Búvörusamningurinn er rót vanda sauðfjárbænda

Það er afleit stefna þegar ríkið borgar fyrir eitthvað sem er óskynsamlegt, til dæmis að framleiða meira á markað sem er mettaður.

Enginn launamaður í landinu myndi sætta sig við ef allt í einu væri tilkynnt með innan við mánaðar fyrirvara að nú ætti að fara að borga eftir tíu ára gömlum taxta.“ Þetta skrifar formaður Bændasamtakanna í Bændablaðið 3. ágúst síðastliðinn sem viðbrögð við þeirri ákvörðun sláturleyfishafa að lækka afurðaverð til sauðfjárbænda um 35%.

Það er athyglisvert að formaðurinn jafnar bændum við launamenn, en ekki atvinnurekendur með sjálfstæðan rekstur. Afskipti ríkisins af landbúnaði undanfarna áratugi hafa verið svo mikil að margir líta svo á að í raun séu bændur launþegar en ekki sjálfstæðir atvinnurekendur, þó að mörg bú séu á stærð við lítil og meðalstór fyrirtæki.

Margboðaður vandi

Enginn skyldi gera lítið úr því að afurðaverð lækki um tugi prósenta. Í fyrra lækkaði verðið um 10% og flestum fannst nóg um. En vandinn kemur sannarlega ekki á óvart. Ég vitna aftur til formanns Bændasamtakanna: „Bændur hafa átt í viðræðum við stjórnvöld um þennan vanda í marga mánuði. Hann var fyrirsjáanlegur eins og ítarlega hefur verið fjallað um.“

Þetta er kjarni málsins. Vandinn var fyrirsjáanlegur fyrir ári. Ég ræddi við einn af forsvarsmönnum afurðastöðvar síðastliðið haust og hann sagði: „Bændur munu reyna að vinna upp 10% tekjuskerðinguna með því að framleiða meira næsta sumar.“ Orð formannsins staðfesta þetta. Ákvörðun bændanna fellur undir það sem kallað er á hagfræðimáli valkreppa fanganna. Hún felst í því að ákvarðanir geta stundum komið sér vel fyrir einstaklinga, þó að þær spilli fyrir heildinni.

Viðreisn benti strax í fyrra á að búvörusamningarnir væru meingallaðir. Rödd neytenda heyrðist ekki við samningaborðið. Björt framtíð var eini flokkurinn á Alþingi sem tók afgerandi afstöðu gegn þessum samningum. Því verð ég að viðurkenna að það kom mér á óvart að á ferðum mínum um landbúnaðarhéruð síðastliðið haust hitti ég ekki einn einasta mann sem var ánægður með búvörusamningana. Hvorki bændur né stjórnendur afurðastöðva lýstu yfir ánægju með samninginn sem batt báða aðila í tíu ár í kerfi, sem hefur strax sýnt sig að er afleitt.

Kerfið virkar ekki

Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir í Bændablaðinu: „Það er ljóst að kerfið virkar ekki sem skyldi.“ Ábyrgð þeirra sem að samningunum í fyrra stóðu er mikil. Ég veit að innan raða bænda voru ýmsir sem vildu stokka málin algerlega upp og taka upp styrkjakerfi sem ekki væri framleiðslutengt og leiddi því ekki til fyrirsjáanlegra slysa á borð við það sem nú blasir við öllum. Formaður sauðfjárbænda segir einnig „að við blasi ákveðnir erfiðleikar í greininni sem horfast verði í augu við og mikilvægt sé að taka á rót vandans. Bæði bændur og afurðastöðvar verða að skoða sín mál af fullri alvöru“.

Þetta eru orð að sönnu. Formaður Bændasamtakanna vísar til stjórnvalda, en það væri slæm ráðstöfun á fé almennings að finna skammtímalausn á vanda sauðfjárbænda án þess að taka á rót vandans. Ég vitna enn í formann sauðfjárbænda: „Það þarf að aðlaga framleiðsluna að markaðnum, skapa hvata til fækkunar.“ Þetta er kjarni málsins, en núverandi búvörusamningar virka einmitt öfugt, hvetja einstaka bændur til þess að auka framleiðslu sína jafnvel þó að þannig grafi þeir undan hagsmunum heildarinnar.

Þá þarf að skipta um kerfi

Víða um lönd er rekin jákvæð byggðastefna. Ég hef lýst því yfir það sé að góður bisness fyrir samfélagið að fólk vilji búa víðar en í Reykjavík. Þannig er til dæmis hægt að byggja upp ferðaþjónustu og ýmiss konar iðnað tengdan sjávarútvegi víða um landið. Það er aftur á móti afleit stefna þegar ríkið borgar fyrir eitthvað sem er óskynsamlegt, til dæmis að framleiða meira á markað sem er mettaður.

Þess vegna kemur vel til greina að ríkið komi að því að leysa tímabundinn vanda í sauðfjárframleiðslu, en það verður ekki gert meðan í gangi er búvörusamningur þar sem ríkið stuðlar að offramleiðslu og þar með lágu afurðaverði. Samningurinn sjálfur er vandinn. Því fyrr sem forsvarsmenn bænda fallast á að breyta honum, þannig að framleiðslutengingum sé hætt, því fyrr er hægt að finna lausn á þeim vanda sem nú blasir við. Almenningur og bændur eiga skilið að fá góðan samning sem gera landbúnað samkeppnishæfari og lífskjör allra Íslendinga betri.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 10. ágúst 2017