Nýtt hagkerfi?

Þorsteinn Pálsson

Stjórnvöld í Evrópu og víða um heim hafa síðustu daga gert grein fyrir mestu efnahagsráðstöfunum, sem sögur herma. Víðast hvar er um sams konar aðgerðir að ræða.

Yfirleitt hafa Seðlabankar tekið forystu og ríkisstjórnir komið í kjölfarið. Hér hjá okkur hefur framgangur þessara mála verið með svipuðum hætti.

Sérfræðingavald í efnahagsmálum

Sérfræðingar stýra sóttvörnunum. Það hefur ótvírætt skapað traust. Í raun er þetta eins varðandi efnahagsmálin. Hvarvetna virðast ráð sérfræðinga ráða mestu um stóru línurnar þó að lýðræðislega kjörin stjórnvöld beri ábyrgðina.

Stjórn efnahagsmála er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar eru ríkisfjármálin og hins vegar peningamálin. Svo háttar til að Alþingi hefur framselt pólitískt vald á sviði peningamála til sjálfstæðs Seðlabanka. Ákvarðanir á því sviði eru því teknar af sérfræðingum, án lýðræðislegs umboðs, innan þeirra marka, sem lög ákveða.

Seðlabankinn ræður stærstu fallbyssunni

Við þær einstöku aðstæður, sem nú ríkja, ræður Seðlabankinn ekki aðeins umfangi eigin aðgerða heldur einnig því hversu langt Alþingi getur gengið í að heimila hallarekstur og lántökur ríkissjóðs. Það skýrist af því að Alþingi hefur framselt Seðlabankanum vald til að prenta peninga. Hann ræður sem sagt lang stærstu fallbyssunni í vopnabúrinu.

Seðlabankastjóri sagði á dögunum að það væri til nóg af krónum í bankanum til að gera það sem þyrfti. Segja má að þessi orð hafi falið í sér lykilinn að öllu öðru, sem nú er gert. Bankastjóri Seðlabanka Evrópu hafði áður gefið svipaða yfirlýsingu og sama hafa stjórnendur seðlabanka í minni myntkerfum gert.

Sérfræðingavaldið í Evrópu virðist vera á einu máli í þessu efni. Það skapar traust.

Íhaldsmenn og sósíalistar skipta um hlutverk

Eftir hrun sat þáverandi formaður VG í fjármálaráðuneytinu. Þar varð það hlutskipti hans að framkvæma, að ráði sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hörðustu íhaldsúrræði í ríkisfjármálum á lýðveldistímanum.

Áratug síðar situr formaður Sjálfstæðisflokksins á ráðherrastólnum í Arnarhváli. Örlög hans eru að kynna til sögunnar umfangsmestu og róttækustu sósíalísku ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem við þekkjum, rétt eins og starfsbræður hans til hægri og vinstri um alla Evrópu .

Í báðum tilvikum eru fjármálaráðherrar ólíkra flokka að víkja frá pólitískum grundvallar hugmyndum sínum eftir tillögum sérfræðinga. Ekki er ólíklegt að sú þverstæða hjálpi til við að skapa traust. Það skerpir þá ímynd að ráðstafanirnar séu ekki bara óvenjulegar heldur líka tímabundnar.

Hvað breytist þegar fárinu lýkur?

Við búum nú um stund í allt annars konar hagkerfi en áður. Flest allt er nú á ábyrgð ríkisins.

Fundur forystumanna ríkisstjórnarflokkanna í Hörpu síðastliðinn laugardag var svipaður sams konar fundum ríkisstjórnaroddvita um alla álfuna. Helsta frávikið var sú yfirlýsing, sem kom í hlut samgönguráðherra að greina frá, að Ísland myndi ekki leita inn í eins hagkerfi að þessu loknu og þetta myndi breyta miklu um það hvernig menn hugsuðu samskipti við umheiminn.

Enginn vafi leikur á því að margt mun breytast. Ekki er til að mynda ósennilegt að mismunandi pólitísk sjónarmið komi upp um það hversu lengi megi halda peningaprentvélinni gangandi. Þá er ekki útilokað að meir reyni en áður á ólíkar hugmyndir um hlutverk ríkisvaldsins í atvinnumálum.

Loks kæmi ekki á óvart þótt sumir muni sjá í þessum atburðum jarðveg fyrir meiri einangrunarhyggju, en aðrir lesa úr þeim þörf fyrir þéttara alþjóðlegt samstarf.

Eftirtektarverð skilaboð

Í Bandaríkjunum hefur Trump til að mynda þegar hert á yfirlýsingum um einangrunarstefnu sína.

Ríkisstjórnin greindi ekki frá því hverjar hugmyndir hennar eru að þessu leyti. En hitt er eftirtektarvert að hún skuli hafa séð ástæðu til að senda svo skýr skilaboð um að hún sé, þrátt fyrir annríkið, þegar farin að huga að annars konar framtíðar hagkerfi.

Fyrir vikið gæti sú umræða hafist fyrr hér en víða. Hyggilegt getur þó verið að leyfa mestu holskeflunni að ganga yfir fyrst.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. mars 2020