Góðu hug­myndirnar búnar

Ríkis­stjórnin þarf ekki frekari hvatningu. Þegar ríkið er farið að borga fyrir­tækjum fyrir að reka fólk hljóta allar góðu hug­myndirnar að vera búnar.

Með hluta­bóta-leiðinni átti að borga fyrir­tækjum fyrir að reka ekki fólk. En skömmu síðar á­kvað ríkis­stjórnin að borga laun starfs­fólks einka­fyrir­tækja… í upp­sagnar­fresti. Sem sagt: að borga fyrir­tækjum fyrir að reka fólk.

Hluta­fé bjargað

Ef fyrir­tæki geta ekki greitt laun í upp­sagnar­fresti eru þau í reynd gjald­þrota og þá er þegar til sjóður, Á­byrgða­sjóður launa, sem gerir upp van­goldin laun við slíkar að­stæður.

Þegar ríkið á­kveður að greiða laun í upp­sagnar­fresti án kröfu um gjald­þrot er það því varla að verja at­vinnu eða tekjur launa­fólks. Það er að verja hluta­fé.

Hluta­fé­lög með tak­markaða á­byrgð eru stór­kost­leg upp­finning. Þau gera fólki mögu­legt að fara út í rekstur án þess að hætta á að tapa al­eigunni ef reksturinn gengur ekki vel. En þeir sem leggja til eða kaupa hluta­fé vita líka að þetta er alltaf á­hættu­fjár­festing sem getur auð­veld­lega glatast öll. Það gerist líka oft.

Ef þeir sem fyrir­tækið skuldar hafa trú á því að það geti starfað á­fram og greitt til baka þá geta þeir samið um af borganir og haldið fyrir­tækinu lifandi. En ef kröfu­hafarnir hafa sjálfir ekki slíka trú er ekki sjálf­gefið að ríkið eigi að leysa þá af hólmi og gefa fyrir­tækinu peninga til að það geti haldið sér á f loti. Raunar ætti það helst aldrei að gera það.

Markaðs­lög­málin skekkt

Mörgum að­gerðum ríkisins er ætlað hvort tveggja: að a) bjarga stöndugum fyrir­tækjum og b) ekki gefa pening til fyrir­tækja sem þurfa hann ekki (sem sagt: stöndugra fyrir­tækja). Þetta er aug­ljós inn­byrðis mót­sögn sem skapar furðu­legar leik­reglur á markaði.

Í­myndum okkur tvö fyrir­tæki: Vel rekið ehf. og Illa rekið ehf. sem eru í sam­keppni hvort við annað. Vel rekið ehf. hefur safnað í sjóði til að bregðast við breyttum að­stæðum en Illa rekið ehf. ekki. Nú kemur kreppa og ríkið hleður í að­gerða­pakka sem fyrir­tækin ráða hvort þau þiggja.

Við vitum að:

Illa rekið ehf. fer á hausinn án ríkis­að­stoðar en tórir með því að nýta sér hana.

Vel rekið ehf. tórir án ríkis­að­stoðar en dafnar með því að nýta sér hana.

Stjórn­endur Illa rekins ehf. sækja aug­ljós­lega um ríkis­að­stoð. Enginn segir neitt við því. En stjórn­endur Vel rekins ehf. eru í vanda. Stjórn­endurnir átta sig á því að það kunni að vekja nei­kvætt um­tal ef sótt er um ríkis­að­stoð sem fyrir­tækið þarf strangt til tekið ekki.

Niður­staðan er að bæði fyrir­tækin tóra. Ríkið hefur því tekið að sér að auka jöfnuð milli þeirra. En þótt maður geti hafa þá skoðun að ríkið eigi að tryggja á­kveðinn jöfnuð milli fólks af holdi og blóði hefur ríkið ein­fald­lega ekkert að gera með að auka jöfnuð milli fyrir­tækja á frjálsum markaði. Þar á sam­keppnin ein að ríkja. Al­menn lækkun opin­berra gjalda er sann­gjarnari leið en ein­hverjar matar­gjafir til bág­staddra hluta­fé­laga.

Nóg af þessu í bili

Auð­vitað er rétt að reyna að halda uppi at­vinnu­stigi og tryggja að vel­ferðar­kerfið geti tekið á móti þeim sem nú missa vinnuna. En að­gerðir ríkis­valdsins eru þegar orðnar mjög dýrar. Það sem kynnt hefur verið kostar 350 milljarða. Stór hluti þeirra að­gerða miðar að því að breyta leik­reglum frjáls markaðar og að lág­marka tap vegna á­hættu­fjár­festinga. Það má spyrja sig hvort það sé til lengdar skyn­sam­legt.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. maí 2020