Loksins sammála

Við Íslendingar erum oftast ósammála um málefni dagsins. Það nægir að nefna orkupakkann, ESB, krónuna, hvalveiðar, virkjanir, kvótakerfið, göngugötur, verndartolla, pylsur eða pulsur… það er af nógu að taka. En nú hefur þetta breyst.

COVID-19 hefur leitt til að við virðumst sammála um næstum allt. Við erum sammála um ágæti þríeykisins, samkomubannsins, Helga Bjöss, handþvottar og efnahagsaðgerða Alþingis. Ég er því viss um að við verðum nú loksins sammála um hundrað ára ósætti um misjafnt vægi atkvæða í alþingiskosningum á Íslandi.

Allir vita að atkvæði eru með jafnt vægi í sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum. Þar hefur hver kjósandi eitt atkvæði. Þessi regla gildir í nánast öllum löndum heims nema í kosningum til Alþingis á Íslandi!

En ef þú býrð á suðvesturhorninu þá ertu aðeins með hálft atkvæði miðað við samlanda þína á norðurvestursvæði landsins. Í síðustu kosningum þurfti um 5400 atkvæði til að koma þingmanni að hér fyrir sunnan meðan aðeins um 2700 atkvæði dugðu fyrir norðan. Alþjóðastofnanir hafa gert harðar athugasemdir við þetta misrétti.

Við sem búum á suðvesturhorninu erum sem sagt hálfdrættingar í atkvæðavægi. Nútímaorðabókin segir að hálfdrættingur hafi svipaða merkingu og meðalskussi, aukvisi og undirmálsmaður.

Ég vil ekki vera það og líklega ekki þú heldur. Ég hvet þig til að spyrja þingmanninn þinn eða flokkinn sem þú styður hvort hann sé fylgjandi því að þú verðir áfram hálfdrættingur.

Það er gleðiefni að við getum loks orðið sammála um þetta mikilvæga réttlætis- og jafnréttismál. Framvegis munu allir landsmenn njóta sama réttar þegar kemur að vægi atkvæða í kosningum. Eða hvað?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. maí 2020