Afgerandi aðgerðir núna, ekki síðar

Efnahagsleg áhrif Covid-19 á Ísland og heimsbyggðina alla eru án fordæma. Áhrifanna mun samkvæmt bjartsýnustu spám gæta vel fram á næsta ár, og svartsýnustu spám mun lengur. Til skamms tíma fáum við lítið við ráðið. Það má segja að ýtt hafi verið á pásu í hagkerfum heimsins í bili. Það eru rétt viðbrögð enda líf og heilsa fólks í algerum forgangi við aðstæður sem þessar. Til lengri tíma litið munu aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum hins vegar skipta sköpum um það hversu hratt einstök lönd jafna sig á efnahagslegum afleiðingum veirunnar.

Of lítil eða of sein viðbrögð auka líkurnar á mun meira efnahagslegu tjóni en ella. Að fleiri störf tapist og að kaupmáttarskerðing heimilanna verði meiri. Slík þróun leiðir af sér dýpri og langvinnari efnahagssamdrátt en annars hefði orðið.

Það er af þeim ástæðum sem nágrannalönd okkar eru að grípa til fordæmalausra aðgerða og efnahagslegrar innspýtingar af hálfu hins opinbera. Mikilvægt er að verja atvinnulífið og þar með störf og lífsviðurværi landsmanna með ráðum og dáð. Stór hluti fyrirtækja, hér á landi sem annars staðar, er nær tekjulaus eða að ganga í gegnum gríðarlegan tekjusamdrátt. Nýleg könnun Samtaka atvinnulífsins sýnir þannig að forsvarsmenn 9 af hverjum 10 fyrirtækjum gera ráð fyrir tekjusamdrætti upp á um 50% að meðaltali á tímabilinu frá apríl og fram í júní.

Hálfdrættingur á við nágrannalöndin

Þetta er efnahagslegt högg án allra fordæma og kallar á efnahagslegar aðgerðir af hálfu stjórnvalda í samræmi við það. Því miður gefa fyrstu viðbrögð stjórnvalda ekki til kynna að sú verði raunin. Ríkisstjórnin kynnti á dögunum aðgerðir upp á 230 milljarða króna. Þótt ríkisstjórnin kysi að kalla þetta umfangsmestu efnahagsaðgerðir sögunnar blasir við að þær eru t.d. mun minni að umfangi en efnahagsaðgerðir stjórnvalda eftir hrun. Íslensk stjórnvöld eru líka aðeins hálfdrættingar á við nágrannalönd okkar þegar kemur að fyrstu aðgerðum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. apríl 2020