Ræða við eldhúsdagsumræður

Frú forseti.

Ég sat minn fyrsta þingfund á föstudaginn og á mínum öðrum degi á þingi ætla ég ekki að fara ofan í saumana á því sem þegar hefur verið gert, eða ekki verið gert.

Í staðinn langar mig að tala um stóru hlutina. Mig langar að tala um sóknarfæri okkar.

Það vill þannig til að nákvæmlega ári áður en ég tók hér sæti á þingi á föstudag, þann 26. maí 2016, útskrifaðist ég úr háskóla og stóð frammi fyrir því að ákveða mín næstu skref. Ég hafði verið í námi í Bandaríkjunum, átti ég að búa áfram þar? Eða annars staðar? Hvað skipti mig máli í þessu vali?

Ég ákvað að koma heim. Mér þótti Ísland bjóða upp á betri lífsgæði en buðust annars staðar; Ég gat búið í borg en í nánd við ósnortna náttúru. Ég sá fram á að geta eignast börn án þess að þurfa að kveðja starfsframann. Ég sá fram á að óháð efnahag mínum gætu þessi framtíðarbörn fengið góða menntun og að aðgangur heilbrigðiskerfi væri tryggður. Ég sá fram á að ég gæti unnið við áhugaverð störf en einnig átt líf utan vinnu. Ég sá fram á að geta búið í samfélagi sem var opið og leiðandi í jafnréttismálum.

Með þessu er ég ekki að segja að Ísland sé best í heimi. Það er ýmislegt sem má laga. En við höfum tækifæri á því að bjóða ungu fólki upp á góð lífsgæði. Þar liggur samkeppnishæfni okkar og að þessu verðum við að hlúa.

Mín kynslóð býr við þá forréttindastöðu að heimurinn er opinn. Ísland er í samkeppni við aðrar þjóðir um efnilegasta fólkið okkar. Vegna alþjóðlegra samninga eins og EES samningsins hefur aldrei verið auðveldara fyrir okkur að læra, búa og vinna erlendis þar sem tækifærin eru óteljandi (og veðrið betra).

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá heldur alþjóðavæðingin áfram. Í Viðreisn höfum við talað fyrir því að óttast ekki þessa þróun, heldur taka þátt í henni og vera leiðandi. En á sama tíma og heimurinn minnkar fjölgar tækifærunum annars staðar og þá verðum við að tryggja samkeppnishæf lífskjör hér á landi.

Við erum fámenn þjóð og því fylgja ákveðnar takmarkanir. En þar liggur á sama tíma helsti styrkleikur okkar. Boðleiðir eru stuttar; það á ekki að vera flókið eða erfitt að koma sameiginlegri sýn okkar á samfélag í framkvæmd.

Fyrir okkur sem ekki sitjum á þingi að staðaldri er þetta eitt af því sem kemur á óvart.  Það er erfitt að skilja hvers vegna markmið – sem jafnvel allir eru sammála um – nái ekki fram að ganga. Hvers vegna við týnumst í útfærslum og sjáum ekki skóginn fyrir trjánum.

Í meginatriðum eru flestir Íslendingar sammála um þá samfélagsumgjörð sem við viljum hafa. Við viljum búa við félagslega velferð, fjölskylduvænt samfélag, við viljum jafnan aðgang að grunnstoðum samfélags. Á sama tíma vilja flestir hafa möguleika á að skara fram úr.

Og þótt við séum ekki alltaf 100% sammála um leiðir, þá hljótum að geta náð sátt á fleiri stöðum en á bak við landsliðin okkar í fótbolta –  og sammælst um að ná þessum markmiðum.

Við erum í samkeppni við heiminn og til þess að Ísland verði áhugaverður kostur fyrir ungt fólk þurfum við að vera leiðandi og marka okkur sérstöðu.

Við þurfum að nýta þessa efnahagsuppsveiflu – sem leyfir okkur í fyrsta sinn í mörg ár að hugsa stærra. Við megum ekki takmarka okkur við að framkvæma eftir sérhagsmunum eða týna okkur í smáatriðum sem verður til þess að mál sem allir eru sammála um nái ekki fram aðganga.

Við þurfum að setja okkur markmið sem tryggja að atvinnulíf sé öflugt og nýsköpun þrífist, og við þurfum að tryggja að fólk búi við efnahagslegt öryggi og stöðugleika. Þetta kemur ekki að sjálfu sér og ef við ætlum að vera samkeppnishæf, þá þurfum við að tryggja þessa aðstöðu.

En þótt þetta sé forsenda þess að ungt fólk kjósi að búa á Íslandi þá er þetta ekki sérstaða okkar. Sérstaða okkar er fólgin í því að – ef við höldum rétt á spöðunum- getum við samhliða áhugaverðum störfum – boðið upp á góð lífskjör – og mannlegt og skemmtilegt velferðarsamfélagi þar sem efnahagur, uppruni og kyn ræður ekki tækifærum heldur hæfileikar.

Sóknarfæri okkar liggja í því að nýta smæð okkar og stuttar boðleiðir til þess að skapa samfélag þar sem félagsleg velferð er tryggð á sama tíma og fólk getur nýtt hæfileika sína í að skara fram úr, á Íslandi.  

Mig langar því að ljúka þessu hér með því að skora á þingið að sameinast um að tryggja að Ísland bjóði upp á samkeppnishæf lífskjör. Til þess að líta til framtíðar og horfa á stóru myndina, en ekki festast í smáatriðum.