Fyrst komu þeir og sóttu kommúnistana; ég sagði ekkert því að ég var ekki kommúnisti. Síðan sóttu þeir gyðingana; ég sagði ekkert því að ég var ekki gyðingur. Þá komu þeir til þess að sækja verkamennina, félaga í stéttar­félögum; ég var ekki í stéttarfélagi. Þar á eftir sóttu þeir kaþólikkana; ég sagði ekkert því að ég var mótmælandi. Loks komu þeir til þess að sækja mig og enginn varð eftir sem gat sagt neitt.“ Í þessum fræga prósa séra Martin Niemöller fólst ádrepa á skoðana- og kjarkleysið á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þetta var samfélags- og sjálfsgagnrýni í senn.

Skoðanaleysi getur af sér sinnuleysi og ef eitthvað er ógn við lýðræðið í nútímasamfélagi er það afskiptaleysi. Afskiptalaust samfélag er gróðrarstía lýðskrums og sérhagsmuna þar sem almannahagsmunir víkja. Sömu öfl nýta plássið til að grafa undan jaðarsettum hópum, sjálfsögðum mannréttindum og alþjóðasamfélaginu. Það sjáum við í dag bæði austan hafs og vestan. Áróður þessara afla einkennist af hentistefnu og það er alið á ótta, sundrung og óhróðri. Tortryggninni gefnir vængir. En á endanum snýst þetta aðeins um eitt; völd. Þeirra völd. Ekkert annað. Sinnuleysi gagnvart lýðskrumi og öfgum er því ekki í boði.

Afhjúpandi ár

Árið 2019 afhjúpaði að mörgu leyti þau sérhagsmunaöfl sem hafa fest rætur sínar innan íslensks samfélags. Fámennir aðilar ráða hér miklu. Áhrif þeirra ná til stjórnkerfisins, hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka. Tryggt er að við þessu rótgróna kerfi verði ekki hróflað.

Þegar óréttlætið er síðan dregið fram í dagsljósið eru viðbrögð stjórnvalda fyrirsjáanleg; hópar eru skipaðir til að skoða og greina. Nefndir og hópar eru hins vegar ekki ígildi aðgerða. Til þess þarf pólitískan vilja. Ég nefni nokkur dæmi:

Með auðlindanefndinni árið 2000 náðist þverpólitísk samstaða um hvernig standa ætti að auðlindamálum í framtíðinni. Reynt var að setja niður áralangar deilur og óeiningu um kvótakerfið og sjávarútveginn. Þar var tillaga sett fram sem fól í sér tímabindingu samninga og að greiða ætti sanngjarnt gjald fyrir afnotaréttinn. Tvö grundvallaratriði sem enn hefur ekki láðst að innleiða. Tuttugu árum síðar. Ekki síst vegna þess að helstu samtök sjávarútvegsins sneru baki við þessari sáttargjörð um almannahagsmuni. Það var engin tilviljun. Hið sama gildir um brýna uppfærslu á stjórnarskránni sem enn hefur ekki litið dagsins ljós.

Brostin loforð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins árið 2013, um þjóðaratkvæði um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið voru heldur engin tilviljun. Ekki heldur að hagsmunamál eins og jafnt vægi atkvæða, breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfinu, óstöðugur gjaldmiðill, vaxtakjörin og áhrif þeirra á íslensk heimili eru ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Allt eru þetta mál sem hrófla við hennar helstu bakhjörlum. Ríkisstjórnarinnar með kyrrstöðusáttmálann.

Fyllt upp í pólitískt tómarúm

Með stofnun Viðreisnar var fyllt upp í tómlegt skarð á hinu pólitíska litrófi. Við erum nútímalegur, frjálslyndur og alþjóðasinnaður flokkur. Umhyggja og frjálslyndi eru undirstaða okkar og eru samofin í einn vef sem ekki verður slitinn í sundur. Við erum flokkur kerfisbreytinga og höfum óhikað lagt fram mál því til stuðnings. Við höfum ruggað bátnum þegar þess hefur þurft. Við skynjum þá kröfu almennings að stjórnmálin verði að vera mannlegri, gegnsærri og skilvirkari.

Við megum vera ósammála og tala fyrir hugsjónum okkar. Hafa skoðun á málum án þess að verða afvegaleidd af þeim sem hrópar hæst og býður mest. Við getum ekki staðið hjá og beðið eftir því að einhver annar haldi uppi sjónarmiðum okkar eða tali okkar máli. Við verðum að byrja hjá okkur sjálfum. Þess vegna verðum við sem trúum á frjálst, opið og mannúðlegt samfélag að taka afstöðu. Stíga fram og taka slaginn. Orð Niemöller eru góð áminning um að það er ekki sjálfgefið að einhver annar muni gera það.

Ég óska landsmönnum öllum gleði og gæfu, ástar og kærleika á nýju ári.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. janúar 2020