Viðreisn stofnar félag í Árnessýslu

Félagið Viðreisn Árnessýslu var stofnað í Tryggvaskála þann 15. febrúar síðastliðinn. Tilgangur þess er að halda uppi félagsstarfi stjórnmálasamtakanna Viðreisnar í Árnessýslu í samræmi við stefnu flokksins og annast framboð Viðreisnar í sveitastjórnarkosningum á starfssvæðinu.

Á fundinum var gengið frá starfs- og skipulagsreglum félagsins og kosinn formaður og stjórn. Formaður er Ingunn Guðmundsdóttir, aðrir í stjórn eru Hrafnhildur Árnadóttir Þorlákshöfn, Jóna Sólveig Elínardóttir Selfossi, Sigurjón Vídalín Guðmundsson Selfossi og Skúli Kristinn Skúlason Þorlákshöfn. Varamenn stjórnar eru Axel Sigurðsson Selfossi og Sigurður Steinar Ágústsson Þorlákshöfn.

Jón Steindór Valdimarsson alþingismaður var gestur á fundinum og sagði frá starfi Viðreisnar á sveitarstjórnarstigi en víða um land er verið að huga að framboðum. Líflegar umræður urðu um sveitarstjórnarmál og kom fram mikill áhugi fundarmanna á að bjóða fram undir merkjum Viðreisnar. Eftirfarandi ályktun var samþykkt í lok fundar:

„Sveitarstjórnir og önnur stjórnvöld þurfa að stuðla að góðum stjórnarháttum með gegnsæi og gott siðferði að leiðarljósi. Málefnaleg og opin umræða er nauðsynleg til að hægt sé að taka réttar ákvarðanir.

Almannahagsmunir eiga alltaf að ganga framar sérhagsmunum við stefnumörkun, fjárútlát af almannafé og alla ákvarðanatöku sveitarstjórna.

Það er hagur einstaklinga, heimila og fyrirtækja að jafnræðis sé gætt við úthlutun þjónustu, fjármuna, starfa eða verkefna hjá sveitarfélögum.

Jafnrétti og frjálslyndi stuðlar að aukinni velmegun og tryggir einstaklingum tækifæri til að nýta hæfileika sína og krafta til fulls.“

Framundan eru skemmtilegir og annasamir tímar í pólitíkinni, þeir sem hafa hug á að taka þátt í starfi Viðreisnar geta gerst félagar með því að skrá sig á vidreisn.is og við höfum samband.

Eins og alltaf á fjögurra ára fresti munu kjósendur ákveða hverja þeir vilja ráða til starfa við að reka sveitarfélögin í landinu. Viðreisnarfélagar munu blanda sér í þá umræðu og bjóða sig fram til starfa undir leiðarljósinu ,,almannahagsmunir framar sérhagsmunum“.

Ingunn Guðmundsdóttir formaður Viðreisnar Árnessýslu.

Greinin birtist fyrst í Dagskránni, fréttablaði Suðurlands 22. febrúar 2018