Hringanafna vitleysa

Ef þú ert karlmaður máttu heita Marzelíus eða Marsellíus en ekki Marzellíus. Þar er vísað til mannanafnalaga sem segja að nafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Þannig að augljóslega ekki Marzellíus, bara Marzelíus eða Marsellíus.

Eða hvað?

Samkvæmt úrskurði mannanafnanefndar sem birtist í liðinni viku var nafninu Marzellíus hafnað þar sem ritháttur nafnsins hefur ekki unnið sér hefð í ís­lensku máli. Nú er orðið hefð örugglega teygjanlegt hugtak í huga einhverra, en engu að síður er það umhugsunarefni að Marz­ellíus hefur um langt skeið verið nokkuð algengt nafn á Vestfjörðum og Vestfirðir tilheyrðu Íslandi síðast þegar ég vissi. Það muna örugglega fleiri en ég eftir Skipasmíðastöð Marzellíusar sem nefnd var í höfuðið á stofnandanum honum Marzellíusi. Og á Ísafirði býr a.m.k. einn Marzellíus sem fær meira að segja að hafa nafnið sitt svo ritað í Þjóðskrá. En hann var reyndar skírður áður en mannanafnanefnd komst að þeirri niðurstöðu á grunni mannanafnalaga að það væri ekki hefð fyrir nafninu. Sem sagt, of gamall til að vera hefð!

Botnar einhver í þessari vitleysu? Vill einhver þessa vitleysu?

Yfirlýst markmið núgildandi mannanafnalaga er m.a. að vinna að varðveislu íslenska mannanafnaforðans og íslenskra nafnasiða. Forsjárhyggja af því tagi sem lögin leiða af sér á ekki heima í nútímasamfélagi. Ef Íslendingar vilja varðveita íslensk nöfn og nafnahefð, og ekkert bendir til annars en að svo sé, þá gera þeir það sjálfir án valdboðs stjórnvalda. Alþingi er nú með til meðferðar frumvarp Viðreisnar um breytingar á mannanafnalögum þar sem markmiðið er að tryggja rétt einstaklinga til að bera þau nöfn sem þeir kjósa. Í um þúsund ár hafði íslensk þjóð fullt og óskorað frelsi til að nefna börn sín þeim nöfnum sem hún vildi. Þetta frelsi skilaði þeirri nafnahefð sem Alþingi hefur síðustu áratugi talið þörf á að festa í sessi með verulega íþyngjandi hætti fyrir almenning.

Er ekki kominn tími til að treysta fólki aftur fyrir eigin nöfnum?