Vorið kemur, heimur hlýnar

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Kaffitíminn er samkvæmt venju í öllum siðuðum samfélögum klukkan 15. Þannig hefur það alltaf verið og ef minnið svíkur mig ekki alveg eru fyrstu heimildir þessa að finna strax í Egils sögu. Menn héldu vígum sínum áfram eftir að hafa sest niður með kaffi og kruður, enda ekki mikið vit í því að ætla út í bardaga með sverð og skjöld á tóman maga. Og fyrir þá sem trúa því að öll smáatriði eigi heima í nýju stjórnarskránni þá væri kaffitíminn auðvitað rækilega festur einmitt þar, klukkan 15. En í nýjum veruleika Íslands hefur kaffitími þjóðar færst til klukkan 14. Breyttar aðstæður kalla jú á breyttan kaffitíma. Klukkan 14 sit ég nú, eins og meirihluti þjóðarinnar, í sjónvarpssófanum með kaffi og horfi á Ölmu, Þórólf og Víði. Þetta eru fagmennirnir okkar, en þau eru líka viðkunnanlegir fagmenn og þau eru sjarmerandi fagmenn. Það hefur raunverulegan tilgang að þau hafi þessa eiginleika. Þannig ná þau auðvitað athygli okkar. Þetta er dálítið mikilvægt atriði þegar við nálgumst þennan daglega fund líka sem sjónvarpsefni. (Og sem kona finnst mér ég geta sagt, og eiginlega að verða að nefna, að Alma er með gott hár.)

Þriggja mínútna kyrrðin

Þegar þetta er skrifað hafa verið sýndir 33 þættir í seríunni um þremenningana. Ég hef séð þá alla. Sem dyggur áhorfandi þáttarins finnst mér ég nú geta skilið og skynjað margt í seríunni sem ekki var augljóst í byrjun, til dæmis hvað býr að baki því að hefja útsendingu klukkan 14 en fundinn sjálfan klukkan 14.03. Þessar þrjár mínútur sitjum við saman í sófanum í þögninni, án þess kannski að gera okkur grein fyrir því. Þar hefur verið sett á dagskrá stutt kyrrðarstund. Hugleiðsla þjóðar. Þessar þrjár mínútur getum við líka fylgst með okkar fólki gera sig klárt. Við sjáum þau velja púlt, við sjáum hvernig fagmenn spritta hendur og stundum sjáum við þau hvíslast á. Ég hef ásamt litlum hópi fólks velt hvíslinu töluvert fyrir mér. Sem stendur er sú kenning sterkust að þar sé um að ræða veðmál þremenninganna um fund dagsins. Veðmálið snúist um hvort Björn Ingi Hrafnsson muni spyrja sömu spurningarinnar 33. daginn í röð. Flestir leikskýrendur gefa Þórólfi þann dóm að þar sýni hann mikinn karakter, þegar hann getur látið eins og fram sé komin fersk nálgun. Það er síðan ekki fyrr en þarna, þegar Víðir opnar fundinn, sem við fáum að sjá hver gestafyrirlesari dagsins verður. Þeir hafa verið allnokkrir. Það var stórt þegar líftölfræðingur birtist og talaði við þjóðina eins og hún væri fullnuma í þeim fræðum. Hann gerði það mjög vel og tókst að sefa okkur þann daginn. Takk fyrir það, líftölfræðingur. Nú þegar margir eru farnir að vinna heima og hafa yfirgefið starfsstöð, þá hefur líðanin stundum verið eins og við séum stödd í grunnbúðum fjalls á leið upp ógnarháan tind. Þessi stöðufundur segir samfélaginu hvernig aðstæður eru á fjallinu þann daginn og þessi fundur sefar þá sem finna fyrir lofthræðslu og kvíða. Þórólfur hefur síðustu daga sagt að við séum komin í fyrstu búðirnar en í ljósi aðstæðna sé annað ekki forsvaranlegt en að fara varlega.

Áhlaup á rakarastofurnar

Birtingarmyndir þessa áfalls sem þjóðin er að upplifa eru margar. Þær eru sannarlega misalvarlegar og sumar reyndar alveg lausar við að vera alvarlegar. Í hruninu 2008, sem þetta nýja áfall er auðvitað borið saman við, upplifðum við áhlaup (run) á bankana. Þessi krísa hefur leitt af sér áhlaup en ekki á bankana, heldur á rakarastofurnar. Áhugafólk um gott hár sér nú hvaða fjölmiðlamenn náðu ekki áhlaupinu og fara tæpir inn í nokkurra mánaða tímabil með vont hár. Hið fallega ljósa hár kvenna er í útrýmingarhættu og fyrir karlmanninn gæti tími vatnsgreiðslunnar verið að renna upp.

Sjónvarp allra landsmanna

Í nýjum veruleika, þar sem margir hafa áhyggjur, gerir sjónvarpsþáttur þremenninganna meira en að upplýsa þjóðina, meira en að vekja okkur til meðvitundar um alvarleika máls og meira en að sefa þjóðina. Það er dálítið afrek hjá þremur ríkisstarfsmönnum (já, Viðskiptaráð, þeir vinna líka), sem sáu ekki fyrir að vera í beinni á hverjum degi þegar þau völdu sér starf. Alma hefur lagt áherslu á að halda í gleðina (en vildi að vísu hafa af okkur stuðningsmönnum hennar rauðvínsglasið sem við leyfum okkur stöku sinnum. Það geta allir gert mistök. Líka Alma.) Eftir þátt spjallar þjóðin um hvað Alma sagði, hvernig Víðir opnaði og hvernig Þórólfur tæklaði spurningar um allt. En líka ekkert. Þátturinn er einhver fasti í tilveru sem er óljós. Alma sagði um daginn að veiran væri samkvæm sjálfri sér um hvernig hún hegðar sér. Fram til þessa höfum við að mestu verið það líka, sammála og samkvæm sjálfum okkur um að fara saman í gegnum þetta. Við finnum sárt til með þeim sem hafa veikst alvarlega og fjölskyldum þeirra. Og við þráum daginn þegar við verðum komin upp fjallið. Þar mun vorið bíða okkar. Og heimur hlýnar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. apríl 2020