Auðlindagjald er ekki skattur

Málssvarar kvótagreifa hamra stöðugt á því að auðlindagjald sé skattur á útgerð í landinu og meira að segja ósanngjarn skattur því hið opinbera leggi aukaálögur á sjávarútveginn sem ekki lenda á öðrum atvinnugreinum. Skattar til hins opinbera í hagfræðilegum skilningi er gjald sem greitt er án þess að nokkuð sérstakt komi í staðinn til gjaldandans. Skattar fara til almennra útgjalda hins opinbera og undir hælinn lagt hversu mikla þjónustu hver einstaklingur þiggur frá hinu opinbera fyrir skattgjöld sín. Auðlindagjald er hins vegar greiðsla fyrir einhvers konar sérréttindi eða gæði sem gjaldendur einir njóta og ekki aðrir. Í tilviki kvótans er um að ræða greiðslu fyrir sérréttindi til að nýta fiskistofna sem nauðsynlegt er að takmarka veiðar úr.

Vissulega má deila um hvað sé hæfilegt afgjald og hvernig eigi að innheimta það. Þá kemur til álita hvort aðrir en ríkissjóður eigi að fá gjaldið til ráðstöfunar svo sem sveitarfélög eða almenningur með beingreiðslu.

Vel kemur til álita að setja aflaheimildir á uppboð. Afgjald sem miðast við bókhaldslegan hagnað fyrirtækja er hins vegar slæm lausn og ógagnsæ. Nauðsynlegt er að festa auðlindaákvæði í stjórnarskrá svo hægt sé að útfæra auðlindagjald með afgerandi hætti til framtíðar.