Líflínu til sprotanna

Á undanförnum vikum höfum við í Viðreisn lagt mikla ráðstafanir áherslu á mikilvægi þess að verja þau fyrirtæki sem eiga undir högg að sækja við núverandi aðstæður. Við höfum stutt þær góðu tillögur sem komið hafa frá ríkisstjórninni en jafnframt lýst yfir efasemdum um að þær séu nægilega öflugar til að tryggja að atvinnulífið geti veitt þá viðspyrnu sem þarf að þessum faraldri loknum.

Í aðgerðum stjórnvalda þarf að taka sérstakt tillit til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, en þau standa mörg frammi fyrir óafturkræfu tjóni sé þeim ekki rétt líflína. Það skiptir gríðarlegu máli að ráðist verði í aðgerðir sem henta nýsköpunar-, hugverka- og hátækniiðnaðinum og verja hann svo uppbyggingin geti haldið áfram eftir þessar hremmingar. Þetta er lykilatriði því eftir faraldurinn verðum við að geta byggt á fjölbreyttu atvinnulífi. Atvinnulífi sem byggir áfram á okkar hefðbundnu atvinnugreinum; sjávarútvegi, landbúnaði, ferðaþjónustu og stóriðju en ekki síst atvinnulífi sem byggir á hugverkaog hátækniiðnaði og nýsköpun. Umhverfi nýsköpunar á Íslandi er brothætt þótt mörg jákvæð skref hafi verið stigin á síðustu árum. Þar þarf að bregðast hratt og örugglega við til að verja störf og halda sprotunum á lífi.

Fleiri leiðir en hlutabótaleiðin

Hlutabótaleiðin er brýn og þörf aðgerð sem kemur til með að gagnast fjölmörgum fyrirtækjum, en verr þeim fyrirtækjum sem byggja framtíð sína á rannsóknarog þróunarstarfi. Aukning á framlögum til nýsköpunarsjóða og hækkun á endurgreiðsluþaki og hlutfalli vegna rannsóknar- og þróunarstarfs, eins og minnihlutinn á þingi hefur meðal annars lagt til, myndi gagnast slíkum fyrirtækjum mun betur.

Þessum tillögum væri hægt að hrinda strax í framkvæmd en þær myndu gera nýsköpunarfyrirtækjum kleift að halda áfram mikilvægu rannsóknar- og þróunarstarfi og tryggja þannig að þau komi mun sterkari inn í viðspyrnu haustsins. Málið er brýnt og varðar framtíðarþróun Íslands. Hugvitið og lausnir til framtíðar er það sem er hér í húfi. hvort sem um er að ræða lausnir til orkusparnaðar, rekjanleika matvæla, netöryggis og brýnna heilbrigðislausna svo nokkur dæmi séu tekin.

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi hafnað tillögum okkar um aukna innspýtingu til nýsköpunar- og sprotaf y rirtækja þar f enginn að velkjast í vafa um að henni er umhugað um umhverfi nýsköpunar á Íslandi. Það er því ekki úr vegi að hvetja ríkisstjórnina til að halda uppteknum hætti og taka enn og aftur upp mál Viðreisnar og gera að sínum. Lykilatriðið er að tekin verði stærri og skarpari skref, samhliða hlutabótaleiðinni sem raunverulega nýtast nýsköpunar, hugverkaog hátækniiðnaðinum á Íslandi. Við í Viðreisn munum styðja ríkisstjórnina til þess.

Tíminn er naumur og hér þarf að gera meira en minna og jafnvel fara óhefðbundnar leiðir. Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að skapa þá nauðsynlegu viðspyrnu sem íslenskt efnahagslíf og samfélag mun þurfa á að halda.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. apríl 2020