Finnska leiðin – sauna og sveigjanleiki

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Alla morgna er haf bíla á ferð um höfuðborgarsvæðið til að koma börnum í leikskóla og skóla áður en foreldrar fara til vinnu. Alla daga hefst sami öldugangurinn og ölduniðurinn í lok vinnudags. Án þess að ætla að teikna upp mynd af langleiðinlegustu konu í heimi þá var ég mjög mikið að hugsa um Norðurlöndin í bílnum í gær eftir vinnu, þegar ég var á leið að sækja dóttur mína á fótboltaæfingu.

„Við erum 15 árum á eftir Norðurlöndunum“ er yfirleitt niðurstaðan þegar opinberir aðilar rýna einhverja stöðu eða stefnu. Verandi þessu yfirleitt sammála hef ég verið í hlutverki biluðu plötunnar á fundum með því að spyrja alltaf sömu spurningar þegar eitthvert álitaefni eða vandamál er til umræðu. „Hvernig er þetta leyst á hinum Norðurlöndunum?“ (Hér hjálpar að þessi spurning hljómar alltaf gríðarlega faglega. Þegar spurningin smellpassar kannski ekki við efnið þá getur fundarmaður samt staðið beinn í baki á fundi því umræða um Norðurlöndin þykir nefnilega alltaf vönduð.) Svarið við því hvernig einhver systurþjóðanna á Norðurlöndunum hefur tæklað eitthvert mál hentar okkur yfirleitt líka alveg glimrandi vel. Í umferðinni í gær hugsaði ég einmitt að varðandi samgöngur og borgarskipulag erum við einhverjum árum á eftir bræðrum okkar og systrum á Norðurlöndum. Fyrir vikið finnst mér ég líka verja árum í bílnum. Við virðumst líka vinna lengri vinnudag án þess þó að framleiðni sé meiri. Bak við þá staðreynd er einhver sannleikur sem við erum ekki búin að meðtaka. Ég er ekki viss um að eina svarið sé styttri vinnuvika talin í fjölda klukkustunda þegar stefnan er að festa fólk á vinnustaðnum. Kannski er svarið frekar að gefa fólki einfaldlega meiri vinnufrið með svigrúmi til að vinna að heiman. Auðvitað krefjast mörg störf fastrar viðveru öllum stundum en alls ekki öll. Sennilega fer þeim fækkandi störfunum þar sem viðveran er nauðsynleg alla daga frá 9-5.

Finnar eiga svarið

Í Finnlandi er takturinn annar og það er opinber stefna að hvetja þá sem geta unnið heima til að gera það. Eftir einhver ár þegar starfshópur verður settur á laggirnar til að rýna hvers vegna framleiðni er ekki meiri á Íslandi, hvers vegna starfsfólk kvartar undan álagi og hvernig megi gefa fjölskyldufólki séns á að mæta kröfum vinnu og veruleika barnanna, þá kemur kannski fram skýrsla sem boðar finnsku leiðina. Upp úr 1990 fór stefnan um sveigjanlegan vinnutíma að ryðja sér til rúms í Finnlandi og er núna hluti af þeirra vinnukúltúr. Í ár boða Finnar lög sem eiga að taka þessa hugmyndafræði enn lengra, með því að veita fólki meira svigrúm um hvenær og hvar það vinnur vinnuna (í þeim störfum þar sem það gengur upp). Finnska ríkisstjórnin er líka að sýna stórleik með því að leggja til 7 mánaða rétt hvors foreldris um sig til fæðingarorlofs. Finnarnir eru meira en bara sauna, Finnar virðast skilja lífsins takt.

Á höfuðborgarsvæðinu myndi finnska leiðin þýða að við þyrftum ekki öll að fljóta um í bílahafinu á sama tíma á morgnana. Þessi pólitíska stefna myndi hafa jákvæð áhrif á umferð og draga úr mengun því færri bílar væru á ferðinni. Þessi stefna myndi sömuleiðis gera að verkum að það þyrfti ekki að rífast um hvort börn fari hálftíma fyrr eða seinna í leikskólann því foreldrar hefðu eitthvert dagskrárvald sjálfir. Foreldrar lítilla barna gætu veitt þeim rólega byrjun á deginum. Þessi stefna myndi þannig draga úr stöðugu samviskubiti foreldra. Jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs yrði betur náð. Þessi stefna hefur sýnt sig leiða til færri veikindadaga, því fólk treystir sér oft til að vinna heima þó það hafi ekki heilsu til að vera innan um aðra. Finnska leiðin gæti líka stuðlað að því að jafna leikinn milli borgar og landsbyggðar því staðsetning vinnustaðarins væri ekki lengur mikilvægari en hæfileikar starfsfólks, sem í mörgum störfum getur verið staðsett hvar sem er. Finnar hafa áralanga reynslu af þessum sveigjanleika og rannsóknir sýna að þessi slaki eykur framleiðni, ánægju og sköpunargáfu. Niðurstaðan er því ekki bara að starfsfólk sé ánægðara. Vinnustaðir fá meira frá starfsfólki með því að veita því svigrúm. Seðlabankastjóri hefur talað fyrir því að sveigjanleiki í hagkerfinu og á vinnumarkaði séu mikilvægir þættir til að örva hagvöxt og að fyrsta skrefið sé að horfa til framleiðni í kjaraviðræðum. Getur verið að við séum ekki að horfa í rétta átt þegar við ræðum aðallega um lengd vinnuvikunnar og fjölda vinnustunda á vinnustað? Finnarnir hafa svarað þessari spurningu og svarið felst í því að gefa fólki svigrúm til að vinna vinnuna sína.

Greinin birtst fyrst í Fréttablaðinu 7. febrúar 2020