Ísland tækifæranna: fjölskyldan

Þegar kemur að rétti fólks til að taka með sér börn, maka eða aðra fjölskyldumeðlimi þá stendur Ísland svipað af vígi og hin norræn ríkin. Lagalega virðist staðan hafa batnað örlítið með útlendingalögunum sem samþykkt voru á seinasta kjörtímabili, þótt enn sé mikið um að lög heimili hitt og þetta „þegar sérstaklega stendu á“, frekar en að bara gera það.

Íslensk lögin gera til dæmis ekki kröfu um lágmarksbúsetutíma áður en fólk getur fengið börn sín til landsins. Sem er gott. Lögin útiloka hins vegar margs konar fólk frá því að geta fengið börn sín til sín.

Til dæmis geta námsmenn í grunnnámi, tímabundnir starfsmenn, fólk sem sem kemur til landsins á grundvelli menningarskiptasamninga, ekki tekið börn sín með sér. Frá sjónarhóli rétts barna er þetta hæpið. Börn eiga að geta fylgt foreldrum sínum, sama þótt foreldrarnir séu í námi eða vinna tímabundið. Þá er augljóst að þessi regla stuðlar að misrétti kynjanna.  Karlar eru líklegri til að flytja tímabundið til útlanda og skilja börnin eftir heldur en hitt.

Þá vantar betri réttarvernd fyrir þau börn innflytjenda, sem eru eldri en 18 ára. Ég játa að ég varð ekki fullkomlega sjálfbjarga að öllu leyti við 18 ára aldur og þótt þetta kunni að þykja jaðartilfelli þá eru samt dæmi um að fólk búi hjá foreldrum sínum fram á þrítugsaldur, eða sé háð þeim af öðrum ástæðum, og í þeim tilfellum ætti að bjóða upp á víðtækari heimildir en nú er gert.

Þá hefur verið opnað á ýmsa möguleika fyrir fjölskyldumeðlimi til að vera áfram ef aðstæður breytast. Fólk sem missir maka sinn, verður fyrir ofbeldi af hans hálfu, eða á hættu á að verða fyrir fordómum heima fyrir vegna skilnaðar getur til dæmis fengið að dvelja á landinu eftir að hjúskap líkur „ef sérstaklega stendur á“.

Hins vegar mætti kveða skýrar á um rétt fólks sem skilur við maka sinn af „venjulegum“ ástæðum, þ.e.a.s. án þess að ofbeldi komi við sögu. Séu öll önnur skilyrði fyrir hendi er engin ástæða til að reka fólk úr landi við slíkar aðstæður.

Samantekt yfir tillögur

  1. Börn geti fylgt foreldrum sem eru í námi eða vinna tímabundið.
  2. Dvalarleyfi fyrir börn eldri en 18 ára sem eru á framfæri foreldra sinna.
  3. Fólk sem skilur þurfi ekki að fara úr landi.

 

Höfundur er þingmaður Viðreisnar. Greinin birtist á pawel.is 17. ágúst 2017.