Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir nýr þingmaður Viðreisnar

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Breytingar verða á þingflokki Viðreisnar 14. apríl n.k. þegar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur, tekur sæti sem þingmaður. Tekur hún við af Þorsteini Víglundssyni, sem hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku og varaformennsku og hverfa aftur til starfa í atvinnulífinu. 

Þorbjörg er saksóknari hjá ríkissaksóknara. Hún er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og lauk einnig framhaldsnámi í lögfræði frá Columbia í New York. Hún var aðstoðarmaður Þorsteins Víglundssonar þegar hann gegndi embætti félags- og jafnréttismálaráðherra. Þorbjörg er jafnframt pistlahöfundur á Fréttablaðinu. 

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir:

„Ég hef gaman af krefjandi verkefnum, kem úr þannig starfsumhverfi og finnst spennandi að fá núna að takast á við verkefni Alþingis. Ég trúi á að hlutirnir sem máli skipta í lífinu eigi það sameiginlegt að vera krefjandi. Þingflokkur Viðreisnar er skemmtilegur og sterkur hópur, sem mér finnst frábært að verða núna hluti af. Auðvitað er síðan sérstakt að taka sæti á Alþingi með þau verkefni sem koma í kjölfar þess að faraldur er að breyta heiminum. Mér hefur fundist samstaða og samkennd einkenna fyrstu skref. Og ætla að leggja mitt af mörkum með þessi stef að leiðarljósi og frjálslyndar áherslur Viðreisnar.“

Þorsteinn Víglundsson: 

„Ég hef starfað í stjórnmálum í tæplega fjögur ár fyrir Viðreisn og er þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt. Ég kveð með söknuði allt það góða fólk sem ég hef starfað með, um leið og ég óska því velfarnaðar. Ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í uppbyggingu Viðreisnar og hlakka til að fylgjast með flokknum mínum vaxa og dafna enn frekar. Viðreisn hefur fest sig í sessi sem öflugur og skýr valkostur fyrir frjálslynt fólk.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar:

„Það er auðvitað vont að sjá góðan liðsfélaga fara af þingi en á sama tíma spennandi að fá öfluga og reynslumikla manneskju sem ég veit að hefur bæði kraftinn og hjartað á réttum stað. Þingflokkur Viðreisnar vinnur áfram  þétt saman að þeim mikilvægu málum sem á okkur brenna. Við Þorsteinn höfum átt langt og farsælt samstarf og hann er einn af mínum nánari vinum. Um leið og ég sé eftir Þorsteini af þinginu hlakka ég til samstarfs við Þorbjörgu, sem nú kemur inn í þingflokkinn með mikilvæga reynslu sem ég veit að mun nýtast okkur.”