Forysta óskast

Nú á mánudaginn hefjast tímabundin verkföll hjá félögum í STH og ef ekki tekst að semja hefjast ótímabundin verkföll í apríl. Þessar aðgerðir munu lama bæjarfélagið okkar að miklu leyti, enda sinna félagsmenn STH mikilvægum störfum hér í Hafnarfirði. Eins og önnur félög innan BSRB hefur ekki tekist að semja nú tæpu ári eftir að samningar urðu lausir. Það skal þó tekið fram að verið er að semja um mörg atriði eins og hækkun launa, styttingu vinnuviku tilhögun vaktavinnu o.fl.

Ein af kröfum STH er 1,5% framlag í svokallaðan félagsmannasjóð en úr honum væri greitt einu sinni á ári. Rökin fyrir þessum kröfum eru þau að komið verði í veg fyrir mismunun á milli starfsfólks sveitarfélaga. Það er ekki eins og hér sé um ósanngjarna eða óraunhæfar kröfur að ræða og því er það mér óskiljanlegt af hverju samningsaðilar undir verkstjórn Sáttasemjara séu ekki búnir að ná lendingu í þessu máli.

Að leyfa þessari deilu að enda í verkfalli er óþarfi og auglýsi ég hér með eftir viðbrögðum oddvita meirihlutans. Það krefst hugrekkis og áræðni að stíga fram og taka í taumana til að afstýra því stórslysi sem í uppsiglingu er. Því miður hefur meirihlutinn hvorki sýnt hugrekki né áræðni í störfum sínum á kjörtímabilinu og því komu svör bæjarstjóra ekki á óvart á fundi bæjarstjórnar sl. miðvikudag þegar hún var spurð um viðbrögð við þeirri stöðu sem komin væri upp í viðræðunum. Svör hennar voru þau að verið væri að undirbúa viðbrögð við væntanlegu verkfalli í stað þess að reyna að koma í veg fyrir það.  Forystuleysið er algjört og áræðnin er engin.

Hafnfirðingar hljóta að eiga betra skilið en þetta.

Jón Ingi Hákonarson
oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 6. mars 2020