Varúð! – Falsfréttir

Í Alþingiskosningunum haustið 2017 dreifðu nokkrar vef- og samfélagsmiðlasíður nafnlausum áróðri sem beint var gegn ákveðnum stjórnmálamönnum og -flokkum og studdi óbeint aðra. Þorgerður K. Gunnarsdóttir vakti athygli á þessum vinnubrögðum á Alþingi og krafðist rannsóknar.

Trump hinum bandaríska og stuðningsmönnum hans verður tíðrætt um svonefndar falsfréttir eða Fake news eins og þeir nefna þær á ensku. Það er auðvitað ekkert grín þegar æðstu embættismenn valdamesta ríkis í heimi segja að fjölmiðlar flytji vísvitandi rangar fréttir. Við nánari skoðun hefur komið í ljós að falsfréttirnar svonefndu reynast eiga við rök að styðjast þannig að í munni Trumps er orðið falsfréttir samheiti við staðreyndir.

Sagan hefði getað endað þarna, ef ekki hefði komið í ljós að ósönnum sögum er í raun og veru dreift sem staðreyndum af ýmsum vefmiðlum. Sögurnar eru svo sumar endurteknar á samfélagsmiðlum, meðal annars af stjórnmálamönnum og áróðursmeisturum sem finnst þægilegt að vísa til þeirra sem sanninda. Nú stendur yfir mikil rannsókn á því hvort Rússar hafi haft áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra. Þeir virðast hafa reynt það og í ljós hefur komið að sumar falsveiturnar í Bandaríkjunum eiga uppruna sinn í Rússlandi. Í nóvember birti Economist fréttir um að Rússar hefðu líka beitt sér í Brexit-kosningunum (með úrsögn Breta). Fréttastofan Reuters sagði líka frá því í maí að hakkarar með tengsl við ríkisstjórn Rússlands hefðu beitt sér gegn Macron í Frakklandi síðastliðið vor. Þegar fólk sem stöðu sinnar vegna ætti að vera varðhundar sannleikans gerir engan mun á staðreynd eða lygi, rökum eða rökleysu, er lýðræðið í hættu statt.

Hvað kemur þetta Íslendingum við? Jú, sagan segir okkur að útlendingar hafa haft mikinn áhuga á að blanda sér með beinum hætti í íslensk stjórnmál. Sovétmenn studdu Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn, samtímis því sem Alþýðuflokkurinn naut fjárframlaga frá Norðurlandakrötum. Í öllum tilvikum höfðu foringjar flokkanna mikið fyrir því að fela slóðina.

Í Alþingiskosningunum haustið 2017 dreifðu nokkrar vef- og samfélagsmiðlasíður nafnlausum áróðri sem beint var gegn ákveðnum stjórnmálamönnum og -flokkum og studdi óbeint aðra. Þorgerður K. Gunnarsdóttir vakti athygli á þessum vinnubrögðum á Alþingi og krafðist rannsóknar. Með nafnlausum síðum geta flokkar komist framhjá reglum um fjármögnun kosningabaráttu, auk þess sem huldufólk og álfar sem þar skrifa vega úr launsátri, án þess að nokkur beri á skrifunum ábyrgð. Að minnsta kosti þrír stjórnmálaflokkar hafa verið orðaðir við slíkar síður.  Ég verð að játa að mér finnst ósennilegt að það sómafólk sem stjórnar þessum flokkum hafi áhuga á því að stuðningsmenn þeirra sniðgangi lögin með þessum hætti. Því er nauðsynlegt að undirróðursstarfsemin verði rannsökuð tafarlaust, þannig að engir verði hafðir fyrir rangri sök. Fyrir nokkrum áratugum töldu Rússar Ísland hluta af sínu áróðurssvæði. Það skyldi þó aldrei vera að Grýla gamla gangi aftur.

Birtist í Morgunblaðinu 2. janúar 2018