Þingmenn sjá ljósið

Benedikt Jóhannesson
Tvennt veldur því öðru fremur hve lítið álit almenningur hefur á stjórnmálamönnum. Annars vegar hve auðveldlega þeir skipta margir um skoðun, jafnvel sannfæringu, eftir því hvað hentar þeirra frama hverju sinni. Hitt er hve fljótt þeir temja sér hroka og yfirlæti þegar þeir hafa náð þessum frama. Þeir tala niður til andstæðinga og svara með skætingi þegar þeir eru komnir í vanda.Þegar forsætisráðherra var minnt á það á Alþingi að 75% sprota- og tæknifyrirtækja segja krónuna vera slæman eða alslæman gjaldmiðil svaraði hún með svipuðu fasi og sumir forverar hennar: „Þá er komið hér með svona gamla tuggu, myndi ég segja, um að allt sé þetta gjaldmiðlinum að kenna.“ Þegar þau fyrirtæki, sem eru líklegust til þess að bæta lífskjör á Íslandi í framtíðinni, segja út frá sinni reynslu eitthvað sem er ráðherranum ekki að skapi er gert lítið úr þeim og áliti þeirra.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lentu í vandræðum síðastliðið sumar. Margir flokksmenn höfðu talað gáleysislega um orkupakkann svonefnda, sem fæstir þeirra þekktu og enn færri skildu. Allt í einu uppgötvuðu forystumenn í flokknum að í pakkanum var ekkert sem gaf ástæðu til þess að vera á móti honum og auk þess voru þeir með afstöðu sinni að setja EES-samstarfið í uppnám.

Björn Bjarnason sagði á heimasíðu sinni: „Norskir EES-andstæðingar beittu sér fyrir best heppnuðu upplýsingafölsunar-herferð útlendinga í seinni tíð á íslenskum stjórnmálavettvangi. [Þeir] beittu sér einnig innan Sjálfstæðisflokksins og varð nokkuð ágengt.“

Á 25 árum hafa Íslendingar verið iðnir við að innleiða gerðir Evrópusambandsins – meira en eina á hverjum degi. En Íslendingar eru eingöngu þiggjendur. Hörður heitinn Sigurgestsson var forstjóri Eimskipafélagsins í meira en 20 ár og færði íslenskt atvinnulíf inn í nútímann í lok 20. aldar. Hann sagði: „Ég skil ekki að menn vilji ekki sitja við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar.“

Bretar hafa eins og kunnugt er sagt skilið við Evrópusambandið. Brexit-flokkurinn svonefndi var stofnaður til að tryggja útgöngu. Þess vegna vakti það athygli þegar einn Evrópuþingmaður flokksins sagði í liðinni viku: „Nú er spurningin hver muni kalla þetta fólk [Evrópuþingið] til ábyrgðar meðan þeir ráða yfir bresku hafsvæði, en Bretar hafa enga fulltrúa.“

Harður stuðningsmaður útgöngu innan Íhaldsflokksins hafði áður sagt: „Þessi samningur [Brexit-samningur Theresu May] skilur okkur eftir án þess að rödd okkar heyrist, án atkvæða, án Evrópuþingmanna og án Evrópuráðherra. Það er sorgleg staða.“

Margir brosa þegar þessir þingmenn hafa loksins séð afleiðingar gjörða sinna. Hitt er þó verra þegar kollegar þeirra hér á landi segjast telja Íslandi best borgið án raddar og áhrifa.

Það er sorgleg staða.

Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2020