Ævintýrið um Rauðhettu og kúfinn

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Félagsleg einangrun og félagslegt sveltið sem fylgir baráttunni við COVID-veiruna er farið að reyna á. Undir það geta meira að segja innhverfustu intróvertar tekið. Auðvitað eru einhverjar aukaverkanir ástandsins góðar og jafnvel fallegar. Tíminn með börnunum okkar er bæði meiri og betri. Tíminn er einhvern veginn loksins nægur. Hann má líða. Við leikum, við púslum, við bökum og við lesum ævintýri.

Þegar ég var lítil stelpa þá elskaði ég ævintýri og inniveran núna hefur gefið meiri bókalestur. Ævintýrin boðuðu ákveðin gildi og þau kenndu okkur lexíur. Sem fullorðin kona veit ég þökk sé ævintýrunum að það er af ástæðu sem ég hræðist nornir og stjúpmæður, úlfa og eldspúandi dreka og rauð epli. Ég veit líka að skógurinn er alltaf hættulegur og það er jafnmikil vitleysa að samþykkja göngutúr í dimmum og þykkum skóginum og að þiggja bíltúr með mafíubófum. Það endar aldrei vel.

Skógurinn er alltaf hættulegur

Ævintýrið um Rauðhettu er skemmtilegt ævintýri því söguna er hægt að lesa og skilja á margan hátt. Þar var ógn og þar voru makleg málagjöld. Sagan endaði jú vel. Sagan um Rauðhettu segir okkur frá veruleika stúlkunnar sem er á leið heim til lasinnar ömmu sinnar með matarkörfu en hitti (eðlilega) úlf í skóginum sem tók hana tali. Sem lítil stelpa man ég að mér fannst úlfurinn lélegur pappír. Eftir því sem ég varð eldri fannst mér Rauðhetta spyrja of margra keimlíkra spurninga, mér fannst hún hikandi og fannst að hún hefði getað rammað inn betur það sem hún vildi raunverulega segja. Var hún kannski meðvirk? Boðskapur sögunnar getur verið um mikilvægi þess að fara að fyrirmælum og að ganga beinustu leið í gegnum skóginn. Þýski skólinn.

Boðskapurinn getur líka verið að forðast úlfa bara svona almennt séð í lífinu. Það er í sjálfu sér skynsamleg afstaða. Og úr sögunni er auðvitað hæglega hægt að lesa spennu milli Rauðhettu og úlfsins, úlfurinn býður Rauðhettu upp í rúm. Það er rauð hetta og það er úlfur. Franski skólinn. Það er nefnilega margt í mörgu og sagan lesin með augum hvers fyrir sig. Ævintýrið vill líka segja okkur að þeim stúlkum farnast best sem hlýða og fara ekki út af stígnum í skóginum. Rauðhetta dagsins í dag er sennilega þýski skólinn, sem boðar hlýðni. En það verður að segjast að það er dauðanum leiðinlegra að hlýða alla daga. Það þekkjum við sem lifum langa daga samkomubanns og lífið er allt í hægagangi. Og það segi ég með allri minni virðingu fyrir Víði.

Þannig sigrum við úlfinn

Mitt svar og mitt varnarviðbragð gagnvart minni fjölskyldu í þessu ástandi er einhvern veginn að bera matarkörfu heim öllum stundum, þrátt fyrir að engin veik og rúmliggjandi amma sé á heimilinu. Engu að síður labba ég í búðina nánast daglega til að bæta í matarkörfu heimilisins. Það eru kannski ekki að öllu leyti lógísk viðbrögð en þannig líður mér eins og ég leggi mitt af mörkum í baráttunni. Hér á heimilinu eru til frosin croissant fyrir nokkuð stórt hlutfall íslensku þjóðarinnar. Þau eru hér ef á þarf að halda.

Rauðhetta í mínum veruleika er reyndar farin að líkjast ömmunni í ævintýrinu mjög. Hún liggur mikið og hugsar mikið um matarkörfuna. Og einu sinni fyrir ekki svo löngu, reyndar bara í gær, gekk stálpuð stúlka í rauðri regnkápu um stíga Elliðaárdals, ekki með matarkörfu meðferðis en vegna þess að mig langaði til að borða meira úr matarkörfunni sem beið heima full af hraunbitum, kökum og kexi. Mig langaði til að anda að mér lofti ein á göngu og sjá fínt fólk í fínum útivistargöllum. Ég gekk með þeim á stígnum þrátt fyrir að eiga ekkert snjallúr og engan skrefamæli og fremur ófína strigaskó. Fylgdi stígnum í dalnum þangað til hundur á stærð við úlf birtist, því ævintýrin hafa kennt þá lexíu að úlfana ber að tortryggja.

Allir dagar eru sunnudagar

Félagslegt sveltið og samkomubannið hefur æst upp svakalegt kleinuát og kexát sem göngutúrar eru ekki nálægt því að kalóríujafna. Samkomubannið hefur smátt og smátt breytt mér í ömmu. Útvarpið er sjúklega hátt stillt í eldhúsinu. Það eru heimabakaðar marmarakökur og sandkökur á borðum. Allir dagar eru sunnudagar. Og ég er bústin en dálítið lukkuleg með það. Og það heyri ég á konum í kringum mig að COVIDlendarnar eru víða blómlegar. Næsta samtal þjóðar verður kannski hvernig útlits við verðum þegar við rúllum blýþung út úr híbýlum okkar 4. maí. Þyngdin verður kannski næsti kúfur sem landlæknir þarf að fletja. Ævintýrið um Rauðhettu fjallar auðvitað eins og flest ævintýri um ógn, en líka um gildi og lexíur. Við spyrjum okkur núna mörg af hverju maginn er svona stór, af hverju lærin eru svona stór og af hverju rassinn er svona stór. Svarið er að með myndarlega og bólgna matarkörfuna þá getum við sigrað úlfinn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. apríl 2020