Á að taka RÚV af auglýsingamarkaði?

Rekstaraðilar svokallaðra frjálsra og óháðra fjölmiðla hafa gert það að kröfu sinni að þeir sitji einir að auglýsingamarkaðinum og geti með því lagað fjárhag sinn. Spurningin er hvort það sé hagur neytenda og auglýsenda að svo sé gert og í framhaldi af því hvort það sé hagur neytenda að veikja möguleika RÚV til að afla tekna og bæta með því dagskrá sína.

Auglýsingar eru ekki aðeins tæki til að selja vöru og þjónustu. Undir þær falla hvers kyns tilkynningar um mannamót, atburði og upplýsingar sem falla undir almannaþjónustu.  Auglýsingar geta verið mikilvægar fyrir dagskrárgerð sem vísbending um áhorf/hlustun og vinsældir þátta. Frá sjónarhóli auglýsenda væri mjög óhagkvæmt ef ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði og markaðurinn brotnaði upp. Það þýddi margfalt dýrari auglýsingar og áhrifamátturinn yrði mun minni í mörgum tilfellum.

Ef RÚV fær ekki að afla tekna með auglýsingum og öðru sjálfsaflafé verður að hækka útvarpsgjald verulega sem yrði ekki vinsæl aðgerð ellegar draga úr þjónustunni.  Jafnvel þótt RÚV hyrfi af auglýsingamarkaði er ekki víst að það verði mikil björg fyrir aðra fjölmiðla nema frekari takmarkanir komi til. Fljótlega kæmi þá fram krafa um takmörkun á getu RÚV til að bjóða upp á vinsælt efni svo hinir frjálsu og óháðu fjölmiðlar fái meira svigrúm. Þetta samsvarar því að sinfóníuhljómsveitinni yrði bannað að spila vinsæl tónverk sem einkaaðilar réðu við eða Þjóðleikhúsið mætti ekki sýna vinsæla söngleiki sem aðrir gætu hugsanlega flutt og hagnast á. Hins vegar er eðlilegt að auglýsingatímum og verðskrá RÚV sé stýrt þannig að einkaaðilar geti gengið að fyrirkomulaginu hjá RÚV vísu og þurfi ekki að óttast að svo sterkur aðili reyni að stýra markaðnum eftir hentugleikum.

Það er grundvallarmunur á viðskiptalíkani sem miðar að því að veita sem greiðastan aðgang að sem fjölbreyttustu efni og líkani sem byggir á að loka fyrir efni og taka gjald fyrir að opna aðganginn. Frá sjónarhóli neytenda er opið aðgengi að vinsælu efni tvímælalaust hagstæðasti kosturinn. Miklar breytingar hafa orðið á fjölmiðlun og þróunin er hröð utanlands sem innan. Vaxandi magn af erlendu efni mun streyma á innanlandsmarkað og óvíst að lokunarlíkanið á litlum markaði gangi upp ef svo fer sem horfir. Rekstur á fjölmiðlum í samkeppnisumhverfi er hluti af atvinnufrelsi en afar erfitt er að jafna rekstarskilyrði þegar stærðarhagkvæmni er forsenda velgengi.  Ríkisútvarpið er sá ljósvakamiðill sem hefur besta möguleika á að mæta samkeppni utanfrá með fjölbreyttri innlendri dagskrárgerð og dreifingu á vönduðu efni til almennings.  Það þjónar ekki almannahagsmunum að takmarka sjálfsaflatekjuöflun RÚV eða draga úr þjónustu þess á auglýsingamarkaði.