Beinum sviðsljósinu að svarta hagkerfinu og skattsvikum

Í dag voru kynntar tvær skýrslur starfshópa sérfræðinga sem ég skipaði í febrúar síðastliðnum til þess að stemma stigu við skattsvikum. Í fyrradag komu líka fram tillögur aðila vinnumarkaðsins um aðgerðir til þess að stöðvar kennitöluflakk. Nú er lag að berjast við skattsvikarana.

Í skýrslum beggja nefndanna eru margar hugmyndir sem eru allrar athygli verðar, en auðvitað misgóðar. Ég er alltaf tilbúinn að íhuga frumlegar hugmyndir, en vil þó láta þess getið að ég kom ekkert nálægt skýrsluvinnunni sjálfur og gaf engar skipanir um niðurstöður. Aftur á móti er ég mjög ánægður að hafa fengið þennan gnægtabrunn hugmynda að vinna úr. Nú nýtum við tímann til þess að vinna úr bestu hugmyndirnar og nýtum þær til þess að stöðva þessa óskemmtilegu starfsemi.

Falskir reikningar og faldar eignir

Fyrri skýrslan sem skrifuð var af átta sérfræðinga hópi undir stjórn Önnu Borgþórsdóttur Olsen fjallar um aðgerðir til þess að stöðva útgáfu á fölskum reikningum í viðskiptum í innflutningi. Þá er samið um að erlendi aðilinn skrifi út reikning fyrir hærri fjárhæð en raunverulegu verði og leggi mismuninn á persónulegan (leyni)reikning kaupandans á Íslandi. Þannig getur kaupandinn fært kostnað hjá sér og fengið peninganna til sín skattfrjálst. Talið er að þessi undanskot geti numið einum til sjö milljörðum króna hér á landi á ári hverju. Hópurinn leggur fram ýmsar tillögur til þess að hindra þetta, meðal annars:

Samstarf við erlenda skattaðila, tryggja þurfi skattyfirvöldum upplýsingar um fjármagnsflutninga milli landa frá fjármálafyrirtækjum og að upplýsingar frá erlendum fjármálafyrirtækjum verði forskráðar á skattframtöl.

Við sáum í Panama-skjölunum að margt bendir til þess að íslenskir aðilar hafi nýtt sér þessa leið til undanskota og mikilvægt að loka henni.

Svarta hagkerfið og skattaundanskot

Seinni skýrslan, en hana skrifaði 11 sérfræðinga hópur undir forystu Þorkels Sigurlaugssonar, fjallar um svarta hagkerfið og umfang skattaundanskota sem hópurinn metur upp á 80 til 120 milljarða króna á ári. Við náum auðvitað aldrei öllum þessum peningum, en ef það gerðist gætum við bæði lækkað skatta á þann hluta almennings sem greiðir öll sín gjöld og líka varið meiru í samneyslu eins og heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál.

Meðal tillagna hópsins má nefna:

  • Einföldun virðisaukaskattskerfisins og fækkun skattþrepa, helst í eitt skattþrep, samhliða lækkun skattsins myndi draga úr undanskotum.
  • Kröfur um hæfisskilyrði einstaklinga til að gerast innheimtumenn ríkisins á virðisaukaskatti og almennt hæfi einstaklinga til að stofna hlutafélög og stunda viðskipti, með þeirri ábyrgð sem því fylgir.
  • Síbrotamenn og vanhæfir einstaklingar, svo sem þeir sem stunda kennitöluflakk, eiga ekki að reka fyrirtæki með þeirri ábyrgð sem því fylgir.
  • Tillögur sem snúa að keðjuábyrgð fyrirtækja t.d. í byggingariðnaði og mæta þeim áskorunum sem felast í vexti ferðaþjónustunnar.
  • Takmörkun á notkun reiðufjár. Innkaup og flutningur fjármuna milli landa í stórum stíl á ekki að tíðkast með notkun reiðufjár. Peningaþvætti er afleiðing skattsvika sem tíðkast hér á landi eins og annars staðar. Því er mikilvægt að peningaþvættisskrifstofa valdi vel hlutverki sínu.

Seðlarnir eru ekkert aðalatriði í tillögum hópsins

Ég sé að margir staðnæmast við síðasta punktinn, en meðal þess sem skýrsla nefndarinnar nefnir til þess að minnka svarta hagkerfið er að draga megi úr notkun stærstu peningaseðla. Ekki er talað um að banna reiðufé. Meðaltalsútreikningar sýna að meðal-Íslendingurinn á tæplega 200 þúsund krónur í reiðufé þar af helminginn í tíuþúsundköllum. Vegna þess að fæstir kannast við að eiga slíkar fjárhæðir í seðlum vaknar grunur um að reiðufé sé súrefni svarta hagkerfisins. Tillögur um í skýrslunni um minnkun reiðufjár er (en ekki bann við notkun þess) eru því til þess að minnka svarta hagkerfið og þrengja að þeim sem þar starfa, en ekki vega að heiðarlegu fólki.

Tillögur nefndarinnar eru heldur ekki settar fram til þess að hygla greiðslukortafyrirtækjum heldur leggur hún þvert á móti fram tillögur um gjaldfrjálsa reikninga almennings í Seðlabankanum, reikninga sem ekki bæru viðskiptagjöld.

Nefndin gerir sér fulla grein fyrir því að skiptar skoðanir eru um ágæti þessa:

„Hugmyndir um takmörkun reiðufjárnotkunar eru hvorki nýjar né óumdeildar. Helsta sérkenni og kostur reiðufjár er einfaldleikinn, þægindin og órekjanleikinn sem felst í viðskiptum með reiðufé. Notkunin snýr þannig að persónuvernd og einkamálum hvers og eins. Í flestum tilfellum eru viðskipti með reiðufé lögleg og eðlileg, en því miður getur helsti kosturinn við notkun reiðufjár, eins og t.d. órekjanleikinn, verið stærsti ókosturinn þar sem reiðufé er misnotað til peningaþvættis, fjármögnunar hryðjuverka og undanskota frá skatti.“

Hugmynd nefndarinnar um að taka tíuþúsundkallinn úr notkun er nægilega frumleg til þess að allir hafa skoðun á henni. Miðað við fyrstu viðbrögð er samfélagið ekki tilbúið í svo róttæka hugmynd, en hún er sem betur fer ekki neitt grundvallaratriði í tillögum hópsins.

Skattsvikarar svíkja alla hina

Líklega hafa fæstir þeirra sem hafa tjáð sig um allar þessar tillögur í dag kynnt sér skýrslurnar enda báðar um 40 blaðsíður á lengd. Ég hvet alla til þess að kynna sér tillögurnar og móta sér svo skoðun. Þær eru báðar aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins. Ég kann báðum hópum bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Skýrslurnar eru fróðleg lesning og í þeim eru margar góðar hugmyndir sem nýta má í baráttunni við skattsvik, enda held ég að allur almenningur sé orðinn þreyttur á því að þurfa að borga fyrir kennitöluflakkara og þá sem fela sig skattaskjólum. Fyrir áttatíu milljarða gætum við t.d. byggt einn Landspítala á ári eða tvöfaldað framlag til samgöngumála. Jafnvel lækkað skatta svo um muni. Þó við náum ekki nema broti af þessu er baráttan þess virði.

Þess vegna hef ég lýst yfir stríði á hendur skattsvikum og ég er sannfærður um að allur almenningur styður þá baráttu.