Ræða við eldhúsdagsumræður

Frú forseti, góðir landsmenn!

Undanfarna daga höfum við Íslendingar verið minntir rækilega á gildi frjálsrar samkeppni og alþjóðavæðingar til þess að bæta lífskjör okkar. Samt sjáum við á hverjum degi fjölmarga berjast gegn tímans þunga nið, þeir ríghalda í allt sem gamalt er og formæla breytingum, þó að þær horfi til heilla.

Íslendingar eru svo heppnir að á árum áður voru framsæknir foringjar í stjórnmálum, menn sem þorðu að leiða þjóðina til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi með vinaþjóðum, samstarfi sem hefur orðið öllum til góðs. Þar nægir að nefna aðildina að Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, en AGS leiddi okkur út úr hruninu og NATO sem hefur tryggt frið í Vestur-Evrópu allt frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Ekki má gleyma aukaaðildinni að Evrópusambandinu í gegnum Evrópska efnahagsstarfið, en með henni höfum við bæði náð hagstæðum viðskiptum við 500 milljóna samfélag og þiggjum þaðan stóran hluta af okkar löggjöf.

Ég tel lítinn vafa á því að myntsamstarf þar sem gengi krónunnar væri bundið við evru myndi leiða til þess að útflutningsatvinnugreinar okkar, til dæmis hugbúnaðargerð, tæknifyrirtæki, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, stæðu miklu betur en raun ber vitni.

Stundum virðist það náttúrulögmál að engu megi breyta í samfélaginu. Vilmundur Gylfason talaði á sínum tíma um „varðhunda valdsins“.

Þorgeir heitinn Kjartansson, vinur minn, skrifaði örsöguna Menn:

„Menn skiptast í tvennt: harmavalda og gæfusmiði. Harmavaldarnir eru ágengir metnaðarfullir og stjórnsamir. Gæfusmiðirnir eru fjölbreytilegir og hógværir. Nánar þarf ekki að lýsa þeim. Ljósti af einhverri ástæðu saman harmavaldi og gæfusmiði þá hugsar gæfusmiðurinn sem svo: Eins og Platón lít ég svo á að illskárra sé að vera kúgaður en að kúga. Íslendingar orðuðu þetta fyrrum svofelldlega: Sá vægir sem vitið hefur meira.“

Núna segjum við: Freki karlinn ræður. Freki karlinn sem engu vill breyta og allt þykist vita. Hann segir: „Þó að allt stefni í óefni skulum við aldrei, aldrei víkja frá þeirri stefnu sem ég hef ákveðið að sé rétt.“

En nú eru nýir tímar og ég segi: Köstum af okkur fjötrum fortíðarinnar, verum óhrædd við að hugsa málin upp á nýtt.

Frú forseti!

Sagt er að að glöggt sé gests augað. Mér finnst að sumu leyti eins og ég hafi komið hingað sem gestur á Alþingi síðastliðið haust. Þó að ég hafi í áratugi horft á Alþingi utan frá hefur mér gefist tækifæri til þess að fylgjast með og taka þátt í störfum þess í hálft ár. Smám saman verður maður samdauna því sem fyrir er og fyrstu kynni verða bara einu sinni.

Margt er prýðilegt í störfum þingsins, ekki síst það sem ekki sést. Í nefndum þingsins eru mál oftast vandlega skoðuð, leitað utanaðkomandi álits, sérfræðingar og hagsmunaaðilar kallaðir fyrir og eftir vandlega rýni eru gerðar breytingar, oftast til batnaðar. Þar vinna meiri og minni hluti saman að því að ná sem vandaðastri útkomu. Auðvitað eru deilur um sumt, eðli málsins samkvæmt, en ég fullyrði að í meðförum nefnda sé reynt að sníða vankanta af málum og að um það náist að jafnaði góð samvinna. Sem ráðherra hef ég þurft að vinna með þeim nefndum þar sem mín frumvörp eru til meðferðar og ég hef náð afar góðri samvinnu við fulltrúa úr bæði meiri og minni hluta.

Stundum eru umræður í þingsal fróðlegar og þingmenn greinilega vel undirbúnir og hafa margt til málanna að leggja. Það spillir ekki fyrir þegar umræður eru skipulagðar með ákveðnum hætti. Ég get nefnt fyrri umræðuna um fjármálaáætlun þegar annar dagurinn fór í að ræða áætlunina almennt. Þann seinni svöruðu ráðherrar hver fyrir sinn málaflokk.

Enn meira gagn væri að umræðum á Alþingi, ef þingmenn temdu sér þá vinnureglu að tala ekki nema þeir teldu sig eitthvað hafa til málanna að leggja, nýttu ekki alltaf þann tíma sem þeir hafa lengstan, heldur einbeittu sér að því að koma sínum skoðunum og ábendingum á framfæri á hnitmiðaðan hátt. Með skipulegum vinnubrögðum má gera umræðuna í þessum sal miklu markvissari en hún er nú.

