Hvað má?

Öllum kemur við hvernig peningum almennings er varið. Þess vegna lagði ég áherslu á það sem fjármálaráðherra að allir hefðu aðgengi að reikningum ráðuneytanna á vefnum opnirreikningar.is. Það var ekki þrautalaust að koma því í gegn.

Umræðan um akstur þingmanns er hávær og þörf. Sumum þykir nóg um. Það finnst mér ekki. Við eigum að ræða störf og útgjöld þingmanna af sanngirni og láta eitt yfir alla ganga. Sanngirni felst í því að horfa á alla myndina. Nú ganga þingmenn fram og lýsa því yfir að þeir hafi ekki þegið neina aksturspeninga. Það er athyglisvert að slíta þarf þessar upplýsingar út með töngum.

Öllum kemur við hvernig peningum almennings er varið. Þess vegna lagði ég áherslu á það sem fjármálaráðherra að allir hefðu aðgengi að reikningum ráðuneytanna á vefnum opnirreikningar.is. Það var ekki þrautalaust að koma því í gegn. Sumir sáu því allt til foráttu. Einkum voru nefnd persónuverndarsjónarmið. Þau eiga sums staðar við en alls ekki alltaf. Mótbárur voru til dæmis: „Kemur einhverjum það við að keypt séu blóm þegar starfsmaður á afmæli eða lætur af störfum?“ Ég svaraði því til að ekkert væri eðlilegra en að ríkið eins og aðrir vinnuveitendur gleddu sína starfsmenn á hátíðarstundum.

Mest er feimnin í sambandi við áfengiskaup. Flestum finnst að við sum tækifæri sé vel við hæfi að gera sér glaðan dag og lyfta glösum. Tilgangurinn með því að hafa reikningana aðgengilega er einmitt að hægt sé að meta hvað sé hæfilegt. Ef einhverjum finnst óþægilegt að almenningur viti af slíkum kostnaði kemur gagnsæið kannski í veg fyrir útgjöldin. Þá er tilganginum náð.

Ég vildi reyndar ganga lengra í birtingu reikninga þannig að öll fylgiskjöl yrðu aðgengileg á vefnum. Það átti að gerast síðar á árinu 2017, en hefur ekki enn náð fram að ganga. Öll tækniatriði eru klár, einungis vantar pólitískan vilja.

Þegar ég kom í fjármálaráðuneytið nutu ýmsar stofnanir hins opinbera afsláttar í áfengisinnkaupum. Þessi undarlegi hvati var afnuminn að mínu frumkvæði. Allir eiga að vera jafnir.

Alþingi á að fylgja í kjölfarið og birta alla útgjaldareikninga. Þá kemur í ljós hvers konar kostnaður fylgir því að hafa þingmenn í vinnu og hvaða útgjöld eru eðlilegur hluti af þingmannsstarfinu.

Umræða um störf stjórnmálamanna á ekki bara að snúast um kostnað. Fyrir tæplega 25 árum birtist eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu: „McDonald’s veitingastaðurinn í Reykjavík verður opnaður almenningi í fyrramálið en í kvöld opnar Davíð Oddsson forsætisráðherra staðinn formlega og pantar sér fyrsta íslenska McDonald’s hamborgarann.“ Þetta vakti feykilega athygli og sitt sýndist hverjum um atburðinn, en fjölmargir ljósmyndarar mættu á staðinn og sýndu forsætisráðherrann háma í sig borgarann. Deilur af þessu tagi hafa ekki verið háværar að undanförnu, þó að ráðherrar komi víða við á auglýsingaatburðum. Stjórnmálamenn eiga að vera hluti af samfélaginu, en er eðlilegt að þeir auglýsi mat, kökur eða aðrar vörur og þjónustu?