Loforð og efndir (BJ)

Á þessari upptalningu má sjá að unnið er að öllum helstu stefnumálum Viðreisnar, þó að þau séu mislangt á veg komin.

Sú söguskýring er útbreidd að Viðreisn hafi selt sálu sína og stefnumál til þess eins að komast í ríkisstjórn. Nú þegar fyrsta þingi fer senn að ljúka er vel við hæfi að rifja upp nokkur helstu mál Viðreisnar frá því í aðdraganda kosninganna og stöðu þeirra.

Almannahagsmunir umfram sérhagsmuni verði rauður þráður í gegnum öll stefnumál.

Efndir: Ráðherrar Viðreisnar höfnuðu aðkomu ríkisins að sjómannasamningum, hafa afnumið gjaldeyrishöft og lagt til að ferðaþjónustan verði í sama skattumhverfi og aðrar greinar.

Tryggjum hagsmuni ungs fólks og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja með því að lækka vexti og verðbólgu til samræmis við nágrannalönd. Það verður ekki gert nema með því að taka upp annan gjaldmiðil eða með myntráði.

Efndir: Verðbólgan hefur haldist innan við 2% og hér er í raun verðhjöðnun ef litið er framhjá húsnæðisverði. Framboðsskortur hefur verið á húsnæði og ríkið hefur verið samningaviðræðum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um sölu á lóðum til íbúðabygginga. Þetta er bara ein aðgerð af fjórtán sem aðgerðahópur Þorsteins Víglundssonar í húsnæðismálum vinnur að. Nú er að störfum peningastefnunefnd undir forystu Ásgeirs Jónssonar sem hefur það yfirlýsta markmið að taka upp peningastefnu sem draga á úr sveiflum á gengi krónunnar.

Sjávarútvegur borgi markaðstengt auðlindagjald með því að árlega fari ákveðinn hluti kvótans á markað.

Efndir: Þorgerður hefur skipað þverpólitíska nefnd undir forystu Þorsteins Pálssonar vinnur nú að því að ná sátt um nýtt kerfi auðlindagjalda.

Bygging nýs Landspítala með áherslu á endurnýjun tækjabúnaðar verði lokið við Hringbraut árið 2022.

Efndir: Samkvæmt fjármálaáætlun verður byggingu spítalans lokið árið 2023.

Efla skal geðheilbrigðisþjónustu og boðið verði upp á sálfræðiþjónustu í öllum framhaldsskólum.

Efndir: Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar segir: „Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður aukið, meðal annars með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum.“ Síðar segir: „Stuðningur verður aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum.“

Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni og bændur taki ákvarðanir á viðskiptalegum forsendum. Hætt verði að skilyrða styrki til landbúnaðar og dregið úr þeim í áföngum jafnframt því sem innflutningshöft og tollar á landbúnaðarvörur verði afnumin.

Efndir: Þorgerður hefur lagt fram fyrsta frumvarp að breytingum á landbúnaðarkerfinu þannig að Mjólkursamsalan lúti almennum samkeppnislögmálum. Innflutningur landbúnaðarvara verður aukinn í árslok.

Skynsamleg og sjálfbær nýting náttúruauðlinda með það í huga að óskert náttúra er líka auðlind.

Efndir: Í stjórnarsáttmála er því lýst yfir að ekki verði fleiri ívilnandi samningar fyrir mengandi stóriðju. Hafinn undirbúningur að stofnun stöðugleikasjóðs sem byggi á arði frá orkufyrirtækjum. Unnið er að mótun eigendastefnu Landsvirkjunar í fjármálaráðuneytinu.

Ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og bera aðildarsamning undir þjóðina.

Efndir: Samið um að samþykki Alþingi ályktun um að bera skuli aðildarumsókn undir þjóðina verði það gert á seinni hluta kjörtímabilsins.

Jafnrétti kynja verði tryggt á öllum sviðum. Öll fyrirtæki yfir ákveðinni stærð eigi að fara í jafnlaunavottun.

Efndir: Frumvarp Þorsteins Víglundssonar um málið er nú til afgreiðslu hjá Alþingi.

Nýtt verði vinnuframlag allra sem hafa starfsorku og reglur og lög um ákveðinn starfslokaaldur afnumdar.

Efndir: Frumvarp Þorsteins Víglundssonar um þetta verður lagt fyrir Alþingi í haust.

Dregið verði úr skerðingum á bótum almannatrygginga vegna vinnu aldraðra.

Efndir: Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að fjárhæðamörk án skerðinga verði hækkuð í áföngum á kjörtímabilinu úr 25 þúsund krónum í 100 þúsund krónur.

Ísland á að taka þátt í alþjóðlegu hjálparstarfi, þar með talið móttöku flóttamanna.

Efndir: Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar er kveðið á um þetta: „Vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum.“

Kosningaréttur á að vera jafn, óháð búsetu.

Efndir: Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Kosningalöggjöf verði yfirfarin samhliða því starfi með það fyrir augum að hún verði einfaldari og miði að meira jafnræði í atkvæðavægi.“

Stjórnsýsla á að vera opin og gegnsæ.

Efndir: Opnaður verður aðgangur að reikningum ráðuneyta og stofnana þeirra að frumkvæði fjármálaráðherra.

 

Á þessari upptalningu má sjá að unnið er að öllum helstu stefnumálum Viðreisnar, þó að þau séu mislangt á veg komin. Auk þess skiptir það miklu að ráðherrar Viðreisnar eru allir með ráðuneyti þar sem meginstefnumál flokksins eru í brennidepli og þingmenn okkar stjórna mikilvægum nefndum. Jóna Sólveig er formaður utanríkismálanefndar og Hanna Katrín er bæði formaður EES/EFTA nefndarinnar og þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins sem og varaformaður fjárlaganefndar. Pawel er varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar og Jón Steindór varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Okkar fólk er því í góðum færum til þess að fylgja okkar málum eftir.

Að öllu þessu mæltu er rétt að halda því á lofti að samstarfið gengur vel hjá meirihlutanum þó að auðvitað séum við ekki sammála um allt. Þess vegna eru flokkarnir margir. Jafnframt vil ég segja frá því að almennt gengur samvinnan í þinginu við minnihlutann ágætlega, þó að stundum hvessi inni í þingsal og á opinberum vettvangi. Málþóf hefur verið í lágmarki og samvinna í nefndum ágæt eftir því sem ég best veit.

Auðvitað er upptalningin hér ekki tæmandi og það eru sífellt að koma ný mál sem þingmenn og ráðherrar Viðreisnar fást við, með dyggri hjálp starfsmanna og aðstoðarmanna. Við getum borið höfuðið hátt, því okkar fulltrúar vinna vel að stefnumálum Viðreisnar og öðrum góðum málum.