Ísland tækifæranna: menntun

Ein helsta röksemd fyrir rekstri opinbers menntakerfis er að það eigi jafna tækifæri fólks. En þá er auðvitað gott að menntakerfið sannarlega geri það.

Í svari við fyrirspurn frá Nichole Leigh Mosty um brottfall innflytjenda úr framhaldskólum kom fram að brottskráningarhlutfall innflytjenda eftir 7 ár var einungis 31% (samanborið við 62%, hjá nemendum án erlends bakgrunns, sem raunar er ansi slappt líka).

Ég þykist ekki hafa svörin á reiðum höndum en ég veit að það þyrfti að veita málaflokknum meiri gaum. Til að byrja með eru svörin við fyrirspurn Nichole byggð á gögnum frá 2004-2011 enda virðist erfitt að nálgast þessar upplýsingar. Það væri því fyrsta skrefið, að huga að nákvæmari skráningu nemenda.

Skimun opinbers lesefnis um íslenska menntakerfið, ætlaðs innflytjendum, gefur til kynna að það sé engin sérstök opinber stefna eða lögfest áætlun um hvernig haga skuli að móttöku erlendra nemenda, þótt vissulega megi finna dæmi um skóla og sveitarfélög sem sett hafa sér verkáætlanir um þetta. Almennt mætti huga betur að því hvernig við mælum færni nemenda.

Mér skilst að það sé ekki óalgengt að pólsk sex ára börn sem fædd eru á Íslandi mælist með málþroska á við fjögurra ára börn í íslensku, en hafa sex ára málþroska í pólsku. Það segir manni að fjölskyldan og nærumhverfið standi sig betur í málörvun en skólakerfið. Hér þarf hugsanlega einhverja hugarfarsbreytingu og menntun starfsfólks til að örva betur málvitund barna sem læra tungumálið aðallega í gegnum leikskólann.

Þá verður að nefna eitt. Engin sérstök krafa er um að sveitarfélög styðji móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna eða hafi hana sem hluta af skólastarfi. Einhverjir hópar innflytjenda hafa tekið að sér að gera slíkt upp á eigin spýtur og reynt að fá niðurgreiðslu í gegnum frístundakerfi sveitarfélaganna. Það hefur gengið misvel. Hafnarfjörður hefur til dæmis hafnað slíkum beiðnum, sem þýðir að foreldrarnir greiða fyrir starfið úr eigin vasa.

 

Höfundur er þingmaður Viðreisnar. Greinin birtist á pawel.is hinn 24. ágúst 2017.