Ræða við eldhúsdagsumræður

Frú forseti

Ég velti því oft fyrir mér: Hvernig sjá aðrir starf þingmanns? Hvað halda börn að þingmaður geri? Slökkviliðsmenn eru með hjálm og slöngu og slökkva elda. Lögreglumenn eru kylfu og handjárn og elta bófa. En hvað gera þingmenn?

Eitt svar við þessari spurningu má finna í þekktri norrænni barnabókaseríu. Ég er að tala um Múmínálfanna eftir Tove Jansson.

Í þessum ágætu bókum er nefnilega einn stjórnmálamaður, meira að segja þingmaður, þó það sé ekki augljóst við fyrstu sýn.

Þessi persóna, er augljóslega þingmaður fyrir Múmíndal. Af hverju? Því hann segist vera frá Múmíndal, allir segja að hann sé frá Múmíndal, en hann ER í raun aldrei í Múmíndal.

Þetta er Snúður. Þessi með græna hattinn.

Snúður er oft í Múmíndal á sumrin. Hann hittir fólk og talar á háfleygan hátt um hugmyndafræði, eignarréttinn og valdmörk hins opinbera, en hann framkvæmir ekki mikið. Og þegar dagarnir styttast þá hverfur hann.

Persóna Snúðs er raunar byggð á alvöruþingmanni, Atos Wirtanen, sem var finnskur sósíalisti og vinur Tove Jansson.

Þegar ég las Múmínálfabækurnar sem barn, þá enn á pólsku, þá dáðist ég að persónu Snúðs. Snúður var dulrænn og svalur. Og nú eigum við Snúður meira sameiginlegt en mig hefði grunað. Og ætli börn sjái okkur ekki á svipaðan hátt.

Ég geri mér þó grein fyrir því við Snúður værum ólíklega samflokksmenn. Snúður er vinstri anarkisti. Þessi stjórn hér, myndi líklegast ekki sitja hans umboði.

Samkvæmt prófi sem ég tók á opinberri heimasíðu Múmínálfanna (og ekki ljúga netprófin, frú forseti) þá er sú persóna sem ég líkist mest, Múmínpabbinn. Þetta var auðvitað ákveðið rothögg fyrir sjálfsmynd ungs manns, frú forseti. En líklegast hárrétt.

En þótt við Snúður hefðum að öllum líkindum ekki verið í sama flokki, þá held ég að við deilum ákveðinni sýn. Sýn á það að landamæri eigi ekki að vera fólki til trafala. Fólk á geta ferðast milli landa. Sest að, unnið, stundað nám eða bara upplifað eitthvað.

Ein af grunnáherslum Viðreisnar fyrir síðustu kosningar var einmitt að Ísland skyldi vera opið fyrir fólki alls staðar að úr heiminum. Ég játa alveg að mér hefur þótt sem þeim málum hafi ekki miðað nægilega hratt áfram á þessu þingi. Við höfum aðallega verið að laga augljósa galla á nýsettum útlendingalögum sbr. frumvörp um dvalarleyfi maka og skiptinema.

Reyndar voru lögð fram þrjú frumvörp sem öll hefðu falið í sér ákveðnar réttarbætur í þessum málaflokki, þetta voru frumvörpin um bann við mismunun innan vinnumarkaðar sem utan sem og frumvarp um ríkisfangsleysi. Ekkert þeirra varð þó að lögum, því miður.

Raunar var frumvarpi þingmanna Viðreisnar um aukinn kosningarrétt erlendra ríkisborgara vel tekið og því vísað ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu. Ég treysti því að ríkisstjórnin vinni málið áfram og klári það fyrr en síðar.

En áfram er landið lokað fyrir fólki frá löndum á sunnanverðum Balkanskaga eða öðrum löndum utan Evrópu. Áfram þurfa þeir sem hyggjast flytja til Íslands að reiða sig á kerfi sem alls ekki er hugsað fyrir hefðbundna fólksflutninga. Þessu þarf að kippa í liðinn. Og við ætlum að sjá til þess að það verði gert.

Frú forseti, þó svo að Viðreisn hafi náð ágætum árangri í seinustu þingkosningum verður auðvitað að viðurkenna að sá árangur er hluti stærri þróun sem er að eiga sér stað á Vesturlöndum. Víða er svipuðum flokkum markaðssinnuðum, alþjóðasinnuðum, frjálslyndum flokkum að ganga vel.

Macron vann góðan sigur í Frakklandi. Meira að segja berast fréttir af því Frjálsir demokratar eru orðnir valkostur fyrir þýska hipstera. Og þá er eitthvað mikið að gerast. Því allir vita að þýskir hipsterar vita hvað þeir syngja.

Og það sem er að gerast er fólk er að senda kurteis en ákveðinn skilaboð gegn uppgangi öfgaflokka og einangrunarhyggju.

Og þar getur fólk treyst á okkur í Viðreisn. Fólk getur treyst því, að þegar að þjóðernispopúlisminn mun banka upp á með sinn boðskap má munum við mæta honum. Og segja, “Nei, takk, bless.”

Kurteist, en ákveðið.