Hálf milljón fyrir einn þorsk

Ísland hefur á rúmri öld breyst úr einu fátækasta landi Evrópu í eitt af þeim ríkustu. Þessi velferð okkar hefur oft byggst á heppni frekar en fyrirhyggju. Síðustu áratugir hafa verið röð af „tilfallandi búhnykkjum“ eins og það var orðað í Silfrinu nýlega. Fyrst kom síldin, svo kom stríðið, síðan Kaninn og Marshallaðstoðin. Svo kom síldin aftur, síðan kom hækkun álverðs og fiskverðs, netbóla og bankabóla, makríll og loðna. Síðan komu ferðamenn sem er nýjasti búhnykkurinn.

Við verðum að byggja hagsæld okkar í auknum mæli á hugviti og nýsköpun í stað náttúruauðlinda og heppni.

Nýlega var viðtal í Fréttablaðinu við Guðmund Sigurjónsson, forstjóra Kerecis, sem framleiðir sáraumbúðir úr þorskroði. Kerecis tekst að búa til verðmæti sem nema um hálfri milljón króna úr hverjum þorski. Það er um hundrað sinnum meiri tekjur af hverjum þorski en hann gefur af sér við hefðbundna framleiðslu. Hugvitið mun skipta sköpum fyrir hagvöxt á næstu árum. Það þarf fleiri svona fyrirtæki til að efla lífskjörin hér.

Samtök iðnaðarins hafa tileinkað árið 2020 nýsköpun. Á sama tíma kemur fram að meirihluti svarenda í könnun Gallups meðal um 750 frumkvöðla telur að Ísland sé ekki góður staður fyrir fyrirtæki í örum vexti eða alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki. Í könnuninni kom fram að 73,5 prósent svarenda töldu séríslenskan gjaldmiðil hafa neikvæð áhrif á rekstur síns fyrirtækis.

Ef þetta er skoðun frumkvöðlanna þurfa stjórnvöld að gjörbreyta rekstrarumhverfi nýsköpunar. Annars gætum við þurft að reiða okkur áfram á tilfallandi búhnykki.

Greinin birtist fyrstí Fréttablaðinu 13. febrúar 2020