Brothættar byggðir

Við getum verið stolt af öflugum atvinnugreinum okkar sem byggja á fiski, ferðafólki og fallvötnum. En eru blikur á lofti? Skoðum það nánar.

Nokkur byggðarlög hafa tekið þátt í verkefninu „Brothættar byggðir“. Markmiðið er að stöðva fólksfækkun í smærri byggðum. Grímsey og Hrísey hafa tekið þátt í verkefninu með góðum árangri.

Ísland er að mörgu leyti brothætt byggð. Góðæri hafa oftast endað með kröftugri niðursveiflu. Brothættir bankar hrundu 2008 með miklum látum. Við búum við brothættan gjaldmiðli sem hefur rýrnað um 7% á síðustu dögum. Og nú er kórónaveiran að sýna hvað ferðaiðnaðurinn getur verið brothættur.

En það er fleira sem gæti verið brothætt hjá okkur á næstu árum. Súrnun sjávar getur haft veruleg áhrif á tekjur okkar af sjávarútvegi. Alþjóðlegir kolefnisskattar gætu leitt til hækkunar flugfargjalda til og frá Íslandi. Líklegt er að kolefnisspor fisks frá Íslandi þætti of stórt hjá umhverfissinnuðum neytendum í Evrópu í samanburði við sjávarfang úr strandhéruðum. Ódýrt plöntukjöt gæti komið í stað hefðbundins fisks og kjöts. Verið er að þróa nýjar aðferðir við orkuvinnslu sem gætu orðið hagkvæmari en hreina orkan okkar. Jöklarnir sem búa til fallvötnin munu hverfa. Heita vatnið er takmörkuð auðlind. Við Íslendingar verðum að horfast í augu við þetta og snúa þessum ógnunum í tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir í landinu.

Ísland gæti verið brothætt byggð ef við hugum ekki að framtíðinni sem þarf að byggjast á öflugri umhverfisvernd, nýsköpun og óþrjótandi hugviti. Grímsey og Hrísey eru þannig ekki einu brothættu byggðirnar. Er jörðin okkar ef til vill brothættasta byggðin? Kórónaveiran og hamfarahlýnunin virðast sýna það.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. mars 2020