Engin plön um að lyfta Ís­landi úr botn­sætinu

Þorsteinn Pálsson

Ráðherrar bera ábyrgð. Þeir komast ekki hjá því að láta kalda rökhyggju ráða för. Hinir, sem minni ábyrgð bera, eru frjálsari að því að tala á nótum tilfinninga. Fáir þekkja betur en núverandi heilbrigðisráðherra, að sú staða er miklu þægilegri þegar tala þarf til kjósenda um heilbrigðismál.

Pólitíska hlið málsins

Fallast verður á það með ráðherranum að varasamt geti verið að spinna einstakar fréttir upp í mikinn tilfinningahita. En það þýðir ekki að fréttir af Landspítalanum komi umræðunni ekki við. Þegar þær eru virtar í heild segja þær óneitanlega mikla sögu, sem þjóðin á rétt á að þekkja.

Flestir, sem horfa og hlusta á fréttir Ríkisútvarpsins um heilbrigðismálin, skynja vaxandi þunga í tíðindum af neyðarástandi, lokunum, biðlistum, uppsögnum, skorti á hjúkrunarfræðingum, skorti á hjúkrunarrýmum og skorti á efndum á að leysa úr þeim skorti. Ekkert bendir til þess að sú mynd, sem fréttastofan sýnir af málefnum Landspítalans, sé röng eða villandi.

Af þessum fréttum má ekki draga þá ályktun að ástandið skrifist alfarið á reikning núverandi ráðherra. Þetta er uppsafnaður vandi. En ástandið hefur ekki farið batnandi það sem af er kjörtímabilinu og hveitibrauðsdagarnir eru löngu liðnir. Það er pólitíska hlið málsins.

Fjárlögin endurspegla enga grundvallarbreytingu

Núverandi ráðherra er að framkvæma þriðju fjárlög sín á þessu sviði. Pólitíkin í þeim endurspeglar enga grundvallarbreytingu. Margir áttu þó von á því í ljósi þeirra heitu tilfinninga í heilbrigðismálum, sem ráðherrann og formaður flokks hennar sýndu í aðdraganda síðustu kosninga.

Ástandið er samt ekki svo slæmt að ráðherrann hafi af engu að státa. Í því sambandi má nefna að fjármögnuð áætlun um lækkun kostnaðarhlutdeildar sjúklinga er mjög mikilvægt skref, sem full ástæða er til að meta. En þetta þarfa framtak er bara of lítið brot af heildarmyndinni til þess að unnt sé að segja að það sé til marks um afgerandi breytingu á henni.

Heilbrigðismálin eru svo stór hluti útgjalda þjóðarinnar að þar verða engar grundvallarbreytingar gerðar nema ákvörðun sé tekin um að breyta stóru línunum í fjárlögum og fjármálaáætlun.

Búast má við neikvæðum áhrifum fjármálaáætlunar á heilbrigðiskerfið

Samneyslan er einn af þeim mælikvörðum sem horfa þarf á í þessu sambandi.

Auka má samneysluna og efla heilbrigðiskerfið með því að hækka skatta og minnka einkaneyslu. En í fjármálaáætluninni segir berum orðum að það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Öngþveitið í heilbrigðismálunum verður því ekki leyst með því móti. Fyrir síðustu kosningar hélt VG því hins vegar fram að það yrði aðeins leyst með skattahækkunum og aukinni samneyslu.

En það er önnur leið til að auka vægi heilbrigðismálanna. Hún felst í því að skera niður á öðrum sviðum samneyslunnar og flytja sparnaðinn yfir í heilbrigðismálin. Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki heldur að finna skipulega og markvissa tilfærslu yfir til heilbrigðiskerfisins í þeim mæli að verulegu máli skipti í þessu samhengi.

Í umsögn BSRB um fjármálaáætlunina frá því í fyrravor sagði að búast mætti við neikvæðum áhrifum hennar á heilbrigðiskerfið. Engin tilfinningaleg upphrópun. Engin flokkspólitík. Bara þungur dómur, byggður á köldum tölum.

Fórum úr toppsætinu í botnsætið

Annar mælikvarði, sem óhjákvæmilegt er að horfa á, er hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu. Í byrjun þessarar aldar var þetta hlutfall hæst á Íslandi þegar Norðurlönd voru borin saman. Nú er það lægst á Íslandi.

Í kjölfar hrunsins lækkaði þáverandi ríkisstjórn heilbrigðisútgjöld hlutfallslega meir en nam lækkun þjóðarframleiðslunnar. Hlutfallið hefur lítið hækkað síðan.

Ekki er sanngjarnt að fella þunga dóma um þær ráðstafanir, sem gerðar voru í ríkisfjármálum í kjölfar hrunsins. En það skjól er ekki til staðar lengur. Samstaða þeirrar ríkisstjórnar, sem VG leiðir nú, byggir á því að raska ekki meginhlutföllum í fjármálum ríkisins og halda stóru línunum óbreyttum. Ráðherra kallar það stöðugleika, aðrir kyrrstöðu.

Í fjármálaáætluninni er því ekki að sjá nein skýr mælanleg markmið um að lyfta landinu upp úr botnsæti Norðurlanda í þessum samanburði. Það er kjarni málsins.

Eins og að lækna rauða hunda með því að velta sér upp úr hveiti

Fjármálaráðherra segir að nauðsyn beri til að fá meira fyrir hverja krónu með betra skipulagi. Og heilbrigðisráðherra hefur eytt miklum tíma í að breyta kerfinu.

Skipulagsbreytingin er helst í því fólgin að flytja verkefni frá velferðarsamtökum og einkaaðilum, sem ekki gera kröfur um arðsemi, til Landspítalans áður en honum er gert kleift að sinna sem skyldi þeim verkefnum, sem fyrir eru.

Flestum er ljóst að skipulagsbreytingar af þessu tagi og í þessari tímaröð auka bara á vandann og fækka ekki fréttum af neyðarástandi á bráðamóttökunni. Og ekki hefur verið sýnt fram á að fá megi meira fyrir hverja krónu með þessu móti.

Nýjasta skipulagstillaga heilbrigðisráðherrans virðist miða að því að eyða neyðarástandinu með því að segja læknum að tala ekki um það í fréttum. Það er eins og að lækna rauða hunda með því að velta sér upp úr hveiti.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. janúar 2020