Frjósemisgyðjan leggst undir feld

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Í Noregi hefur forsætisráðherrann sett fram tilmæli til landsmanna um að sinna kynlífinu betur. Í nýársávarpi sagði Erna Solberg að hún þyrfti sennilega ekki að útskýra hvernig þetta sé gert né ætlaði hún beinlínis að gefa skipanir. Henni var hins vegar alvara því Norðmönnum fjölgar ekki nægilega. Meðalbarnafjöldi þar er nú 1,6 barn en til að fólksfjöldi haldi sér þarf meðalbarnafjöldi að vera 2,1 börn. Norðmenn þurfa því að verja meiri tíma í rúminu. Erna forsætisráðherra hefur áhyggjur vegna þess að velferðarsamfélagið stendur ekki undir sér til framtíðar ef Norðmenn eignast ekki fleiri börn. Í nýársávarpinu kom fram að þetta væri í sjálfu sér einfalt reikningsdæmi. Hinir fullorðnu í samfélaginu annast börnin og þeir sem eru á vinnumarkaði skapa tekjur og greiða skatta til að hægt sé að styðja við þá sem hafa skilað sínu verki á vinnumarkaði. Á næstu áratugum munu Norðmenn hins vegar eiga í vandræðum því það verða stærri árgangar ef eldri borgurum en þeim sem verða á vinnumarkaði. Of fáar vinnandi hendur. Fólk eignast líka börn seinna en áður sem gerir að verkum að frjósemisvandamál eru tíðari. Norðmenn hafa því einsett sér að skapa umhverfi svo fólk treysti sér til að eignast börn fyrr.

Íslenska þjóðin státaði lengi vel af því að vera með eina hæstu fæðingartíðni í Evrópu, þegar meðaltalið var 2,2 börn. Þessi tala hefur lækkað hratt og meðaltalið er nú 1,7 börn. Það fæðast því líka of fá börn á Íslandi til þess að halda jafnvæginu til lengri tíma. Einhverra hluta vegna velur ungt fólk að eignast börn seinna en áður og meðalaldur nýrra foreldra er nú rúm 28 ár. Haldi þessi þróun áfram munu þeir sem vinna fyrir velferðinni með tímanum verða færri en hinir eldri. Þetta er að vísu ekki sviðsmynd sem blasir við okkur á Íslandi alveg í nánustu framtíð. Margar Evrópuþjóðir hafa hins vegar lengi staðið frammi fyrir þessum vanda, svo sem Þýskaland, Noregur og Ítalía. Í Þýskalandi hefur þetta verið staðan í áratugi og ef ekki væri fyrir innflytjendur væri staðan þung. Á Ítalíu er fæðingartíðnin 1,3 börn og meðalaldur kvenna þegar þær eignast sitt fyrsta barn 31 ár. (Mögulega tengist það því að ítalskir karlmenn flytja úr foreldrahúsum um fertugt). Skýringin á Ítalíu hefur verið talin sú að það sé fjárhagslega þungt að stofna fjölskyldu og dagvistun barna sé dýr. Ítalskar konur upplifa að barneignir séu þeim dýrkeyptar hvað þátttöku á atvinnumarkaði varðar. Kannski mætti hafa þennan veruleika frjósemisgyðjunnar að leiðarljósi í umræðu um barnafjölskyldur á Íslandi og veruleika foreldra. Hin pólitíska sýn ætti að vera að skapa hvata til barneigna með því að búa vel að ungum fjölskyldum til dæmis með hærri greiðslum í fæðingarorlofi og með því að vera meðvituð um mikilvægi þess að feður eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Aðrar breytur hafa sömuleiðis þýðingu, svo sem húsnæðismál, leikskóli, veruleiki foreldra á vinnumarkaði en líka kvefpestir og veikindadagar (og kannski endalaus fótboltamót þar sem fyrsti leikur virðist alltaf þurfa að vera ekki seinna en kl. 08 á laugardegi).

Ástarvika í þágu þjóðar

Fleiri lítil börn munu til lengri tíma beinlínis bæta lífskjör okkar. Á sama tíma og færri börn fæðast á Íslandi flytja fleiri íslenskir ríkisborgarar frá Íslandi en þeir sem flytjast til landsins. Stærsti hluti þeirra útlendinga sem koma hingað til lands er aftur á móti ungt fólk, sem er einmitt fólkið sem við þurfum á að halda. En þrátt fyrir að vera mjög fámenn eyþjóð, virðumst við ekki áfram um að þiggja erlent barnalán fólksins sem hingað kemur með fjölskyldu, viljugt til að vinna og taka þátt í samfélaginu og fúst til að leyfa börnum sínum að alast upp sem Íslendingar. Við erum ekki smáþjóð heldur örþjóð sem ætti að fagna öllum sem hingað vilja koma til að vinna og halda velferðarsamfélaginu gangandi. Aldurspíramídi sem er á hvolfi getur nefnilega ekki staðið undir velferðinni.

Stundum er sagt að það þurfi heilt þorp til að koma barni til manns og þegar markmiðið er að fleiri börn komi í heiminn er ekki samfélagslega ábyrgt að foreldrar axli einir þá ábyrgð að láta fullt starf og umönnun barna ganga upp. Kappsmál stjórnvalda á að vera að stuðla að frekari barneignum. Við gætum farið rammíslenska leið Bolvíkinga og sett ástarviku á dagskrá, tekið rafmagnið af við og við eða farið leið Ernu Solberg sem bað landsmenn einfaldlega um að búa til fleiri börn. Við viljum hvetja frjósemisgyðjuna til dáða og að hún hætti að liggja bara undir feldi að hugsa málið. Ömmum okkar og öfum tókst að fjölga sér um 200.000 á 100 árum og þá hljótum við að geta gert betur. Fyrir land og þjóð. Og fyrir ríkiskassann.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. febrúar 2020