að leysa upp um 190 milljarða króna af „snjóhengjunni“ svonefndu, en það eru peningar sem erlendir aðilar eru með bundna hér á landi. Vonandi tekst að ljúka því á yfirstandandi ári, en við munum vinna að því eins og hratt og örugglega og hægt er.

Jafnframt hefst starf nefndar um mörkun peningastefnu vonandi fljótlega, en byrjað er á undirbúningi fyrir það í ráðherranefnd um efnahagsmál.

Næsta stóra verkefni hjá mér verður að undirbúa tillögur um stríð gegn svarta hagkerfinu og skattaskjólum. Líklega hefur umfang þess síðarnefnda minnkað talsvert frá hruni en engu að síður höldum við áfram að vinna að upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga við æ fleiri ríki. Þau mál bar meðal annars á góma á fundi mínum með sendiherra Japans nú í vikunni, en unnið er að samningi við Japan.

Skattsvik tengjast peningaþvætti náið og ég hef þegar verið í sambandi við sérfræðinga í innanríkisráðuneytinu um þau mál, auk þess sem ég er í sambandi við undirstofnanir fjármálaráðuneytisins um skattamál og sérfræðinga innan dyra.

Ég heyri að mörgum finnst að ég ætti ekki að tala um að hófsamar launahækkanir í takt við hagvaxtaraukningu séu farsælastar vegna þess að alþingismenn fengu afar mikla launahækkun frá kjördegi. En einmitt þessi mikla hækkun, sem var ákveðin af Kjararáði en ekki þingmönnum sjálfum eins og sumir virðast telja, sýnir  að það er miklu betra að hækka laun í hófsömum áföngum en að ætla að „leiðrétta“ ákveðnar stéttir eftirá eins og Kjararáð sagðist vera að gera með þingmenn. Ég tel að það sé ákaflega óheppilegt að þingmenn breyti sínum launum sjálfir, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. Þess vegna var breyting á lögum um Kjararáð nú fyrir áramótin þörf, en með henni er gagnsæi aukið og mælt fyrir um tíðari úrskurði.

Aftur á móti er rétt að minna á að formenn stjórnmálaflokkanna skrifuðu forsætisnefnd Alþingis fyrir jól og báðu hana að endurskoða starfstengdar greiðslur til þingmanna. Því er ekki lokið enn, en ég tel eðlilegt að farið sé yfir hvort þær tengjast raunverulegu álagi (sem ég er viss um að þær gera í einhverjum tilvikum) og raunverulegum kostnaði, sem ég veit að er alls ekki alltaf.

Við verðum svo auðvitað sem samfélag að hafa kjark til þess að ræða hver eru eðlileg laun þingmanna. Ég hef heyrt á mörgum að það séu ekki launin heldur hækkunin sem fólki finnst út úr öllu korti. Það styður enn mitt mál að hækkanir í stökkum eru ekki heppilegar.

Um nefndaskipan á Alþingi er það að segja að mér finnst afar óheppilegt að ekki skuli hafa náðst sátt um formennsku í nefndum. Það var borið undir mig hvort ég setti mig á móti því að Lilja Alfreðsdóttir yrði formaður Efnahags- og viðskiptanefndar, en flest mál fjármálaráðuneytis fara þangað. Ég sagðist ekki hafa á móti því, en áréttaði jafnframt að það væri ekkert skilyrði af hálfu Viðreisnar að Framsóknarflokkurinn fengi formennskuna umfram aðra minnihlutaflokka.

Ég vek aftur á móti athygli á því að góð sátt náðist um skipan í alþjóðanefndir þingsins og þar eru fulltrúar minnihlutans í forsvari í nefndum.

Sem þátt í breyttum vinnubrögðum boðaði ég formenn minnihlutaflokkanna á fund í ráðuneytinu á fimmtudagsmorgun og kynnti fyrir þeim fjármálastefnuna. Í kjölfarið kynnti ég hana svo fyrir fulltrúum aðila vinnumarkaðsins, bæði hins almenna og opinbera. Þetta voru ágætir fundir og vonandi upphaf að góðu samtali.

Ég enda svo vikuna á Akureyri þar sem ég borðaði í gærkvöldi með nokkrum frambjóðendum og er núna að fara á opinn fund. Veður er ekki sem blíðast, en alltaf gaman að koma norður. Yfir mann færist ró.

Fyrsta vika – skrifað 18. janúar

Stutt skýrsla um störfin síðustu daga. Ég hef legið yfir fróðleik um starfið í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Líklega verið í viðtölum við fjölmiðla annan hvern dag (ca hálftíma eða meira hvert).

Heimsóknir í allar stofnanir ráðuneytisins eru á dagskrá. Í dag fór ég til Tollstjóra og er fyrsti ráðherra í 15 ár sem gerir það að sögn Guðbjörns Guðbjörnssonar, félaga okkar. Í gær var það Ríkisskattstjóri og Ríkiskaup á föstudag. Þessar heimsóknir eru mjög mikilvægar tþa auka skilning á starfsemi, stefnu og áherslum stofnana.

Ég ákvað að kostnaðarreikningar ráðuneyta og stofnana ríkisins yrðu birtir. Í því eru engar launagreiðslur, bætur eða þess háttar, en hægt verður að fletta upp einstökum söluaðilum og fleiru. Í þessu felst mikið aðhald. Kemur til framkvæmda í mars.

Unnið er að því stöðugt að vinna fjármálastefnu ríkisins. Hún segir til um aðhald sem veitist af ríkisfjármálum. Þeim mun meira aðhald sem ríkið og sveitarfélög veita með afgangi, því minni þrýstingur er á skattastefnu Seðlabanka. Þannig getur aðhald hins opinbera leitt til mikils sparnaðar einkaaðila og fyrirtækja og bætt samkeppnishæfni Íslands. Stefnan verður tilbúin í næstu viku.

Afnám hafta verður forgangsmál og næstu aðgerðir í þeirri vegferð tilkynnt fljótlega. Það er mikilvægt fyrir lánshæfismat Íslands að þetta gerist eins fljótt og verða má. Betra lánshæfismat þýðir lægri vextir ríkisins.

Í dag lét ég birta skýrslu um áhrif leiðréttingarinnar sem lengi hefur verið beðið eftir. Rúmt ár ef ég veit rétt.