Góðir stjórnsýsluhættir og slæmir

Meirihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á hrós skilið fyrir þá framsýni að bjóða fulltrúum allra flokka í bæjarstjórn að borðinu við mótun menntastefnu Hafnarfjarðar til framtíðar. Þetta verklag tryggir að gagnsæja og djúpa umræðu sem tryggir aftur að um lokaafurðina ríkir sem mest sátt. Ég er viss um að menntastefna okkar Hafnfirðinga verður metnaðarfull, framsýn og fyrirmynd annarra sveitarfélaga.

Sömu sögu er því miður ekki hægt að segja um endurskoðun aðalskipulags Hafnarfjarðarbæjar. Tillaga meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknar var að stofna vinnuhóp með fulltrúum þriggja flokka af sex. Tillaga Guðlaugar Kristjánsdóttur um vinnuhóp allra flokka var slegin út af borðinu en lagt til að fjórir flokkar fengju sæti við borðið. Því var hafnað. Hafnfirðingar kusu sex flokka í bæjarstjórn en ekki fjóra.

Meirihlutinn dró þá tillögu sína um sérstakan starfshóp til baka og lagði til að vinnan við aðalskipulag færi fram á fundum skipulagsráðs þar sem allir flokkar hafa fulltrúa.

Þessi niðurstaða þykir mér slæm. Endurskoðun aðalskipulags er umfangsmikið verkefni sem mun taka mikinn tíma í yfirferð. Fundir skipulagsráðs eru nú þegar nokkuð langir og þetta verklag þýðir að álag á ráðsmenn mun aukast. Hættan við þetta verklag er líka að meirihlutinn vinni tillögurnar utan vinnutíma ráðsins og skili inn fullunnum tillögum fyrir ráðið til samþykktar.

Það hefur aldrei verið mikilvægar en nú að vinna að skipulagsmálum hér bæ þannig að sátt ríki um framtíðarsýn okkar um það hvert við viljum stefna. Möguleikar Hafnarfjarðar á næstu áratugum til stækkunar og farsældar eru miklir og því þurfa almannahagsmunir að vera í forgrunni þessarar vinnu en ekki óheflaðir sérhagsmunir.

Sporin hræða einnig þar sem verklag meirihlutans hefur verið að lofa öllu fögru á fyrri skipulagsstigum en kasta svo grímunni á lokastigum deiliskipulagsvinnu og fórna hagsmunum bæjarbúa fyrir óskir framkvæmdaaðila. Verklag við höfuðstöðvar Hafró og nú í Gjótunum eru nýjustu dæmin um þessa aðferðarfræði.

Af hverju vilja Sjálfstæðismenn og Framsókn ekki vinna að skipulagsmálum fyrir opnum tjöldum í sátt við bæjarbúa?

Jón Ingi Hákonarson,
oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 11. september 2019