Viðskila við dómgreindina

Benedikt Jóhannesson

Bændablaðið er áhugavert aflestrar. Í síðasta tölublaði er sagt frá enn einu matvælasvindlinu í Evrópu, afrískri svínapest og þjófnaði á ösnum í Keníu. Í aðsendri grein kemur fram að „íslenskt smjör er í úrvalsdeild á heimsvísu hvað varðar bragð, lit og áferð“.Svo er líka grein um Erich von Däniken, höfund bókarinnar Voru guðirnir geimfarar? sem er „snillingur í að koma lesendum sínum á óvart með því að segja hálfan sannleikann, gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og beita fyrir sig heimildum sem fæstir hafa aðgang að“.

Líklega hafa þó fæstir lesið merkilegustu greinina sem segir frá því að afkoma af landbúnaðinum var tveir og hálfur milljarður króna árið 2018. Það er þremur milljörðum minna en árið áður og um fjórum milljörðum minna en árið þar á undan. Kannski virðist það ásættanleg afkoma, um 4% af heildartekjum. Þegar betur er að gáð sést þó að ríkisstyrkir til greinarinnar voru samkvæmt yfirlitinu rúmlega tólf milljarðar króna. Laun til bænda voru aðeins sjö milljarðar króna.

Með öðrum orðum: Styrkir til landbúnaðar voru talsvert hærri en laun og afkoma af greininni. Er þá ótalinn styrkurinn sem felst í tollvernd og innflutningshöftum, sem er annað eins. Íslenskir neytendur greiða mun hærra verð fyrir landbúnaðarafurðir en almenningur í nágrannalöndunum meðan bændur eru sannarlega ekki ofhaldnir af sínum launum.

Kerfi þar sem bændur væru best settir með því að taka við ríkisstyrknum og framleiða ekkert er auðvitað galið.

Einn lesandi Bændablaðsins , Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, er ókátur með ástandið: „Nú virðast margir þeir, sem ferðinni ráða, hafa orðið viðskila við dómgreind sína, og láta margt eftir hagsmunaöflum, sem virða ekki sérstöðu landbúnaðarins. Nefna má hrátt erlent kjöt og stórar tollaniðurfellingar á því og mörgu fleiru, eggjum, ostum.“ (Hann gleymir að nefna „þetta viðurkennda írska smjör“, sem Guðni Ágústsson, framkvæmdastjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, talaði um fyrir nokkrum árum, smjörið sem MS blekkti íslenska neytendur til þess að borða). Áfram með smjörið:

„Peningarnir drjúpa ekki í jafnríkum mæli af bændum og útgerðum. Sjórinn gefur um 130 milljarða króna í aflaverðmæti, en verðmæti landbúnaðarframleiðslunnar er um 60 milljarðar. Hins vegar er oftast talað um landbúnaðinn eins og hann skipti litlu máli í hagfræðinni. En í mati á verðmætum eru víddirnar margar. Sveitin er ímynd Íslands og byggðin og mannlífið þar er ný og gömul auðlind…

Ég vel mér frekar að setja þessar staðreyndir á blað um niðurlægingu landbúnaðarins og eyðileggingu á umgjörð hans og hljóta fyrir ónot og skrokkskjóður heldur en að horfa á eyðilegginguna þegjandi lengur.“

Guðni lætur þess ekki getið hvort hann skrifar frá Spáni.

Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. febrúar 2020