Nú er ógott að eiga sitt undir lýðskrumurum

Þorsteinn Pálsson

Á umliðnum árum hefur átt sér stað pólitísk uppreisn gegn ábyrgð, þekkingu og hyggjuviti víða um heim. Þetta hefur gerst bæði í Ameríku og Evrópu þar sem popúlisminn hefur náð fótfestu. Þessu hefur fylgt þjóðremba og einangrunarhyggja. Jafnframt hefur slaknað á siðferðilegum mælikvörðum.

Fyrir vikið eru Bandaríkin nú úr leik sem forysturíki fyrir þeirri alþjóðlegu samvinnu, sem nú er svo rík þörf á þegar neyðarástand ríkir í heiminum öllum. Og Evrópusambandið er af sömu ástæðu ekki eins samhent og kröftugt og vera þyrfti.

Ábyrgð og þekking skiptir sköpum

Í þeim heilsufarslegu og efnahagslegu hamförum sem þjóðir heims standa andspænis, skiptir ekki öllu máli hvort ríkisstjórnir standa til hægri eða vinstri eða einhvers staðar þar á milli. Hitt skiptir sköpum, hvort ábyrgð, vitsmunir, þekking og yfirvegun ræður för.

Þjóðir eru verr staddar eftir því sem þær eiga meira undir lögmálum lýðskrumara.

Það er sárt að horfa til Bandaríkjanna í þessu ljósi. Þau eru mesta efnahagsveldi í heimi og þar er saman komin meiri og fjölþættari þekking en annars staðar. En Bandaríkjamenn kusu eigi að síður sjálfhverfan, dómgreindarlítinn og óábyrgan popúlista sem forseta.

Samstaða kemur ekki af sjálfu sér

Fyrstu viðbrögð forseta Bandaríkjanna við kórónaveirunni voru afneitun. Hún dugði ekki. Þá var málflutningurinn fluttur á stig númer tvö. Þar var skuldinni skellt á útlendinga, demókrata og fjölmiðla. Fyrst þegar í ljós kom að þrep tvö hafði engin áhrif, var málflutningurinn færður á plan þrjú og þekkingunni hleypt að borðinu.

Þetta hefur leitt til þess að í Bandaríkjunum er ekki sama traust gagnvart því sem gert er eins og víðast hvar annars staðar. Og þar sem ekki er traust reynist erfitt að byggja upp samstöðu. Hún er þó lykilatriði. Án hennar virka fáar af þeim sóttvarnaráðstöfunum sem þjóðir grípa nú til.

Bandaríkin og Ísland

Áhugavert er að bera gang mála í Bandaríkjunum saman við okkar litla samfélag. Áður en þessir miklu atburðir helltust yfir, sýndu skoðanakannanir að ríkisstjórn Íslands naut álíka fylgis og forseti Bandaríkjanna. Í hvorugu landinu nutu stjórnvöld trausts meirihluta kjósenda.

Ekkert nýtt hefur komið fram um þetta almenna álit. En það er reginmunur á trausti þegar kemur að þeirri tímabundnu neyðarstjórnun, sem alheims veirufaraldurinn kallar á.

Í þessu efni hefur forseti Bandaríkjanna enn minna traust en fyrr. Ríkisstjórn Íslands sýnist hins vegar hafa óskorað traust til þess að sigla þjóðinni í gegnum þennan brimgarð.

Skýringin liggur nær eingöngu í ólíku vitsmunastigi æðstu stjórnar ríkjanna og mismunandi viðhorfi til þekkingar og ólíkri ábyrgðarkennd. Þar munar miklu um framgöngu forsætisráðherra. Við þessar aðstæður hefur líka komið skýrt og sterkt fram að eiginleikar helstu forystumanna í stjórn og stjórnarandstöðu falla saman að þessu leyti, þótt ábyrgðinni sé misskipt.

Mikilvægt að lýðræðið virki

Í flestum ríkjum má greina neyðarstjórnunina í þrjá þætti. Í fyrsta lagi eru það aðgerðir, sem lúta að sóttvörnum. Í öðru lagi eru það skyndiráðstafanir til þess að halda súrefni í atvinnulífinu. Í þriðja lagi kemur að því að leggja línur um það efnahagslega umhverfi, sem væntanlega tekur við af neyðarástandinu fyrr en síðar.

Í öllum þáttunum skiptir tíminn máli. Menn mega hvorki vera of bráðir né of seinir. Hefðbundin hugmyndafræði um frjálslyndi eða forsjárstefnu, alþjóðahyggju eða einangrunarstefnu, víkur að mestu varðandi tvo fyrstu þættina.

En rökræða á þessum forsendum er aftur á móti nauðsynleg þegar kemur að þriðja þættinum. Vísindin hafa ekki útrýmt álitamálum þó að þau hjálpi okkur að finna pólitískar lausnir.

Þrátt fyrir sóttvarnir þarf með tæknilegum ráðstöfunum að koma því svo fyrir að dagleg lýðræðisleg umræða á Alþingi skerðist ekki þrátt fyrir öll ósköpin. Mikilvægt er að fólkið í landinu sjái og finni að lýðræðið virki við þessar aðstæður. Það er þáttur í því að viðhalda trausti.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. mars 2020