Á Alþingi (BJ)

Framsóknarmenn virðast ekki átta sig á því að lánin virka nákvæmlega eins og lán sem nú þegar eru leyfð og berjast af hörku gegn þessu frumvarpi. Áhættan er engu meiri eða minni en áhætta af erlendum lánum. Verst fannst mér að heyra Sigurð Inga Jóhannsson tala með þeim hætti að hér væri stórkostleg ný vá á ferð, því að ég er viss um að hann veit betur. Yfirleitt finnst mér hann málefnalegur.

Þingstörfin settu mikinn svip á vikuna hjá mér. Á mánudag svaraði ég fyrst óundirbúinni fyrirspurn, svo var sérstök umræða um bankamál og loks munnlegt svar við undirbúinni fyrirspurn. Þessar þrjár tegundir af umræðum eru áhugaverðar.

Óundirbúnar fyrirspurnir geta vel verið áhugaverðar, en oft virðast þær vera settar fram til þess að spæla þann sem spurður er, en ekki til þess að fá fram gagnleg eða gáfuleg svör. Um daginn spurði Katrín Jakobsdóttir mig hvort „einhver gæi“ í fjármálaráðuneytinu, sem ég hefði talað um í Kastljósi, væri Bjarni Ben. Það var ekki einu sinni mjög fyndin fyrirspurn, sem hún átti eflaust að vera.

Á mánudaginn var spurt um kaup kröfuhafa í Kaupþing á hlutum í Arion banka. Sumir þingmenn virðast halda (eða tala að minnsta kosti þannig) að ríkið sé að selja þessa hluti, en það er búið sem selur í samræmi við samkomulag sem síðasta ríkisstjórn gerði. Svar við óundirbúnum fyrirspurnum er minna en tvær mínútur og svo fær fyrirspyrjandi að fylgja spurningunni eftir og ráðherra svarar öðru sinni.

Svo var talað um eigendastefnu ríkisins í sérstakri hálftíma umræðu (sem er líklega nær 45 mínútum). Mest var reyndar talað um endurskipulagningu bankakerfisins, sem er vissulega áhugavert mál, en ekki það sama og eigendastefna. Ég er ekki viss um hvort þingmenn áttuðu sig almennt á því að ríkið getur sett lagaramma um bankakerfið óháð því hvort það á hlut í bönkunum. Það er aftur á móti þarft að ræða mál eins og aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi og hver áhrif einstakra hluthafa mega vera. Miklu skiptir að mistökin frá 2003 verði ekki endurtekin þar sem bankarnir hættu að vera þjónustustofnanir og urðu virkir gerendur í atvinnulífinu sem hluti af viðskiptablokkum. Loks þarf að huga að heildarstærð bankakerfisins, en þetta er ekki það sama og eigendastefna.

Loks var undirbúið svar við því hvort rétt væri að lækka virðisaukaskatt á gleraugum. Katrín Jakobsdóttir spurði og sagði að málið hefði oft verið rætt. Enda var greinilegt að hún þekkti vel málið og margt í hennar ræðu var svipað minni. Umræðan tók um 20 mínútur og var kannski fróðleg fyrir þá sem ekki þekktu málið fyrir, en satt að segja held ég að lítið hafi bæst við eftir fyrstu tvær ræðurnar.

Um kvöldið hafði ég átt að halda erindi hjá AKOGES, erindi sem ákveðið var fyrir mánuði, en vegna atkvæðagreiðslu í þinginu varð ekkert af því. Ég var með samviskubit yfir því að geta ekki staðið við loforðið sem ég gaf, en við því var ekkert að gera.

Á þriðjudag var óvenjulegt gat í fundatöfluna og mér gáfust fjórir tímar samfellt til þess að vinna, sem var vel þegið. Oftast er það aðeins hálftími eða klukkutími á stangli sem ekki er skipulagður.

Miðvikudagurinn hófst eins og flestir miðvikudagar á íþróttatíma (vinkona mín segir að ég megi ekki tala um leikfimi eins og í gamla daga) og er skemmst frá því að segja að mitt lið fór á kostum og vann tvo leiki og vítakeppnina í lokin. Án þess að fara út í smáatriði um hver hafi verið maður dagsins læt ég þess getið að keppninni lauk með því að ég skoraði körfu frá miðju.

Þeir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson voru að gefa út bók um eftirmál hrunsins og kynntu hana í hátíðasal Háskólans. Það var áhugaverð kynning og ekki síður pallborðsumræður á eftir. Kristrún Heimisdóttir talaði um hve lítið stjórnmálamenn græddu á því að reyna að slá sér upp á kreppunni eða óláni Íslands. Athyglisvert var að sessunautur hennar, Sigurður Hannesson, virtist taka sneiðina til sín og sagði að allir vildu Íslandi hið besta. Ég er sammála Kristrúnu um að það er dapurlegt að hlusta á skynsamt fólk reyna að slá ryki í augu almennings. Þegar upp er staðið græðir enginn á slíku tali og eini árangurinn er að sá fræjum tortryggni þegar trausts er þörf.

Á miðvikudag flutti ég erindi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur þar sem ég talaði um þrjú störf sem ég gegni: Formennsku í Viðreisn, þingmennsku og starf ráðherra. Á stuttum tíma hef ég alveg skipt um vettvang og ég ræddi hvers vegna ég gerði það og hvernig nýja lífið væri.

Á fimmtudag mælti ég fyrir stjórnarfrumvarpi þar sem umræðan var einmitt af þessu tagi. Frumvarpið snýr að því að leyfð séu lán bundin gengisvísitölu. Þessi lagabálkur er settur fram að kröfu ESA, en nú þegar eru erlend lán leyfð. Þessi lán eru alveg eins nema í íslenskum krónum, en fylgja gengisvísitölu. Framsóknarmenn virðast ekki átta sig á því að lánin virka nákvæmlega eins og lán sem nú þegar eru leyfð og berjast af hörku gegn þessu frumvarpi. Áhættan er engu meiri eða minni en áhætta af erlendum lánum. Satt að segja finnst mér það ekki gáfulegt að taka slík lán núna miðað við sveiflur á gengi krónunnar sem við sjáum öll, bæði til lengri og skemmri tíma. Verst fannst mér að heyra Sigurð Inga Jóhannsson tala með þeim hætti að hér væri stórkostleg ný vá á ferð, því að ég er viss um að hann veit betur. Yfirleitt finnst mér hann málefnalegur.

Vinnuvikunni lauk á aðalfundi Nýherja. Ég væri að skrökva ef ég viðurkenndi ekki að mér þótti vænt um vinsamleg ummæli um mig, en ég var í stjórn félagsins í 22 ár og þar af formaður í 21 ár. Á þessum tíma sótti ég 291 stjórnarfund í félaginu, auk fjölmargra annarra funda vegna starfseminnar. Skipst hafa á skin og skúrir, en sem betur fer gengur vel í Nýherja núna og vonandi á hann sér bjarta framtíð.

Nú er ný vika að byrja og hún verður viðburðarík spái ég.