Viðbrögð við aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar

Þorsteinn Víglundsson

Það verður að segjast eins og er að aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum veldur miklum vonbrigðum. Þegar ríkisstjórn boðar til blaðamannafundar með lúðraþyt um aðgerðir sem þessar má vænta þess að hér sé á ferðinni vel útfærð og afgerandi aðgerðaráætlun. En hún reyndist æði rýr og óljós. Horfur eru á alvarlegu höggi fyrir innlent efnahagslíf ef ekkert verður að gert. Horfur í ferðaþjónustu eru sérstaklega dökkar og er nú talað um verulegan samdrátt þar á þessu ári vegna veirunnar.

Það sem skiptir mestu máli nú eru skjót og fumlaus viðbrögð. Mikilvægast af öllu við þessar kringumstæður er hvetja almenning til að halda ró sinni. Við þurfum öll að gæta varúðar, huga að hreinlæti og fylgja í einu og öllu leiðbeiningum sérfræðinga til að lágmarka útbreiðslu veirunnar. En við þurfum líka að halda áfram að ganga til starfa okkar og tómstunda eins og áður. Engin ástæða er til örvæntingar og engin ástæða til að gera efnahagsleg áhrif veirunnar meiri en þegar eru horfur á.

Í öðru lagi verður að huga með afgerandi aðgerðum til að treysta efnahagslífið. Atvinnulífið mun þurfa súrefni næstu vikur og mánuði og þar gætu eftirfarandi atriði skipt miklu:

  1. Að fella niður tímabundið tryggingagjöld af launum. Það gæti dregið úr uppsögnum og hjálpað fyrirtækjum að komast yfir erfiðasta hjallann.
  2. Að gera fyrirtækjum í þeim greinum sem harðast eru að verða úti kleift að færa starfsfólk tímabundið á atvinnuleysisskrá án langs uppsagnarfrests. Slíkar heimildir eru til staðar fyrir fiskvinnslu og mætti útfæra fyrir ferðaþjónustu svo dæmi séu tekin.
  3. Að slaka á þeim eiginfjárkröfum sem lagðar hafa verið á bankakerfið og stuðla þannig að auknu lausafé í fjármálakerfinu. Frekari vaxtalækkanir væru augljóslega vel þegnar við þessar kringumstæður. Seðlabankinn hlýtur að bregðast þar við.
  4. Að ráðast þegar í stað í fjárfestingarátak af hálfu hins opinbera. Bæta mætti 40-50 milljörðum við fjárfestingaráform þessa árs. Það þarf að gerast hratt svo unnt verði að nýta vor og sumar til framkvæmda.

Til að gæta sanngirni verður þó að hrósa stjórninni fyrir að ætla að veita fyrirtækjum frekari gjaldfrest á opinberum gjöldum. En önnur áform eru loðin og lítið bæst við fyrri yfirlýsingar stjórnvalda t.d. hvað varðar opinberar fjárfestingar.

Ríkisstjórnin valdi hins vegar eins og svo oft áður ásýnd umfram innihald. Blásið var til blaðamannafundar um efnahagsaðgerðir sem reyndust því miður innistæðulitlar og óútfærðar. Ríkisstjórnin hefur flotið sofandi að feigðarósi í efnahagsmálum allt þetta kjörtímabil og virðist því miður ekki enn vera vöknuð.