Viljum við ekki samkeppni?

Það er löngu tíma­bært að stjórn­völd end­ur­skoði afstöðu sína til frjálsrar sam­keppni. Við eigum stór­kost­leg tæki­færi til að draga úr sam­keppn­is­hindr­unum og lækka þannig kostnað neyt­enda.

Flest teljum við vafa­laust sam­keppni vera jákvætt fyr­ir­bæri. Öflug og góð sam­keppni tryggir fjöl­breytt vöru- og þjón­ustu­úr­val, lægra verð og aukið val­frelsi okkar sem neyt­enda. Sam­keppni er líka und­ir­staða vöru­þró­unar og tækninýj­unga svo eitt­hvað sé nefnt. Skortur á sam­keppni hér á landi á ýmsum mörk­uðum hefur líka verið harð­lega gagn­rýnd í gegnum tíð­ina og auk­inni sam­keppni með til­komu nýrra aðila á borð við Costco, H&M, Nova, WOW o.fl. hefur almennt verið tekið fagn­andi. Ein­ok­un­ar­staða á mörk­uðum er aldrei til góðs fyrir neyt­end­ur. Það er mik­il­vægt að nýta krafta sam­keppni á sem flestum sviðum sam­fé­lags­ins til að tryggja gæði, fram­boð, nýsköpun og ekki síst lágt verð. Um það hljótum við öll að vera sam­mála.

Þrátt fyrir jákvætt við­horf almenn­ings til sam­keppni virð­ist hún litin horn­auga á fjöl­mörgum sviðum sam­fé­lags­ins og þá ekki hvað síst af stjórn­völd­um. Það er ótrú­lega stutt síðan ein­okun var á smá­sölu mjólkur og ríkið eitt þótti fært um rekstur fjöl­miðla. Rökin sem notuð hafa verið gegn frjálsri sam­keppni hafa í gegnum tíð­ina verið heldur veik. Und­an­þága mjólkur­iðn­aðar frá sam­keppn­is­lögum var þannig afgreidd af Alþingi á aðeins tveimur vikum með þeirri meg­in­rök­semd að um ferskvöru væri að ræða þar sem „sam­keppni á inn­an­lands­mark­aði er ekki eins virk“. Þá væri um tíma­bundna ráð­stöfun að ræða til að und­ir­búa grein­ina undir aukna sam­keppni erlendis frá. Nú eru liðin fjórtán ár frá þeirri „tíma­bundnu“ ráð­stöfun án þess að bóli á afnámi und­an­þág­unnar né auk­inni sam­keppni erlendis frá. 

Treysta stjórn­völd ekki neyt­end­um?

Stjórn­völd virð­ast eyða tals­vert meira púðri í að hindra sam­keppni en liðka fyrir henni. Það má stundum halda að stjórn­völd treysti ekki neyt­endum til að velja. Þannig búum við enn við rík­is­ein­okun eða umtals­verða þátt­töku rík­is­ins í sam­keppn­is­rekstri á ýmsum sviðum sem oft og tíðum skekkir veru­lega stöðu ann­arra aðila. Sé það ekki nógu slæmt þá er hið opin­bera gjarnt á að reisa sam­keppn­is­hindr­an­ir ­sem hygla ein­stökum aðilum á mark­aði.

Ríkið má þannig eitt stunda smá­sölu­verslun með áfengi, heild­sölu­verslun með tóbak og að stórum hluta póst­dreif­ing­ar. RÚV er rekið með mynd­ar­legum opin­berum fram­lögum án þess að reisa stofn­un­inni neinar skorður á aug­lýs­inga­mark­aði sem hefur í för með sér veru­lega skekkta sam­keppn­is­stöðu fyrir einka­rekna fjöl­miðla.

Land­bún­aður er sér­stak­lega und­an­þeg­inn sam­keppn­is­lögum og ramm­gerður tollamúr hindrar eðli­lega sam­keppni inn­fluttra vara. Í heil­brigð­is­þjón­ustu er einka­rekstur lit­inn horn­auga í stað þess að hann sé nýttur til að lækka kostnað rík­is­ins af heil­brigð­is­þjón­ustu. Leigu­bílar eru reknir á sér­leyfum með fjölda­tak­mörk­unum sem dregur úr sam­keppni með til­heyr­andi kostn­aði fyrir neyt­end­ur. Þjóð­kirkjan býr við veru­legt for­skot í fjár­fram­lögum sam­an­borið við önnur trú­fé­lög. Einka­reknir grunn­skólar fá almennt lægra fram­lag á nem­anda en opin­ber­ir, stærsta sveit­ar­fé­lag lands­ins virð­ist heldur andsnúið einka­reknum leik­skólum og ríkið eitt virð­ist fært um að sinna náms­gagna­gerð af ein­hverju viti. Við hyglum Háskóla Íslands sér­stak­lega, sér í lagi hvað varðar fram­lög til rann­sókna og vafa­lítið mætti fjöl­margt fleira tína hér til.

Sam­keppni er heil­brigð á öllum sviðum sam­fé­lags­ins

Ef við trúum því að sam­keppni skili almennt betri vöru eða þjón­ustu á lægra verði en ella, ættum við þá ekki frekar að beina kröftum okkar að því að liðka fyrir henni með öllum til­tækum ráðum? Í heil­brigð­is­þjón­ustu skiptir okkur mestu máli að fá sem besta þjón­ustu. Við viljum að sú þjón­usta sé að stærstum hluta kostuð af hinu opin­bera (hér er ekki verið að tala fyrir einka­væð­ingu heil­brigð­is­kerf­is­ins) en það getur verið skyn­sam­legt að nýta kosti sam­keppni til að halda kostn­aði niðri og um leið örva nýsköpun og fjöl­breytni í þjón­ustu. Hið sama gildir um mennta­kerfið okk­ar. Þar skiptir okkur mestu máli að hafa fjöl­breytt, hag­kvæmt og öfl­ugt mennta­kerfi þar sem nýsköpun og fram­sækni eru í fyr­ir­rúmi. Ég er t.d. ekki í nokkrum vafa að til­koma Háskól­ans í Reykja­vík hafi haft mjög jákvæð áhrif á Háskóla Íslands, vegna sam­keppni um nem­end­ur. Þegar kemur að mat­væla­fram­leiðslu höfum við sem neytendur mestan hag af fjöl­breyttu og góðu vöru­úr­vali á sem bestu verði. Þar er stærsta vanda­málið hið síð­ast­nefnda. Mat­væla­verð er hér langtum hærra en í nágranna­löndum okk­ur, ekki hvað síst vegna vernd­ar­stefnu okkar í land­bún­aði en afar fá lönd inn­an OECD vernda land­búnað sinn jafn mikið og við.

Það er löngu tíma­bært að stjórn­völd end­ur­skoði afstöðu sína til frjálsrar sam­keppni. Við eigum stór­kost­leg tæki­færi til að draga úr sam­keppn­is­hindr­unum og lækka þannig kostnað neyt­enda. Alþingi ætti frekar að verja tíma sínum í að liðka fyrir sam­keppni með hags­muni neyt­enda í fyr­ir­rúmi en við­halda þeim sam­keppn­is­hindr­unum sem tíðkast svo víða í sam­fé­lag­inu. Í Við­reisn viljum við setja almanna­hags­muni ofar sér­hags­munum og það gerum við best með því að stuðla að sem mestri sam­keppni á sem flestum sviðum þjóð­fé­lags­ins.