Engin ástæða er til þess að gera lítið úr því að ríkisstjórnir, bæði þessi og margar fyrri, leggja mörg mál fram seint. Í ár átti ríkisstjórnin þá afsökun að hafa tekið við á óvenjulegum tíma, en í framtíðinni verðum við að kappkosta að koma frumvörpum tímanlega til þingsins. Þá á ég ekki við 31. mars sem er síðasti dagur til framlagningar frumvarpa, án afbrigða samkvæmt þingsköpum. Alþingi þarf að fá góðan tíma til þess að fara yfir málin. Þannig má fastsetja meðferðartíma og áætlaða afgreiðslu þannig að mál dreifðust jafnar yfir veturinn. Forseti Alþingis og formenn nefnda myndu í sameiningu skipuleggja starfið þannig að vinnuálag dreifðist og ekki væri verið að afgreiða öll frumvörp í hönk á síðustu dögum þingsins. Okkur þingmönnum væri sómi að því að  sameinast um markviss vinnubrögð af þessu tagi.

Góðir landsmenn!

Viðreisn boðaði fyrir kosningar nokkur meginmál sem við leggjum þunga áherslu á innan stjórnarsamstarfsins. Við viljum að á Íslandi sé sanngjarnt landbúnaðarkerfi sem horfir á hagsmuni neytenda jafnt sem bænda. Við viljum ná sátt um markaðsleið í sjávarútvegi. Við viljum stöðva ofris krónunnar og festa gengi hennar í gegnum myntráð. Fátt rímar betur saman en krafan um almennar skattareglur og stöðugan gjaldmiðil.

Rauður þráður í gegnum allan okkar málflutning er: Almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Allir þeir sem aðhyllast frjálsa samkeppni hljóta að taka undir þetta.

Oftar en einu sinni hefur reynt á þetta slagorð okkar. Í sjómannaverkfallinu stóð Viðreisn gegn sérstökum skattaívilnunum til sjómanna. Við berum mikla virðingu fyrir sjómönnum og störfum þeirra, en allir eiga að sitja við sama borð í skattamálum.

Við viljum líka hætta skattaívilnunum til ferðaþjónustunnar. Auðvitað er sanngjarnt að stærsta greinin sé í sama rekstrarumhverfi og aðrar greinar. Sanngirni er ekki einu rökin, því að breyting á virðisaukaskatti mun bæði gefa færi á að lækka almennt þrep skattsins, almenningi til hagsbóta, og hægja á vextinum á fjölda ferðamanna til landsins. Þessi hraði vöxtur veldur því að krónan hefur styrkst svo mjög að hún ógnar hag allra útflutningsgreina í landinu.

Samkeppnishæfni greina verður aldrei tryggð með mismunandi skattareglum heldur með því að skapa heilbrigt rekstrarumhverfi fyrir allar greinar. Allir gleðjast yfir því þegar vel gengur í ferðaþjónustu. En ef Viðreisn vill vera sjálfri sér samkvæm berst hún gegn sérhagsmunum allra, líka vina sinna.

Góðir landsmenn!

Nú eru blikur á lofti í alþjóðamálum. Merkel Þýskalandskanslari boðar að Evrópulönd geti ekki lengur reitt sig á Bandaríkin. Íslendingar kynntust því árið 2008, að þegar við þurftum á hjálparhönd að halda ýttu Bandaríkjamenn okkur frá sér. Þeir líta greinilega svo á að ef á móti blæs eigi Íslendingar að leita til Evrópu. Evrópuþjóðirnar töldu aftur á móti að við værum ekki í þeirra liði.

Nú hefur bilið milli austurs og vesturs aukist enn. Augljóst er að hinn nýkjörni Bandaríkjaforseti hefur ekki skilning á mikilvægi þess að viðhalda góðum samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu vestan Rússlands. Varnarlaus smáþjóð þarf traustan bandamann. Þegar Bandaríkin segja pass verðum við að efla tengslin við bræðraþjóðir í Evrópu. Það er ekki um aðra bandamenn að ræða.

Við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að hafna öfgaöflum sem víða hafa náð miklum styrk, öfgaöflum sem vilja loka landamærum og hafna frjálsum viðskiptum. Í heimi lýðskrumaranna þurfa frelsi, jafnrétti og bræðralag að víkja fyrir höftum, forréttindum og hatri. Á Íslandi er meiri jöfnuður en í nágrannalöndunum og heilbrigðiskerfi í fremstu röð í heiminum.

En þó að margt sé gott getum við gert enn betur. Göngum því glöð út í sumarið, óhrædd við breytingar til framfara.