Hver á að borga: Þjóðin, útgerðin eða VG?

Benedikt Jóhannesson

Í Njáls sögu er sagt frá Birni úr Mörk:

Björn mælti: „Þetta er hættuför mikil og munu fáir hug til hafa nema þú og ég.“

Kári mælti þá til Bjarnar: „Hvað skulum við til taka ef þeir ríða hér ofan að okkur af fjallinu?“

„Munu eigi tveir til,“ segir Björn, „annaðhvort að ríða undan norður með brekkunum og láta þá ríða um fram eða bíða ef nokkrir dveljast eftir og ráða þá að þeim.“

Margt töluðu þeir um þetta og hafði Björn í sínu orði hvort að hann vildi flýja sem harðast
eða hitt að hann vildi bíða og taka í móti og þótti Kára að þessu allmikið gaman.

– – –

Núverandi ríkisstjórn hefur verið óvenju undanlátssöm við útgerðina. Árið 2013 sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, í ræðu á Alþingi: „Ég hitti úti á Austurvelli áðan góða vinkonu mína frá Flateyri. Hún spurði hvað verið væri að ræða núna inni á Alþingi, það eru kannski ekki allir sem fylgjast mjög vel með störfum Alþingis í sumarblíðunni. Ég sagði henni að við værum að ræða lækkun veiðigjalda. Þá sagði hún og sló sér á lær: Jæja, eiga þeir nú ekki salt í grautinn, blessaðir  útgerðarmennirnir, það er kannski ekkert nýtt. En það er í lagi að þeir greiði af sínum auði þegar við sem erum ekki eins auðug þurfum að standa skil á okkar af okkar lágu tekjum.“

Fimm árum síðar sagði í fyrirsögn hjá Vísi: „Lækkun veiðigjalda þolir enga bið að sögn formanns atvinnuveganefndar“. Í fréttinni kemur fram að þessi formaður atvinnuveganefndar er engin önnur
en hin sama Lilja Rafney, sem nú hafði færst í nýjan stól og sá vel að blessaðir útgerðarmennirnir áttu ekki lengur fyrir salti í grautinn.

Þess vegna vakti það athygli þegar forsætisráðherra sagði í liðinni viku í umræðum á Alþingi: „En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða
vegna makrílúthlutunar.“ Fjármálaráðherra bætti um betur: „Reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt.“

Reikningurinn var reyndar kominn frá greininni, fimm útgerðir höfðu krafið ríkið um 10,2 milljarða króna í bætur, auk hæstu leyfilegra dráttarvaxta. Líklega meinti ráðherrann að greinin yrði sjálf að borga reikninginn. Forsaga málsins er sú að Hæstiréttur dæmdi árið 2018 að úthlutun makrílkvóta á grundvelli reglugerðar sem sjávarútvegsráðherra VG setti árið 2010 væri ólögleg. Því hefði verið eðlilegt að VG bæri ábyrgð á ráðherra sínum og greiddi reikninginn.

Samt vakti einörð afstaða ráðherranna og hugprýði gagnvart útgerðinni aðdáun margra. Sú aðdáun bliknaði auðvitað ekkert, þó að síðar kæmi í ljós að daginn sem ummælin féllu hafði stærsti kröfuhafinn þegar ákveðið að falla frá sinni kröfu og sagt ráðherra frá því.

Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. apríl 2020