Stríð og friður

Þorsteinn Pálsson

Bar­áttunni gegn kóróna­veirunni er oft líkt við stríð. Sumir þjóðar­leið­togar stappa stáli í fólk með því að láta hverri brýningu um að fara að sótt­varna­reglum fylgja bjart­sýnis­boð­skap um að þjóðin muni saman vinna stríðið.

Þessi samlíking er minna notuð hér en í mörgum öðrum ríkjum. Í sjónvarpsviðtali á dögunum skaut forsætisráðherra sér til að mynda undan því að samsinna þessari stríðssamlíkingu.

Við og hinir

Eðli stríðsátaka felst í því að menn eða þjóðir skipa sér í fylkingar: Við og hinir.

Glíman við veiruna snýst hins vegar um eðli náttúrunnar. Þar eru engin landamæri milli okkar og hinna.

En baráttan við þetta ógnvekjandi náttúruafl á eitt sameiginlegt með stríðsrekstri. Veiran veldur miklu mannfalli. Sú kalda staðreynd ræður trúlega mestu um að samkennd vaknar og samstaða og félagsvitund eflist. Að því leyti má segja að skiljanlegt sé að stjórnmálamenn hagnýti samlíkinguna við stríð.

En það er eigi að síður umhugsunarefni fyrir þá sök að samstaða einnar þjóðar í stríði kveikir jafnan óvild í garð annarrar. Á því er síst þörf nú.

Mismunandi birtingarmynd samstöðu í Evrópu

Traust er forsenda þeirrar samkenndar og félagsvitundar, sem vaknar við aðstæður sem þessar. Víðast hvar fylgja stjórnvöld sömu meginlínum varðandi sóttvarnir og efnahagsráðstafanir. Eigi að síður er munur á því hvernig þau nálgast viðfangsefnin og umgangast traustið og samkenndina.

Þótt þjóðarleiðtogum verði tíðrætt um stríð og samstöðu hefur hvergi verið gripið til þess ráðs að mynda formlega þjóðstjórn eins og gert var í Bretlandi í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar. Þar í landi er samkenndin hins vegar augljóslega nýtt til þess að skerpa ímynd hins sterka leiðtoga.

Þjóðverjar hafa búið við eins konar þjóðstjórn um hríð. Hún hefur reyndar verið í upplausn. En athyglisvert er að einmitt þar hafa stjórnvöld þó gengið hraðar fram og af meiri festu með umfangsmeiri efnahagsráðstafanir en aðrar þjóðir í Evrópu.

Ungverjaland er svo á hinn bóginn dæmi um það hvernig ákallið um samstöðu vegna stríðsátaka er misnotað til að hraða áformum stjórnvalda um að leiða þjóðina af braut lýðræðis.

Ríkisstjórnin hefur annað lag á en borgarstjórnin

Hér heima hafa menn umgengist þá einingu og samstöðu, sem skapast hefur, með nokkuð ólíkum hætti í ríkisstjórn og borgarstjórn við ákvarðanir um tímabundnar varnaraðgerðir í þágu fólks og fyrirtækja. Friðsemdarástand ríkir þó á báðum stöðum.

Leiðtogar ríkisstjórnarinnar tóku þann pól í hæðina að ákveða efnahagsráðstafanirnar alfarið upp á eigin spýtur. Þótt stjórnarandstaða sé fús til samstarfs á hún vitaskuld ekkert tilkall til þess að vera höfð með í ráðum.

Leiðtogar meirihlutans í borgarstjórn völdu hinn kostinn. Þeir ákváðu að móta ráðstafanir borgarinnar í sameiningu með minnihlutanum, sem axlaði um leið ábyrgð með auknum áhrifum.

Hugsanlega byggist afstaða leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna á því að þeir treysta stjórnarandstöðunni til að rjúfa ekki eininguna þó að hún komi ekki að borðinu. Að sama skapi gæti afstaða leiðtoga meirihlutans í borgarstjórn hafa ráðist af því að þeir hafi einfaldlega ekki treyst minnihlutanum til að viðhalda einingunni nema hann ætti einnig hlut að máli.

En þetta gæti líka verið alveg á hinn veginn. Ríkisstjórnin treysti ekki andstöðunni á Alþingi til ábyrgra ákvarðana, en borgarstjórnarmeirihlutinn treysti aftur á móti minnihlutanum.

Jafnvægið milli samstöðu og virkrar rökræðu

Aðalatriðið er að máli skiptir hvernig samstaðan er nýtt.

Smitvarnirnar byggjast á þekkingu. Rætur hennar eins og annarra vísinda liggja í gagnrýnni hugsun. Sama gildir um lýðræðið. Án rökræðu og gagnrýni virkar það ekki.

Vegurinn til að viðhalda virku lýðræði við þessar einstöku aðstæður er sannarlega vandrataður.

Sú leið, sem flokkarnir í borgarstjórn fóru við að virkja þann jákvæða anda, sem er í samfélaginu, lýsir góðu jafnvægi milli kröfunnar um samstöðu og virka lýðræðislega rökræðu og ábyrgð.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. apríl 2020