20 feb Styrkir til íþróttaiðkunar barna á efnaminni heimilum
Viðreisn í Mosfellsbæ hefur lagt fram tillögu tvö ár í röð um að stofnaður verði sjóður til styrktar börnum efnaminni foreldra til íþrótta- og tómstundaiðkunar í Mosfellsbæ.
Sjóður þessi hefði til ráðstöfunar um 1,5 milljón króna árlega og væri það fé til viðbótar því sem ætlað er til íþrótta- og tómstundastarfs. Sjóðurinn ætti því að vera fagnaðarefni fyrir íþrótta- og tómstundafélög í bænum. Tillagan var felld bæði árin.
Í drögum að sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2020 til 2024 er sérstaklega tekið fram að auka þurfi þátttöku barna frá efnaminni og fjölskyldum af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi.
Ástæðan er öllum ljós. Íþróttaiðkun barna er jákvæð á allan hátt fyrir þau og á unglingsárum hefur íþróttaiðkun verulega jákvæð áhrif á líkamlegt ástand, sem og andlegan og félagslegan þroska. Hún stuðlar að ábyrgri hegðun, eykur námsárangur, trú á eigin getu og styrkir traust á samfélagið.
Það er því afar mikilvægt að vel sé staðið að íþrótta- og tómstundaiðkun í bænum og að Mosfellsbær styrki áfram þau íþróttafélög sem starfa í bænum.
Það er hins vegar staðreynd að fjárhagsstaða foreldra hefur áhrif á þátttöku íslenskra barna í íþróttum.
Sama í hvaða flokki við stöndum þá hljótum við flest að vera sammála um að gefa börnum jöfn tækifæri. Þannig er það ekki í dag, kostnaður við íþróttaiðkun barna er það hár að börn hafa ekki sömu tækifæri og brottfall úr íþrótta- og tómstundastarfi af þeim sökum er staðreynd.
Við eigum að gera allt sem í okkar valdi er til þess að breyta þessu. Kostnaðurinn er ekki mikill fyrir samfélagið en ávinningurinn getur verið það.