Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra beitti sér fyrir afar merkilegu nýmæli í fyrra í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það fólst í umfangsmiklu almenningssamráði með sérstakri rökræðukönnun.

Niðurstöðurnar voru kynntar í síðasta mánuði. Þar er mikill efniviður til að lyfta umræðu um þetta þýðingarmikla pólitíska viðfangsefni Alþingis á hærra plan.

Brýnt að skerpa pólitíska rökræðu

Vel var staðið að framkvæmd könnunarinnar. Hún dró fram viðhorf til fjölmargra álitaefna, sem tengjast stjórnarskránni. Með sérstökum umræðufundi var síðan kannað hvort rökræður hefðu áhrif á viðhorf þátttakenda. Þær niðurstöður eru sérlega áhugaverðar og sýna mikilvægi þess að skerpa pólitíska rökræðu í landinu.

Vitaskuld sýnist mönnum sitt hvað um það, sem lesa má úr könnun sem þessari, eftir því hvar menn standa sjálfir. En það breytir ekki hinu að hér er málefnalegur efniviður fyrir almenna umræðu í þjóðfélaginu og ekki síður fyrir stjórnmálamenn, sem ætlast má til að þeir ræði og taki rökstudda afstöðu til.

Í því ljósi vekur athygli að fjölmiðlar hafa ekki gefið þessu nýmæli mikinn gaum. Og enn sérkennilegra er að lítil sem engin umræða hefur farið fram á vettvangi stjórnmálanna.

Auðlindaákvæðinu var sleppt

Í könnun eins og þessari er ekki unnt að spyrja allra spurninga. En sérstaka athygli vekur að ekki var spurt út í auðlindaákvæðið, sem er á dagskrá fyrsta áfanga stjórnarskrárendurskoðunarinnar. Trúlega er þetta þó eldfimasta álitaefnið.

Svo stendur á í þessu tilviki að ríkisstjórnin og Miðflokkurinn leggjast alfarið gegn þeim hluta tillögu auðlindanefndar um þjóðareign að bundið verði í stjórnarskrá að endurgjald skuli koma fyrir tímabundin ofnot. Aðrir flokkar vilja virða þá samstöðu um tímabindingu, sem tókst í auðlindanefndinni og áþekka niðurstöðu stjórnlagaráðs.

Í kosningum á næsta ári gæti þessi ágreiningur orðið eitt helsta bitbeinið. Af öllum viðfangsefnum stjórnarskrárendurskoðunarinnar hefði verið forvitnilegast að hafa þetta með í almenningssamráðinu. Ærin ástæða er því til að efna til sérstakrar rökræðukönnunar um þetta efni áður en Alþingi tekur loka ákvörðun.

Jafnt vægi atkvæða

Eitt af viðfangsefnum könnunarinnar var kjördæmaskipan, atkvæðavægi og persónukjör. Í almennu könnuninni kom fram að ríflegur meirihluti eða um sextíu af hundraði var sammála því að jafnt vægi atkvæða væri mikilvægasta markmið breytinga á kjördæmaskipan. Þegar rökræðan hafði farið fram hafði þessi meirihluti vaxið í rúma tvo þriðju hluta.

Þetta eru mjög afgerandi niðurstöður. Eins og málum er háttað fá stjórnmálaflokkar þingmenn í nokkuð góðu samræmi við heildaratkvæðafjölda. Reglurnar tryggja jafnræði þeirra. En þær mismuna einstaklingunum, sem ljá þeim atkvæði, með óviðunandi hætti.

Þessar niðurstöður gefa því fullt tilefni til að taka þetta jafnréttis- og mannréttindamál á dagskrá.

Framsal valdheimilda

Annað dæmi um áhugavert álitamál var könnun á viðhorfi til alþjóðlegs samstarfs og framsals valdheimilda. Spurt var hvort gera þyrfti breytingar á stjórnarskrá til að stjórnvöld gætu gengist undir skuldbindingar, sem alþjóðasamstarf kynni að krefjast. Fyrir rökræðurnar voru fjörutíu og fimm af hundraði sammála en eftir þær voru tveir þriðju hlutar á þeirri skoðun.

Hér er athyglisvert hversu rökræðan breytti miklu. En um leið eru þetta mjög skýr skilaboð um það almenna viðhorf að stjórnarskráin eigi ekki að útiloka samstarf af þessu tagi fyrir fram, heldur mæla fyrir um leikreglur óháð átökum um það hvort eða hvenær slík skref verða stigin.

Skúffa gleymskunnar

Í heild skilaði þetta almenningssamráð lærdómsríkum niðurstöðum. Forganga Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um þessa rökræðukönnun er lofsverð. En skúffa gleymskunnar er ekki rétti staðurinn fyrir þetta nýmæli. Þar kemur það að litlu haldi fyrir aðra en fræðimenn og grúskara og verður ekki vitnisburður um árangursríkt framtak til að efla almenna rökræðu í landinu.

En kannski er þögnin, sem ríkt hefur til þessa, bara eins og logn á undan hressilegum umræðustormi. Vonandi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. febrúar 2020