KRÓNAN EÐA KAUPIÐ?

Til þess að fyrirtæki beri sig verða þau að fá nægar tekjur. Auðvelt er að segja að eigendur fyrirtækja geti sjálfum sér um kennt að hafa samið um allt of há laun. Málið er ekki svona einfalt. Styrking krónunnar veldur því að mörg fyrirtæki í útflutningi fá miklu minni tekjur núna en þegar þau sömdu um launin.

Margir vöknuðu við vondan draum á dögunum þegar eitt elsta og virtasta fyrirtæki landsins, Prentsmiðjan Oddi, sagði upp tæplega 100 starfsmönnum. Hefði Oddi ekki verið í Reykjavík væri eflaust búið að krefjast aðgerða til þess að bjarga fyrirtækinu eða að minnsta kosti störfunum. Stjórnmálamenn gömlu flokkanna kippa sér samt ekki upp við þetta. Þeirra hjarta slær með landbúnaði og sjávarútvegi, samkeppnisgreinarnar geta séð um sig sjálfar.

Áður en lengra er haldið er rétt að minnast þess að Oddi er í grein sem tæknin hefur að hluta gert úrelta. Nú getur hver sem er verið með heilt bókasafn í símanum sínum eða lesbretti. Ungt fólk liggur í alls kyns fróðleik á netinu og hefðbundnar bækur, tímarit og dagblöð á pappír hafa verið í vörn. Samt seljast bækur enn í þúsundatali hér á landi. Prentun hefur ekki horfið heldur flust úr landi. Stærsti bókaútgefandinn segist láta prenta allar bækur erlendis. Sömu sjónarmið eiga við í umbúðaprentun.

Þegar raungengi krónunnar verður jafnsterkt og núna er afar erfitt fyrir útgefendur í samkeppnisrekstri að réttlæta það að borga meira fyrir sína prentun en keppinautarnir. Þeir þurfa að borga markaðslaun og háa vexti íslenskra lánastofnana og reyna að spara þar sem það er hægt.

Nú kenna sumir miklum launahækkunum undanfarin ár um hrakninga í útflutningsgreinum. Aðrir segja að krónunni sé um að kenna með sínum sveiflum og háum vöxtum. Allir flytja sitt mál af mikilli sannfæringu og gera oft lítið úr málstað hinna.

Hið rétta er að báðir hafa nokkuð til síns máls. Til þess að fyrirtæki beri sig verða þau að fá nægar tekjur. Auðvelt er að segja að eigendur fyrirtækja geti sjálfum sér um kennt að hafa samið um allt of há laun. Málið er ekki svona einfalt. Styrking krónunnar veldur því að mörg fyrirtæki í útflutningi fá miklu minni tekjur núna en þegar þau sömdu um launin. Til þess að þau beri sig þurfa þau að draga úr kostnaði. Oddi sagði upp stórum hluta starfsmanna og hefur dregið úr ákveðinni tegund prentunar vegna þess að hún skilar ekki afgangi miðað við það samkeppnisverð dagsins.

Einhver kann að segja að svona sé lífsins gangur. Ekkert fyrirtæki geti krafist eilífs lífs. Samt er ekki allt sem sýnist. Það er nefnilega vitlaust gefið þegar gjaldmiðillinn sjálfur blaktir eins og lauf í vindi. Eftir nokkur ár hefur verðgildi krónunnar kannski fallið aftur þannig að hægstætt verði að prenta á Íslandi, ef eitthvað fyrirtæki verður þá til þess, með þekkingu og tækjabúnað sem til þarf.

Snúum hinni pólitísku umræðu frá fæðuöryggi og hrægömmum og að því sem máli skiptir: Að á Íslandi verði áfram til verðmæt störf og að við notum gjaldmiðil sem fyrirtæki og launþegar geta treyst að sveiflist ekki um tugi prósenta á hverju misseri.

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. febrúar 2018.