Er Reykjavík aðlaðandi borg?

Í kosningum geta íbúar breytt um stefnu eða fest í sessi óbreytt ástand. Sveitarstjórnarkosningar eru samt ekki eina tækifæri landsmanna til þess að sýna hvernig þeim líkar ástandið. Fólk getur líka valið hvort það vill búa í ákveðnu sveitarfélagi eða ekki. Fáir velta því fyrir sér að flytja í Árneshrepp, en margir, og kannski flestir, Íslendingar hafa einhvern tíma leitt að því hugann hvort þeir vilji búa í Reykjavík. Fólk kýs með fótunum um Reykjavík öðrum íslenskum stöðum fremur.

Við verðum að bíða til 26. maí til þess að vita hvernig kjósendur verja atkvæðum sínum, en við vitum hvernig nýjasta kosning landsmanna um Reykjavík fór. Á árunum 2004 til 2018 fjölgaði íbúum Íslands um 20% en höfuðborgarbúum ekki nema um 11%. Tíu þúsund Íslendingar ákváðu að búa ekki í Reykjavík á undanförnum 14 árum. Hvað veldur því að þeir vilja frekar búa annars staðar?

Í fyrsta lagi hafa borgaryfirvöld haldið aftur af fjölgun íbúa með því koma í veg fyrir eðlilega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þessi stefna borgarinnar hefur óneitanlega haft þau alvarlegu áhrif að hækka verð á íbúðum. Íbúðaverðið fer út í verðbólguna og hækkar verðtryggð lán landsmanna. Fólk leitar í sveitarfélögin sem hafa ekki haft þá stefnu að hefta byggð.

Í öðru lagi er löng bið eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Fólk með ungbörn á fá úrræði frá því að fæðingarorlofi lýkur og er bundið yfir börnum sínum, oftast án tekna. Atvinnulífið tapar verðmætu vinnuframlagi.

Í þriðja lagi er árangur barna úr skólum í Reykjavík ekki góður í alþjóðlegum samanburði. Foreldrar vilja auðvitað að börn þeirra fái menntun sem skilar þeim samkeppnishæfum í alþjóðavæddum heimi.

Í fjórða lagi er borgin ekki aðlaðandi fyrir fyrirtæki. Samkvæmt mælingum Alþjóðabankans er Ísland 64. sæti í skilvirkni við veitingu byggingarleyfa. Biðtími hér er 75 dagar og 17 skref sem fara þarf í gegnum fyrir umsækjandann. Danir eru í fyrsta sæti með 60 daga og 7 skref.

Í fimmta lagi hefur borgin drabbast niður. Grænu svæðin hverfa, grasblettir eru sjaldan slegnir, stéttir og götur eru sjaldan þrifnar og sorp frá íbúum er sótt á um hálfs mánaðar fresti (og kallað betri þjónusta). Reykjavík þarf að verða græn og falleg borg án plastpoka.

Í sjötta lagi eru almenningssamgöngur slakar, sérstaklega fyrir þá sem eiga langt að sækja í vinnu eða skóla. Tíðni ferða þarf að auka á morgnum og síðdegis.

Setjum okkur í spor ungs fólks sem er að ljúka námi í Kaupmannahöfn eða Ósló. Vilja þau flytja til Reykjavíkur eða vera kyrr? Það sem skiptir máli er húsnæði, skóli fyrir börnin, góð vinna, fallegt umhverfi og góðar samgöngur. Með allt þetta í huga kjósa margir annan stað en Reykjavík. Þessu getur þú breytt í kosningunum í vor með því að kjósa Viðreisn.

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. apríl 2018.